Umhverfisstofnun Svíþjóðar (Naturvårdsverket) hefur tekið saman sérstakan leiðarvísi fyrir rekstraraðila gervigrasvalla um aðgerðir til að koma í veg fyrir að plastkurl úr gervigrasinu berist út í umhverfið. Plastagnir (2-3 mm í þvermál) eru notaðar í miklum mæli sem fyllingarefni í gervigras og í ljós hefur komið að gervigrasvellir eru ein helsta uppspretta örplastmengunar í náttúrunni. Í leiðarvísinum er bent á nokkrar aðgerðir sem mælt er með að verði gripið til, þ.á.m. að safna snjó sem mokað er af gervigrasvöllum á þar til gerð svæði svo að hægt verði að safna plastkurlinu saman þegar snjóa leysir og koma því aftur inn á völlinn eða í úrgangsmeðhöndlun, í stað þess að leyfa því að renna til sjávar með ofanvatni. Þá er lagt til að útbúin verði aðstaða þar sem notendur vallanna geta dustað af sér kurlið á leiðinni útaf og að allir rekstraraðilar gangi frá sérstakri áætlun um mengunarvarnir.
(Sjá frétt á heimasíðu Naturvårdsverket 5. mars).
Greinasafn fyrir merki: fráveitur
Fosfórmengun ógnar ferskvatni jarðar
Styrkur fosfórs í ferskvatni er víða kominn að hættumörkum, en á hverju ári bætast 1,47 teragrömm (1,47 milljónir tonna) vegna athafna manna við það sem fyrir er. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Water Resources Research, sem gefið er út af The American Geophysical Union (AGU). Á 38% jarðarinnar er styrkur fosfórs í ferskvatni kominn fram úr því sem náttúruleg kerfi ráða við að taka upp og þynna. Á þessum svæðum búa um 90% mannkyns. Stærstur hluti fosfórmengunarinnar, um 54%, á rætur að rekja til fráveitukerfa, um 38% koma úr áburði sem skolast út af landbúnaðarlandi og 8% koma frá iðnaði. Fosfórmengun í vötnum stuðlar að ofauðgun og þörungablóma með tilheyrandi súrefnisskorti og dauða í neðri lögum vatnsins.
(Sjá frétt á heimasíðu AGU 25. janúar).
Ný aðferð hreinsar lyfjaleifar úr skólpi
Tæknideild Linköpingbæjar í Svíþjóð hefur tekið í notkun fyrstu skólphreinsistöðina sem eyðir lyfjaleifum að miklu leyti áður en skólpinu er hleypt út í viðtakann. Þetta er gert með því að bæta ósoni í vatnið í stöðinni. Aðferðin er orkufrek og því nauðsynlegt að gæta hófs í beitingu hennar, auk þess sem tryggja þarf að allt ósonið sé nýtt í ferlinu. Fyrstu prófanir benda til að hægt sé að hreinsa allt að 90% lyfjaleifanna úr fráveituvatninu með þessari aðferð, en engu að síður leggja sérfræðingar áherslu á mikilvægi fyrirbyggjandi aðgerða til að sem minnst af lyfjaleifum berist í fráveituna.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 19. janúar).
Fiskar í menguðu vatni þurfa að vinna meira
Lyfjaleifar og önnur mengunarefni í vatni neyða fiska til að leggja á sig meira erfiði en ella til að komast af, að því er fram kemur í nýrri vísindagrein eftir sérfræðinga við McMaster-háskólann í Ontaríó í Kanada. Jafnvel fullkomnustu skólphreinsistöðvar ná ekki að klófesta leifar af lyfjum á borð við getnaðarvarnarpillur, þunglyndislyf og beta-blokkera áður en skólpinu er hleypt út í viðtakann. Þessi efni og önnur mengunarefni í vatni gera það að verkum að fiskar leggja á sig u.þ.b. 30% viðbótarvinnu til að losa sig við efnin. Þetta þýðir að minni orka verður afgangs en ella til annarra verka, svo sem til þess að afla næringar, verjast rándýrum og æxlast. Þar með minnka afkomumöguleikar stofnsins, jafnvel þótt efnin drepi ekki fiskana. Þarna er því í raun um falin eitrunaráhrif að ræða. Einn af höfundum rannsóknarinnar líkir þessum áhrifum við það ef fólk þyrfti að ganga í nokkrar klukkustundir á hverjum degi (án þess að fá meiri mat).
(Sjá frétt Science Daily 16. janúar).
Skotar banna eyrnapinna úr plasti
Skosk stjórnvöld kynntu á dögunum þá ákvörðun sína að banna framleiðslu og sölu á eyrnapinnum úr plasti. Gríðarlegt magn af þessu varningi berst enn til sjávar með fráveituvatni, þrátt fyrir margar upplýsingaherferðir til að kenna fólki að henda ekki eyrnapinnum í salernisskálar að notkun lokinni. Plastið í pinnunum brotnar seint eða aldrei niður í hafinu og pinnarnir geta verið banabiti fiska og annarra sjávardýra sem gleypa þá. Margar stærri verslunarkeðjur eru hættar að selja plasteyrnapinna, enda er nóg til að pinnum úr umhverfisvænni efnum.Talið er að þessi eina aðgerð geti minnkað plastmengun frá Skotlandi um helming.
(Sjá frétt The Guardian 11. janúar).
Meira örplast á ökrum en í hafinu
Seyra sem dreift er á akra og tún í Evrópu og Norður-Ameríku inniheldur gríðarmikið magn af plastögnum sem fráveitukerfi hafa ekki náð að hreinsa úr skólpi. Samkvæmt nýrri rannsókn Landbúnaðarháskóla Svíþjóðar (SLU) og Norsku vatnsrannsóknastofnunarinnar (NIVA) er 110-730 þúsund tonnum af örplasti dreift með þessum hætti á ræktað land í þessum heimsálfum. Þetta er talið vera meira en það sem lendir í sjónum. Strangar reglur gilda um þungmálma og önnur hættuleg efni í seyru, en enn sem komið er gilda engin slík ákvæði um örplast.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet í dag).
Örlitlir skammtar eiturefna trufla vatnalífverur
Örlitlir skammtar af eiturefnum geta haft áhrif á næringarvenjur og sundhegðun vatnadýra. Þetta kom fram í rannsókn vísindamanna við háskólana í Barcelona og Portsmouth, en þeir könnuðu áhrif afar lítilla skammta af tilteknu sveppaeitri og tilteknu þunglyndislyfi sem berast að einhverju marki í vötn frá landbúnaði og fráveitukerfum. Marflær nærast m.a. á laufum sem sveppir hafa brotið niður, en örlítið magn sveppaeiturs dugar til að spilla því ferli. Þunglyndislyfjaleifar höfðu einnig neikvæð áhrif á fæðuinntöku. Marflær syntu hraðar en ella í vatni sem var annað hvort mengað af sveppaeitri eða þunglyndislyfi, en hægar ef bæði efnin voru til staðar samtímis. Rannsóknin bendir annars vegar til að efnamengun geti haft veruleg áhrif á hegðun vatnadýra löngu áður en banvænum styrk er náð og hins vegar að kokteiláhrif tveggja eða fleiri efna geti leitt til ófyrirséðra breytinga í vistkerfinu og þar með í fæðukeðju manna.
(Sjá frétt Science Daily 16. október).
Vökvað með skólpi á Samsø
Á dönsku eyjunni Samsø er verið að gera tilraun með að nýta fráveituvatn til vökvunar. Venjulega leiðin í þessu er að vinna köfnunarefni og fosfór úr vatninu áður en því er sleppt út í viðtaka og nýta þessi efni síðan í áburðarframleiðslu af einhverju tagi. Nýjungin sem hér um ræðir felst í að nota fráveituvatnið beinlínis sem áburð en fyrst eru þó hreinsuð úr því hættuleg efni. Með þessu sparast orka sem annars fer í fyrsta lagi í að ná næringarefnunum úr vatninu og í öðru lagi í að framleiða áburð úr þeim. Fyrst um sinn verður þetta vatn aðeins notað á tún og önnur svæði sem ekki eru nýtt beint í matvælaframleiðslu, en í framtíðinni standa vonir til að hægt verði að útvíkka notkunina. Hópur sem nefnir sig Minor Change Group stendur að verkefninu með stuðningi Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen).
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 23. ágúst).
Líkamshiti nýttur til húshitunar
Í haust verður hleypt af stokkunum evrópsku verkefni þar sem leitað verður leiða til að nýta afgangsvarma frá ýmsum athöfnum í þéttbýli til upphitunar húsnæðis. Sjónum verður beint að mismunandi hitagjöfum í þeim borgum sem taka þátt í verkefninu, svo sem afgangsvarma frá loftræstikerfum, fráveitukerfum og viftum í lestargöngum. Talið er að nái megi fram verulegum orkusparnaði með því að fullnýta þennan varma í fjarvarmaveitum. Sænska ráðgjafarstofan IVL stýrir verkefninu en heildarkostnaðaráætlun þess hljóðar upp á 4 milljónir evra (um 500 milljónir ísl. kr.).
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet 16. ágúst).
Fyrsta Svansmerkta bílaþvottastöðin í Noregi
Síðastliðinn föstudag varð bílaþvottastöð Shell við Solbråveien í Asker fyrsta svansmerkta bílaþvottastöðin í Noregi. Samtals eiga Norðmenn nú um 2,5 milljónir einkabíla og er áætlað að árlega fari um 10 milljónir rúmmetra af vatni og 100.000 tonn af hreinsiefnum í að þvo alla þessa bíla. Mest af þessu rennur út í nærliggjandi vötn og firði, blandað með tjöruleifum og öðrum óhreinindum af bílunum, auk þess sem eitthvað safnast fyrir í seyru í skólphreinsistöðvum og er síðan gjarnan notað til áburðar á akra. Til að fá Svaninn þurfa bílaþvottastöðvar að uppfylla strangar kröfur um hreinsiefni, vatnsnotkun og hreinsun frárennslis, svo eitthvað sé nefnt. Áætlað er að svansmerktar bílaþvottastöðvar noti um 75% minna vatn en aðrar stöðvar og að þar sé hreinsun fráveituvatns um 90% betri en annars staðar.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Noregi 21. október).