Kolefnisskattur á rautt kjöt?

Samtök breskra sérfræðinga í heilbrigðismálum leggja til að loftslagsskattur verði lagður á matvörur sem hafa mikil neikvæð áhrif á umhverfið, svo sem rautt kjöt og mjólkurvörur. Tekin verði ákvörðun um þetta sem fyrst en gefinn aðlögunartími til 2025, þannig að framleiðendur og seljendur hafi svigrúm til breytinga. Í samtökunum sem um ræðir (UKHACC) eru m.a. 10 háskólar í heilbrigðisvísindum, Breska læknafélagið (British Medical Association) og læknatímaritið Lancet. Samtökin benda á að minni neysla á umræddum vörum sé góð fyrir heilsuna og að loftslagsvandinn verði ekki leystur án þess að fólk breyti fæðuvenjum sínum. Ekki sé verið að leggja til að allir verði grænkerar, heldur að stjórntækjum verði beitt til að draga úr neyslu loftslagsskaðlegra matvæla. Sambærilegir skattar hafi sannað gildi sitt til að draga úr neyslu sykraðra gosdrykkja o.fl. Auk þess leggur UKHACC m.a. til að matvæli verði merkt með upplýsingum um umhverfisáhrif og að gerðar verði lágmarks umhverfiskröfur við innkaup á matvælum fyrir mötuneyti í skólum, sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum og fangelsum.
(Sjá frétt The Guardian í gær).

Lífræn matvæli geta brauðfætt alla jarðarbúa

Hægt verður að mæta allri fæðuþörf mannkynsins árið 2050 með lífrænt vottuðum matvælum, að því er fram kemur í nýrri þýskri rannsókn. Lífræn ræktun er sjálfbærari en hefðbundinn landbúnaður samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar, en þar sem hún er alla jafna landfrekari þurfi jafnframt að draga úr kjötframleiðslu og matarsóun. Þá felist stór áskorun í að útvega nægjanlegt köfnunarefni til notkunar í ræktuninni, en aukin ræktun köfnunarefnisbindandi belgjurta væri stórt skref í þá átt. Að óbreyttu stefni landbúnaður heimsins í öngstræti vegna mikillar losunar gróðurhúsalofttegunda, ofauðgunar og minnkandi líffræðilegrar fjölbreytni.
(Sjá frétt á Videnskap.dk 14. nóvember).

Kjötát fer vaxandi

KjötMannskepnan er tiltölulega neðarlega í fæðukeðjunni, en vaxandi kjötneysla í löndum á borð við Kína og Indland gerir það að verkum að hlutur kjöts í fæðunni vex jafnt og þétt á heimsvísu. Í grein sem birtist á dögunum í tímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences eru fæðuþrepastig (e. human trophic level (HTL)) reiknuð í fyrsta sinn fyrir mannkynið í heild og fyrir einstakar þjóðir. Meðalmaðurinn er með HTL=2,21 á kvarða sem nær frá 1 (plöntur) upp í 5,5 (algjörar kjötætur svo sem tígrisdýr og hákarlar). Ríkustu þjóðir heims raða sér í efstu sætin í þessum samanburði, en þar fer hlutfall kjöts í fæðu þó heldur lækkandi. Búrúndí er eitt þeirra land sem er neðst á listanum með HTL=2,04 (96,7% jurtafæði) en Ísland er í efsta flokki með HTL=2,57 (50% jurtafæði). Aukin kjötneysla er afar neikvæð í umhverfislegu tilliti, þar sem mun meira af vatni, landi og orku þarf til að framleiða kjöt en sama magn af jurtafæði.
(Sjá frétt á Mongabay.com í dag).