Bændur geta minnkað þörf sína fyrir varnarefni í ræktun nytjaplantna með því að laða til sín fugla sem verja akra fyrir dýrum sem skerða uppskeruna. Þetta kemur fram í nýlegri rannsókn Háskólans í Michigan, sem sagt er frá í nýjasta hefti tímaritsins Agriculture, Ecosystems and Environment. Berjaræktendur hafa m.a. náð góðum árangri á þessu sviði með því að setja upp hreiðurkassa eða búa með öðrum hætti í haginn fyrir ránfugla sem síðan nærast í smærri fuglum, nagdýrum o.fl. dýrum sem annars eiga það til að éta drjúgan skammt af berjauppskerunni. Á þennan hátt fá bændurnir mikilvæga vistkerfisþjónustu með litlum tilkostnaði, spara fé í varnarefnakaupum, auka uppskeru, framleiða neytendavænni vöru og hjálpa jafnvel til við að viðhalda stofnum lífvera í útrýmingarhættu.
(Sjá frétt á heimasíðu Háskólans í Michigan 1. mars).
Greinasafn fyrir merki: vistkerfaþjónusta
Loftslagsbreytingar ógna Evrópu
Vistkerfum, lýðheilsu og hagkerfum Evrópu stafar vaxandi ógn af loftslagsbreytingum að því er fram kemur í nýrri skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA). Sum svæði eru þó enn viðkvæmari en önnur. Þannig má búast við að suður- og suðausturhluti álfunnar verði illa úti vegna hækkandi hitastigs og þurrka, sem m.a. eykur líkur á uppskerubresti, skerðingu líffræðilegrar fjölbreytni, skógareldum og útbreiðslu sjúkdóma, m.a. vegna landnáms mítla og skordýra sem bera smit. Við Atlantshafið felst ógnin einkum í aukinni flóðahættu og stórfelldum breytingum á lífríki sjávar vegna súrnunar og svæðisbundins súrefnisskorts. Þá verða heimskautasvæðin hart úti vegna mikilla breytinga á lofthita og sjávarhita með tilheyrandi bráðnun íss og jökla. Jákvæð áhrif, svo sem vegna bættra ræktunarskilyrða, vega létt í þessum samanburði. Samkvæmt skýrslunni er brýn þörf fyrir betri og sveigjanlegri áætlanir um aðlögun að loftslagsbreytingum.
(Sjá frétt á heimasíðu EEA í dag).
Landbúnaðarskógrækt betri en hefðbundinn landbúnaður
Landbúnaðarskógrækt (e. agroforestry) hefur marga kosti umfram hefðbundinn landbúnað og hefðbundna skógrækt sem stunduð eru sitt í hvoru lagi. Þetta er niðurstaða evrópskrar rannsóknar sem byggði á niðurstöðum 365 samanburðarverkefna sem unnin hafa verið í 10 Evrópulöndum á síðustu 20 árum. Landbúnaðarskógrækt felst í því að rækta skóg samhliða akuryrkju eða búfjárrækt í þeim tilgangi að bæta ræktunarskilyrði og auka uppskeru. Yfirburðir landbúnaðarskógræktar í umhverfislegu tilliti felast m.a. í verndun lífrræðilegrar fjölbreytni, marktækt minni útskolun næringarefna, langtum minni jarðvegseyðingu og öflugri vistkerfaþjónustu en í aðskilinni ræktun.
(Sjá fréttabréf ESB, Science for Environmental Policy í dag).
Hvíta húsið til bjargar býflugum
Hvíta húsið gaf í dag út Landsáætlun um heilsueflingu býflugna og annarra frjóbera sem á að stuðla að endurheimt frjóberastofna í Bandaríkjunum. Áætlunin kemur út samhliða rannsóknaniðurstöðum sem sýna að býflugnabændur í Bandaríkjunum hafa á einu ári misst um 42% af býflugnabúum sínum. Býflugur, fuglar, leðurblökur og fiðrildi gegna lykilhlutverki í frævun ávaxta- og grænmetisplantna auk annarra plantna sem eru undirstaða fæðuöflunar. Verðmæti þeirrar vistkerfaþjónustu sem þessir frjóberar veita er áætlað um 15 milljarðar Bandaríkjadala á ári (um 2.000 milljarðar ísl. kr.). Landsáætlunin felur meðal annars í sér tillögur um hvernig best sé að endurheimta skóglendi eftir skógarelda, hvernig hanna skuli opinberar byggingar með heilbrigði frjóbera í huga og hvernig haga skuli verndun vegkanta sem eru mikilvæg búsvæði frjóbera. Þá er stefnt að því að endurheimta eða bæta tæplega 3 milljónir hektara af landi fyrir frjóbera á næstu 5 árum.
(Sjá frétt Washington Post í dag).
Styrkur CO2 kominn yfir 400 ppm
Meðalstyrkur koltvísýrings í andrúmslofti jarðar fór í fyrsta sinn yfir 400 milljónustuparta (ppm) í mars 2015 samkvæmt mælingum bandarísku sjávar- og andrúmsloftsstofnunarinnar (NOAA). Mælingar frá einstökum stöðvum á norðurheimskautssvæðinu og á Hawaii hafa áður sýnt styrk yfir 400 ppm en heimsmeðaltalið hefur aldrei áður mælst svo hátt. Að mati NOAA þýðir þetta að styrkur koltvísýrings í andrúmslofti hefur hækkað vegna losunar gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum um meira en 120 ppm síðan fyrir iðnbyltingu og hefur helmingur af þessari losun (60 ppm) átt sér stað eftir 1980. Gjarnan er miðað við 400 ppm sem viðmiðunarmörk fyrir óafturkræfar breytingar á þjónustu vistkerfa.
(Sjá frétt NOAA 6. maí).
Vistkerfi fjarða binda mikið kolefni
Vistkerfi fjarða binda um 11% af öllu því kolefni sem binst í hafinu samkvæmt nýrri rannsókn Háskólans í Otago á Nýja-Sjálandi á setlögum í fjörðum. Firðir gegna þannig mjög mikilvægu hlutverki í loftslagsstjórnun og er talið að árlega séu um 18 milljón tonn af lífrænu kolefni grafin í seti fjarða. Firðir þekja aðeins um 0,1% af yfirborði sjávar og er því geta þeirra til kolefnisbindingar mun meiri en annarra hafsvæða. Þar sem firðir eru djúpir og oft tiltölulega súrefnissnauðir eru þeir mjög stöðugir geymslustaðir fyrir kolefnisríkt set. Kolefnisbinding í seti er mjög mikilvæg vistkerfaþjónusta sem getur dregið verulega úr sveiflum í magni koltvísýrings í andrúmslofti og þannig haft áhrif á þróun loftslags jarðar. Einnig er kolefnisbinding í setlögum mjög varanleg, þar sem geymslan getur dugað í þúsundir ára.
(Sjá frétt Science Daily 4. maí).
Þolmörk fjögurra lykilkerfa jarðar yfirstigin
Mannkynið er komið út fyrir þolmörk jarðar á fjórum sviðum af níu sem skilgreind hafa verið, að því er fram kemur í nýrri rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Science. Sviðin fjögur sem um ræðir eru líffræðileg fjölbreytni, loftslagsbreytingar, eyðing skóga og lífjarðefnafræðileg ferli (hringrás fosfórs og köfnunarefnis). Þegar farið er yfir þolmörkin aukast líkur á óafturkræfum skemmdum á vistkerfum jarðar með þeim afleiðingum að jörðin verður mun verri dvalarstaður fyrir fólk en áður. Þolmörkin voru skilgreind af vísindamönnum árið 2009 til að auðvelda stjórnvöldum að átta sig á ástandi jarðarinnar og forgangsraða stefnumótun eftir ástandi hvers þáttar um sig. Þeir fimm þættir sem enn eru innan marka eru eyðing ósonlagsins, súrnun sjávar, notkun ferskvatns, úði í andrúmslofti (e. atmospheric aerosol) og efnamengun.
(Sjá fréttablað ESB um umhverfisstefnumótun 16. apríl).
Fornri þekkingu beitt gegn hnignun tegunda
Fulltrúar 115 þjóða innan IPBES (Milliríkjanefndarinnar um líffræðilega fjölbreytni og þjónustu vistkerfa) hafa tekið höndum saman um að safna og leiða saman fornar landbúnaðaraðferðir og þekkingu frumbyggja hvaðanæva að úr heiminum í þeirri von að þessu megi beita til að sporna gegn hraðasta útdauða tegunda frá því á dögum risaeðlanna. Meðal þeirra aðferða sem talið er að geti nýst í þessari viðleitni er fiskeldi á hrísgrjónaökrum líkt og stundað var í Kína og víðar fyrir 1200 árum. Með því að rækta hrísgrjón og fiska á sama svæði er hægt að draga úr varnarefnanotkun um 68% og minnka þörfina fyrir tilbúinn áburð um 24% samanborið við einhæfar ræktunaraðferðir samtímans. Varnarefni drepa alla jafna fleiri tegundir lífvera en þeim er ætlað, þannig að þessi eina aðgerð getur skipt verulegu máli fyrir vistkerfið. Einnig verður skoðað hvernig samnýta megi veðurþekkingu Inúíta með gögnum frá gervihnöttum til að meta bráðnun íss, svo annað dæmi sé nefnt.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).