Japanskir vísindamenn hafa hugsanlega fundið efni sem nýta mætti til að fjölga greinum plantna og auka þannig uppskeru. Vitað er að plöntugenið D14 á þátt í að takmarka fjölgun greina á plöntum á borð við eplatré. Við prófanir á áhrifum 800 mismunandi sameinda á virkni gensins kom í ljós að 18 þeirra bældu virknina um 70% eða meira. Sameindin DL1 skar sig úr hvað þetta varðar og virtist valda talsvert aukinni greinamyndun bæði hjá tilteknum blómplöntum og hrísgrjónum. Efnið kann því að nýtast til að auka uppskeru. Hafnar eru rannsóknir á því hversu lengi efnið endist í jarðvegi og hvort það hafi eituráhrif á fólk.
(Sjá frétt Science Daily 7. febrúar).