Hægt verður að mæta allri fæðuþörf mannkynsins árið 2050 með lífrænt vottuðum matvælum, að því er fram kemur í nýrri þýskri rannsókn. Lífræn ræktun er sjálfbærari en hefðbundinn landbúnaður samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar, en þar sem hún er alla jafna landfrekari þurfi jafnframt að draga úr kjötframleiðslu og matarsóun. Þá felist stór áskorun í að útvega nægjanlegt köfnunarefni til notkunar í ræktuninni, en aukin ræktun köfnunarefnisbindandi belgjurta væri stórt skref í þá átt. Að óbreyttu stefni landbúnaður heimsins í öngstræti vegna mikillar losunar gróðurhúsalofttegunda, ofauðgunar og minnkandi líffræðilegrar fjölbreytni.
(Sjá frétt á Videnskap.dk 14. nóvember).