Styrkur fosfórs í ferskvatni er víða kominn að hættumörkum, en á hverju ári bætast 1,47 teragrömm (1,47 milljónir tonna) vegna athafna manna við það sem fyrir er. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Water Resources Research, sem gefið er út af The American Geophysical Union (AGU). Á 38% jarðarinnar er styrkur fosfórs í ferskvatni kominn fram úr því sem náttúruleg kerfi ráða við að taka upp og þynna. Á þessum svæðum búa um 90% mannkyns. Stærstur hluti fosfórmengunarinnar, um 54%, á rætur að rekja til fráveitukerfa, um 38% koma úr áburði sem skolast út af landbúnaðarlandi og 8% koma frá iðnaði. Fosfórmengun í vötnum stuðlar að ofauðgun og þörungablóma með tilheyrandi súrefnisskorti og dauða í neðri lögum vatnsins.
(Sjá frétt á heimasíðu AGU 25. janúar).