Ónæmiskerfið þróast hægar en loftslagið

Vísindamenn við Háskólann í Lundi hafa fyrstir manna sýnt fram á tengsl milli ónæmiskerfis í fuglum og loftslagsins sem þeir lifa í. Fuglar sem ala allan sinn aldur í hitabeltislöndum með mikla úrkomu hafa fleiri ónæmiserfðavísa en fuglar á norðlægari og þurrari slóðum og ráða þess vegna við fleiri sjúdóma. Farfuglar líkjast evrópskum staðfuglum hvað þetta varðar og hafa tiltölulega fáa ónæmiserfðavísa, enda geta þeir í raun flúið sjúkdóma. Ónæmiserfðavísar allra hryggdýra eru sambærilegir og því draga vísindamennirnar þá ályktun af rannsókninni að þegar hitastig hækkar og úrkoma eykst vegna loftslagsbreytinga, komist ýmis dýr í tæri við sjúkdóma sem þau ráða ekki við. Ónæmiskerfið hafi þróast á milljónum ára og breytingar á því gangi miklu hægar fyrir sig en loftslagsbreytingarnar.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet í dag).

Fuglar geta dregið úr varnarefnanotkun

Bændur geta minnkað þörf sína fyrir varnarefni í ræktun nytjaplantna með því að laða til sín fugla sem verja akra fyrir dýrum sem skerða uppskeruna. Þetta kemur fram í nýlegri rannsókn Háskólans í Michigan, sem sagt er frá í nýjasta hefti tímaritsins Agriculture, Ecosystems and Environment. Berjaræktendur hafa m.a. náð góðum árangri á þessu sviði með því að setja upp hreiðurkassa eða búa með öðrum hætti í haginn fyrir ránfugla sem síðan nærast í smærri fuglum, nagdýrum o.fl. dýrum sem annars eiga það til að éta drjúgan skammt af berjauppskerunni. Á þennan hátt fá bændurnir mikilvæga vistkerfisþjónustu með litlum tilkostnaði, spara fé í varnarefnakaupum, auka uppskeru, framleiða neytendavænni vöru og hjálpa jafnvel til við að viðhalda stofnum lífvera í útrýmingarhættu.
(Sjá frétt á heimasíðu Háskólans í Michigan 1. mars).

Fuglar drepast á olíusöndum Alberta

ducksYfir 100 fuglshræ hafa fundist við úrgangstjarnir á vinnslusvæðum olíusands í Albertafylki í Kanada samkvæmt skýrslum sem Orkustofnun Alberta (Alberta’s Energy Regulator) hefur fengið í hendurnar. Fuglarnir drápust vegna snertingar við eitrað úrkast sem geymt er í tjörnunum, en ekki liggur fyrir hvort fuglarnir lentu þarna vegna óvenjulegra veðuraðstæðna eða óviðunandi fælibúnaðar, sem skylt er að koma upp við tjarnir af þessu tagi. Eitt af fyrirtækjunum sem er ábyrgt fyrir tjörnunum, Canadian Oil Sands ltd., var sektað um 3 milljónir Kanadadala (um 328 millj. ísl. kr.) fyrir svipað atvik árið 2008 þar sem 1.600 endur drápust eftir að hafa lent á gryfju þar sem lögbundnum fælibúnaði hafði ekki verið komið fyrir.
(Sjá frétt Planet Ark 7. nóvember).

Hormónaraskandi efni hafa áhrif á afkomu fugla

fossbuiHormónaraskandi efni hafa áhrif á þróun og afkomu fugla með búsvæði við ár sem renna nálægt þéttbýlisstöðum. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn á fuglinum fossbúa í Suður-Wales. Margar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum hórmónaraskandi efna í fráveituvatni á afkomu fiskstofna, en minna hefur verið rýnt í áhrif á fugla. Í rannsókninni á fossbúunum kom í ljós að ungar fugla sem náðu í fæðu úr ám þéttbýlissvæða voru minni en á öðrum búsvæðum, auk þess sem hlutfall kvenkyns fugla var hærra. Hormónaraskandi efni berast í fráveituvatn m.a. úr lyfjum og fæði íbúa.
(Sjá frétt ENN í dag).