Þang til að minnka metanlosun frá mjólkurkúm

Danskir vísindamenn eru þessa dagana að hleypa af stokkunum fjögurra ára rannsóknarverkefni undir yfirskriftinni Climate Feed þar sem ætlunin er að þróa fæðubótarefni úr þörungum sem gæti minnkað metanlosun frá mjólkurkúm um 30%. Verkefnið felur í sér þróun aðferða við að rækta þörunga sem hafa þessi áhrif og vinna úr þeim duft eða köggla sem auðvelt er að bæta í fóður nautgripa, án neikvæðra áhrifa á nyt kúnna eða bragð og gæði mjólkurinnar. Þörungar sem ræktaðir verða á dönskum strandsvæðum ættu m.a. að geta nýtt næringarefni sem skolast í sjóinn frá landbúnaði. Hreinni sjór og sjálfbærari landbúnaður gætu því orðið hliðarafurðir verkefnisins, auk þess sem varan ætti að draga úr fóðurþörf með því að draga úr orkutapi vegna metanlosunar. Háskólinn á Árósum sér um val á tegundum og þróun ræktunaraðferða, en verkefnið er styrkt um 11,7 milljónir danskra króna (um 217 millj. ísl. kr.) af danska nýsköpunarsjóðnum. Heildarkostnaður er áætlaður 17 milljónir DKK (um 315 millj. ísl. kr.).
(Sjá frétt vefmiðilsins Økologisk 6. september).

Fosfórmengun ógnar ferskvatni jarðar

Styrkur fosfórs í ferskvatni er víða kominn að hættumörkum, en á hverju ári bætast 1,47 teragrömm (1,47 milljónir tonna) vegna athafna manna við það sem fyrir er. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Water Resources Research, sem gefið er út af The American Geophysical Union (AGU). Á 38% jarðarinnar er styrkur fosfórs í ferskvatni kominn fram úr því sem náttúruleg kerfi ráða við að taka upp og þynna. Á þessum svæðum búa um 90% mannkyns. Stærstur hluti fosfórmengunarinnar, um 54%, á rætur að rekja til fráveitukerfa, um 38% koma úr áburði sem skolast út af landbúnaðarlandi og 8% koma frá iðnaði. Fosfórmengun í vötnum stuðlar að ofauðgun og þörungablóma með tilheyrandi súrefnisskorti og dauða í neðri lögum vatnsins.
(Sjá frétt á heimasíðu AGU 25. janúar).

Þörungaplast kemur í stað umbúðaplasts

algae_plasticNýtt plastefni úr þörungum gæti komið í stað hefðbundins plasts í umbúðum, en hópur hönnuða hefur unnið að þróun efnisins undanfarin ár. „Plastið“ er unnið úr hlaupkenndum agar sem finna má í rauðþörungum og hefur sama efni verið notað í læknavísindum. Hönnuðurnir vinna nú að frumgerð sem keppir til úrslita í Lexus Design hönnunarkeppninni og verður í framhaldi af því sýnd í hönnunarvikunni í Mílanó. Hugmyndin er að framleiða fyrst plastpoka og litlar plastumbúðir úr efninu, t.d. fyrir hótel. Efnið brotnar auðveldlega niður í náttúrunni og hefur ekki áhrif á vistkerfi sjávar, auk þess sem niðurbrot þess í jörðu eykur vatnsheldni jarðvegs.
(Sjá frétt Plastics Today 15. mars).

Ný tækni í þörungaræktun

PhotobioreactorVísindamenn við Háskólann í Alicante hafa fengið einkaleyfi á nýrri gerð ræktunartanka sem gera það mögulegt að ná meiri afköstum í ræktun smásærra þörunga en áður hefur þekkst. Nýjungarnar í þessum búnaði felast m.a. í minni þörf fyrir reglubundna hreinsun, minna viðhaldi og betri nýtingu koltvísýrings og ljóss, auk þess sem auðvelt er að stækka búnaðinn og auka framleiðsluna að sama skapi. Tæknin er enn of dýr til að teljast markaðsvæn, en fræðilega séð geta þörungar sem ræktaðir eru í þessum tönkum gefið af sér mikið magn lífolíu og verðmætra hráefna til framleiðslu á matvælum, lyfjum og snyrtivörum, þ.m.t. fitusýrur, ensím, prótein, vítamín og andoxunarefni, svo eitthvað sé nefnt, allt eftir því hvaða tegundir eru ræktaðar.
(Sjá frétt Science Daily 24. maí).

Vikulegt grænt flug yfir Atlantshafið

KLMHollenska flugfélagið KLM tilkynnti á dögunum að hér eftir verði boðið upp á flug milli New York og Amsterdam einu sinni í viku, þar sem eingöngu verður brennt endurnýjanlegu flugvélaeldsneyti úr notaðri matarolíu. Auk KLM hafa flugfélögin BA, Delta og Virgin Airlines lagt mikið fé í þróun endurnýjanlegs eldsneytis. Sérstaklega er horft til möguleika sem taldir eru liggja í framleiðslu eldsneytis úr þörungum.
(Sjá frétt BusinessGreen í gær).