Sveppaeitur sem dreift er á ræktað land virðist eiga stóran þátt í þeirri fækkun býflugna sem mikið hefur verið í umræðunni á síðustu misserum. Þetta kom í ljós í nýrri greiningu sem sagt er frá í tímaritinu Proceedings of the Royal Society B. Niðurstöðurnar voru fengar með tölfræðilegri greiningu á niðurstöðum rannsókna frá 284 stöðum í Bandaríkjunum og samtals voru skoðuð áhrif 24 mismunandi þátta á afkomumöguleika fjögurra býflugnategunda. Meðal þessara þátta voru hnattstaða, hæð yfir sjó, gerð og ástand búsvæða, þéttleiki byggðar og notkun varnarefna. Það kom nokkuð á óvart að sveppaeitrið klóróþalóníl reyndist stærsti áhrifavaldurinn. Talið er líklegt að þetta stafi af því að eitrið drepi örverur í meltingarvegi býflugnanna og auki þannig líkur á þarmaveiki af völdum Nosema-sníkilsins. Áður var vitað að notkun skordýraeiturs sem inniheldur neónikótínoíð hefur skaðað býflugnastofna. Býflugur og aðrir frjóberar sjá um að frjóvga um 75% allra matjurta í heiminum og því er fækkun þeirra mikið áhyggjuefni.
(Sjá frétt The Guardian 29. desember).
Greinasafn fyrir merki: sveppaeitur
Örlitlir skammtar eiturefna trufla vatnalífverur
Örlitlir skammtar af eiturefnum geta haft áhrif á næringarvenjur og sundhegðun vatnadýra. Þetta kom fram í rannsókn vísindamanna við háskólana í Barcelona og Portsmouth, en þeir könnuðu áhrif afar lítilla skammta af tilteknu sveppaeitri og tilteknu þunglyndislyfi sem berast að einhverju marki í vötn frá landbúnaði og fráveitukerfum. Marflær nærast m.a. á laufum sem sveppir hafa brotið niður, en örlítið magn sveppaeiturs dugar til að spilla því ferli. Þunglyndislyfjaleifar höfðu einnig neikvæð áhrif á fæðuinntöku. Marflær syntu hraðar en ella í vatni sem var annað hvort mengað af sveppaeitri eða þunglyndislyfi, en hægar ef bæði efnin voru til staðar samtímis. Rannsóknin bendir annars vegar til að efnamengun geti haft veruleg áhrif á hegðun vatnadýra löngu áður en banvænum styrk er náð og hins vegar að kokteiláhrif tveggja eða fleiri efna geti leitt til ófyrirséðra breytinga í vistkerfinu og þar með í fæðukeðju manna.
(Sjá frétt Science Daily 16. október).
Fjöldi eiturefna, en ekki bara styrkur þeirra, tengdur við býflugnadauða
Hópur vísindamanna við Háskólann í Maryland hefur sýnt fram á tengsl milli dánartíðni býflugna og fjölda eiturefna sem til staðar eru í búinu. Margar rannsóknir hafa áður bent til þess að tiltekin eiturefni valdi hruni í býflugnastofnum en samverkandi áhrif efnanna hafa ekki áður verið könnuð með þeim hætti sem gert var í þessari rannsókn. Svo virðist sem flugurnar missi hæfileikann til afeitrunar þegar fleiri efni bætast við, jafnvel þótt hvert efni um sig sé í mjög lágum styrk. Sérstaka athygli vakti að tiltekin sveppaeiturefni, sem hingað til hafa verið talin örugg fyrir býflugur, virðast hafa mikið að segja í þessu sambandi.
(Sjá frétt Science Daily 7. október).