Fosfórmengun ógnar ferskvatni jarðar

Styrkur fosfórs í ferskvatni er víða kominn að hættumörkum, en á hverju ári bætast 1,47 teragrömm (1,47 milljónir tonna) vegna athafna manna við það sem fyrir er. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Water Resources Research, sem gefið er út af The American Geophysical Union (AGU). Á 38% jarðarinnar er styrkur fosfórs í ferskvatni kominn fram úr því sem náttúruleg kerfi ráða við að taka upp og þynna. Á þessum svæðum búa um 90% mannkyns. Stærstur hluti fosfórmengunarinnar, um 54%, á rætur að rekja til fráveitukerfa, um 38% koma úr áburði sem skolast út af landbúnaðarlandi og 8% koma frá iðnaði. Fosfórmengun í vötnum stuðlar að ofauðgun og þörungablóma með tilheyrandi súrefnisskorti og dauða í neðri lögum vatnsins.
(Sjá frétt á heimasíðu AGU 25. janúar).

Fosfór unninn úr skólpi

140324090420-largeÞýskir vísindamenn hafa kynnt nýja aðferð til að vinna fosfór úr skólpi. Segulmagnaðar agnir sem geta auðveldlega tengst fosfórfrumeindum eru settar í skólpið og þegar agnirnar hafa bundast fosfórnum er segull notaður til að fjarlægja þær. Fosfór er til staðar í tilbúnum áburði og hefur afrennsli hans neikvæð áhrif á umhverfið, meðal annars í formi ofauðgunar. Á sama tíma fara nýtanlegar fosfórbirgðir heimsins ört minnkandi, en fosfór er ein af undirstöðum nútímalandbúnaðar, auk þess sem efnið er notað í fjölmargar vörutegundir. Með því að vinna fosfór úr skólpi er því dregið úr neikvæðum umhverfisáhrifum um leið og þetta verðmæta efni er endurnýtt.
(Sjá frétt Science Daily 24. mars).

Banvæn þrenning ógnar höfunum

Hvalir GL ReutersNiðurstöður alþjóðlegrar rannsóknar sem kynntar voru fyrr í dag benda til að samverkandi áhrif hlýnunar, súrnunar og minnkandi súrefnismettunar hafi mun meiri skaðleg áhrif á lífríkið í höfunum en menn hafa áður gert sér grein fyrir, og er jafnvel talað um „banvæna þrenningu“ í þessu sambandi. Hafið hlýnar smám saman vegna hlýnunar andrúmsloftsins, súrnar vegna upptöku koltvísýrings úr andrúmsloftinu og verður súrefnissnauðara vegna aukins þörungagróðurs í kjölfar útskolunar næringarefna frá landi. Ástandið í höfunum er orðið svipað því sem það var á Paleósen-Eósen mörkunum fyrir um 55 milljónum ára þegar fjöldi tegunda dó út. Breytingarnar sem nú eru að verða gerast hins vegar mun hraðar en þá.
(Sjá frétt Reuters í dag)