Ný aðferð til að mæla örplast í drykkjarvatni

Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) fékk nýlega Háskólann í Árósum til að þróa nýja aðferð til að taka sýni úr drykkjarvatni til greiningar á fjölda örplastagna. Mælingar sem gerðar voru sl. haust bentu til að verulegt magn örplasts væri að finna í dönsku drykkjarvatni, en mikil óvissa í mælingunum var talin veikja niðurstöðurnar. Þannig þótti ekki tryggt að utanaðkomandi mengun, t.d. úr lofti, hefði ekki spillt sýnunum. Aðferð Háskólans í Árósum gengur út á sýnatöku í lokuðu kerfi sem ætti að útiloka ytri mengunarþætti. Fyrstu prófanir með nýja búnaðinum benda til að örplastmengun í drykkjarvatni sé mun minni en fyrri mælingar gáfu vísbendingar um. Þannig fannst aðeins ein örplastögn í þremur 50 lítra sýnum sem skoðuð voru í tilraunaskyni. Ætlunin er að prófa búnaðinn með mun víðtækari rannsóknum á næstunni.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen í dag).

Fosfórmengun ógnar ferskvatni jarðar

Styrkur fosfórs í ferskvatni er víða kominn að hættumörkum, en á hverju ári bætast 1,47 teragrömm (1,47 milljónir tonna) vegna athafna manna við það sem fyrir er. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Water Resources Research, sem gefið er út af The American Geophysical Union (AGU). Á 38% jarðarinnar er styrkur fosfórs í ferskvatni kominn fram úr því sem náttúruleg kerfi ráða við að taka upp og þynna. Á þessum svæðum búa um 90% mannkyns. Stærstur hluti fosfórmengunarinnar, um 54%, á rætur að rekja til fráveitukerfa, um 38% koma úr áburði sem skolast út af landbúnaðarlandi og 8% koma frá iðnaði. Fosfórmengun í vötnum stuðlar að ofauðgun og þörungablóma með tilheyrandi súrefnisskorti og dauða í neðri lögum vatnsins.
(Sjá frétt á heimasíðu AGU 25. janúar).

Endurheimt skóga í hlíðum Kilimanjaro gæti bætt úr vatnsskorti í Austur-Afríku

340776-kilimanjaro-160Brýnt er að endurheimta skóga í hlíðum Kilimanjaro til að bæta vatnsbúskap svæðisins, að því er fram kemur í skýrslu Sameinuðu þjóðanna sem kynnt var í dag á fjallaráðstefnunni World Mountain Forum í Uganda. Á síðustu 40 árum hafa um 13.000 hektarar af skóglendi fjallsins eyðst vegna loftslagsbreytinga, m.a. í skógareldum, en áætlað er að þessir skógar hafi verið uppspretta drykkjarvatns fyrir milljón manns. Endurheimt skógarins bætir ekki aðeins vatnsstöðu og ræktunarmöguleika, heldur myndi hún einnig auðvelda uppbyggingu vatnsaflsvirkjana og styðja við ferðaþjónustu sem er gríðarlega mikilvæg fyrir hagkerfi nærliggjandi svæða.
(Sjá fréttasíðu Sameinuðu þjóðanna í dag).

Erlend landbúnaðarfyrirtæki stuðla að vatnsskorti í Afríku

africa-green-waterMikil vatnsþörf korntegunda sem ræktaðar eru á svæðum sem erlend fyrirtæki hafa tekið á leigu í Afríku til landbúnaðarnota á sinn þátt í vaxandi vatnsskorti í álfunni og harðari samkeppni um vatnsauðlindina. Þetta kom fram í rannsókn vísindamanna við Háskólann í Lundi, sem sagt er frá í tímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences. Það sem af er öldinni hafa erlend fyrirtæki tekið á leigu stórar spildur í Afríku í þeim tilgangi að rækta þar ódýrar matjurtir, ódýrt timbur og ódýrt hráefni til framleiðslu á lífeldsneyti. Tegundirnar sem ræktaðar eru á þessum svæðum eru iðulega frekari á vatn en þær tegundir sem ræktaðar hafa verið á svæðunum til þessa. Þessu hefur fylgt stóraukin nýting á ferskvatni til vökvunar í stað regnvatns sem áður dugði að mestu leyti. Leigusamningar um land í Afríku eru gjarnan gerðir til allt að 99 ára og fela sjaldnast í sér nokkrar takmarkanir á vatnsnotkun.
(Sjá frétt Science Daily í dag).

Bruðlað með „ósýnilegt vatn“

watershortage_160Brýnt er að draga úr „ósýnilegri vatnsneyslu“ við matvælaframleiðslu að mati Heimssamtaka efnaverkfræðinga (IChemE), en með „ósýnilegri vatnsneyslu“ er átt við það vatn sem notað er í framleiðsluferlinu. Samtökin áætla að hver einstaklingur neyti um 1,8 milljónar lítra af ósýnilegu vatni árlega eða um 2.000-5.000 lítra á dag. Horfur eru á að vatnsnotkun muni aukast um meira en 50% fram til ársins 2050 vegna fólksfjölgunar og aukinnar áherslu á vestrænt neyslumynstur, en um 70% af öllu ferskvatni eru nú þegar nýtt í landbúnaði. Með hliðsjón af þessu hafa samtökin lagt til að stefnt verði að 20% samdrætti til ársins 2050 til að auka fæðuöryggi og minnka álag á vatnslindir heimsins.
(Sjá frétt ENN 5. janúar).

Hröð uppbygging vatnsaflsvirkjana

hydropower_boomOrkuframleiðsla vatnsaflsvirkjana í heiminum mun tvöfaldast á þessum áratug ef marka má niðurstöður sem kynntar voru á ráðstefnunni Global Challenges: Achieving Sustainability sem Kaupmannahafnarháskóli stóð fyrir á dögunum. Þessi uppbygging, sem aðallega mun verða í þróunarríkjum og í löndum með vaxandi hagkerfi, mun hafa í för með sér að um 20% af óheftum ám heimsins verði virkjuð. Nýting vatnsafls er mikilvægur liður í að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis en getur jafnframt ógnað líffræðilegri fjölbreytni með skiptingu búsvæða og breytingum í setlögum. Vísindamenn við Laibniz-stofnunina um vistfræði ferskvatns (IGB) hafa þróað gagnagrunn til að aðstoða ríki við að meta mögulegar staðsetningar vatnsaflsvirkjana með það í huga að draga úr áhrifum á líffríkið.
(Sjá frétt Science Daily 24. október).