Dönsku neytendasamtökin Tænk könnuðu nýlega innihaldslýsingar á allmörgum tegundum af snyrtivörum sem ætlaðar eru börnum. Í 27 tilvikum reyndust þessar vörur innihalda efni sem eru talin geta valdið ofnæmi, truflað hormónastarfsemi líkamans og haft neikvæð áhrif á frjósemi, nánar tiltekið efnin BHT, própýlparaben og etýlhexýlmetoxýcinnamat. Tænk bendir á að börn á vaxtarskeiði séu einkar viðkvæm fyrir efnum af þessu tagi og jafnvel þótt hvert efni um sig geri lítinn skaða til skamms tíma geti samverkandi áhrif fleiri efna (kokteiláhrif) valdið heilsutjóni. Foreldrum er ráðlagt að velta fyrir sér þörfinni á að börn noti snyrtivörur, að nota smáforritið Kemiluppen til að skanna þær vörur sem keyptar eru og velja helst svansmerktar vörur og vörur með viðurkenndum ofnæmismerkjum á borð við Bláa kransinn.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk 30. nóvember).
Greinasafn fyrir merki: kokteiláhrif
Örlitlir skammtar eiturefna trufla vatnalífverur
Örlitlir skammtar af eiturefnum geta haft áhrif á næringarvenjur og sundhegðun vatnadýra. Þetta kom fram í rannsókn vísindamanna við háskólana í Barcelona og Portsmouth, en þeir könnuðu áhrif afar lítilla skammta af tilteknu sveppaeitri og tilteknu þunglyndislyfi sem berast að einhverju marki í vötn frá landbúnaði og fráveitukerfum. Marflær nærast m.a. á laufum sem sveppir hafa brotið niður, en örlítið magn sveppaeiturs dugar til að spilla því ferli. Þunglyndislyfjaleifar höfðu einnig neikvæð áhrif á fæðuinntöku. Marflær syntu hraðar en ella í vatni sem var annað hvort mengað af sveppaeitri eða þunglyndislyfi, en hægar ef bæði efnin voru til staðar samtímis. Rannsóknin bendir annars vegar til að efnamengun geti haft veruleg áhrif á hegðun vatnadýra löngu áður en banvænum styrk er náð og hins vegar að kokteiláhrif tveggja eða fleiri efna geti leitt til ófyrirséðra breytinga í vistkerfinu og þar með í fæðukeðju manna.
(Sjá frétt Science Daily 16. október).
Fjöldi eiturefna, en ekki bara styrkur þeirra, tengdur við býflugnadauða
Hópur vísindamanna við Háskólann í Maryland hefur sýnt fram á tengsl milli dánartíðni býflugna og fjölda eiturefna sem til staðar eru í búinu. Margar rannsóknir hafa áður bent til þess að tiltekin eiturefni valdi hruni í býflugnastofnum en samverkandi áhrif efnanna hafa ekki áður verið könnuð með þeim hætti sem gert var í þessari rannsókn. Svo virðist sem flugurnar missi hæfileikann til afeitrunar þegar fleiri efni bætast við, jafnvel þótt hvert efni um sig sé í mjög lágum styrk. Sérstaka athygli vakti að tiltekin sveppaeiturefni, sem hingað til hafa verið talin örugg fyrir býflugur, virðast hafa mikið að segja í þessu sambandi.
(Sjá frétt Science Daily 7. október).
Varasöm efni finnast í gólfteppum fyrir barnaherbergi
Þalöt, rokgjörn lífræn efni (VOCs) og pólý- og perflúorefni (PFAS) finnast í mörgum gerðum gólfteppa sem sérstaklega eru ætluð í barnaherbergi. Þetta kom fram í rannsókn sem Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) gekkst nýlega fyrir. Styrkur efnanna reyndist hins vegar minni en svo að börnum sé talin stafa hætta af. Engu að síður ráðleggur Miljøstyrelsen húseigendum að viðra ný gólfteppi í 1-2 daga í bílskúrnum eða úti á svölum áður en þau eru sett inn í barnaherbergi og reyna síðan að lofta vel út í 2-5 mínútur á hverjum degi. Þannig minnkar hættan á að varasöm efni safnist fyrir í inniloftinu, sem getur vel að merkja í mörgum tilvikum verið mengaðra en útiloft. Þá er fólki ráðlagt að kaupa ekki gólfteppi sem sterk lykt er af. Miljøstyrelsen vinnur nú að stærra verkefni þar sem kannað verður nánar hvort efni í gólfteppum geti reynst hættuleg börnum vegna samverkandi áhrifa með öðrum efnum (kokteiláhrifa). Von er á niðurstöðum úr þeirri rannsókn í ársbyrjun 2017.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen í dag).
Kassarúllur með BPA fjarlægðar úr Coop verslunum
Verslunarkeðjan COOP í Danmörku hefur ákveðið að hætta að nota kassarúllur sem innihalda bisfenól-A (BPA) þar sem efnið er talið vera hormónaraskandi og hafa áhrif á frjósemi. Notkun efnisins er lögleg en gæðastjóri keðjunnar segir að það hafi verið ákvörðun fyrirtækisins að starfsmenn og viðskiptavinir ættu ekki að þurfa að verða fyrir hugsanlegum eiturhrifum af skaðlegum efnum. Keðjan hefur sagt „The Dirty Dozen“ stríð á hendur, en „The Dirty Dozen“ eru 12 efni sem talin eru skaðleg en hafa ekki verið bönnuð. Að undanförnu hafa þó birst margar rannsóknir sem benda til að kokteiláhrif efnanna séu stórlega vanmetin. Eins og fram hefur komið á 2020.is hefur COOP nú þegar hætt sölu á örbylgjupoppi, blautklútum, skólavörum úr PVC og Colgate Total tannkremi þar sem allar þessar vörur innihalda eitthvert þessara tólf efna.
(Sjá frétt Samvirke.dk í dag).
Varasöm efni í flestum andlitskremum
Engin af 20 tegundum vinsælla andlitskrema í dýrari kantinum sem dönsku neytendasamtökin Tænk tóku til skoðunar á dögunum reyndist laus við varasöm efni. Umrædd efni eru ekki á bannlista og ekki talin skaðleg í litlu magni, en geta engu að síður verið varasöm vegna samverkandi áhrifa með öðrum efnum, þ.e. svonefndra kokteiláhrifa. Sex tegundir af 20 fengu rauða spjaldið hjá Tænk, þar sem þau innhéldu parabena eða önnur efni sem talin eru geta truflað hormónastarfsemi líkamans. Hin fjórtán fengu gula spjaldið vegna þess að þau innihéldu ýmist umhverfisskaðleg efni eða ilmefni sem geta aukið hættuna á ofnæmi.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk í gær).
Perflúorefni í barnafötum innan marka
Pólý- og perflúorefni (PFAS) fundust í 15 af 30 textílvörum fyrir börn sem tekin voru fyrir í könnun Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen). Efni af þessu tagi eru notuð til yfirborðsmeðhöndlunar á ýmsum varningi til að gera hann vatns- og fitufráhrindandi. Efnin brotna seint niður í náttúrunni og geta skaðað heilsu fólks. Í könnun Miljøstyrelsen var leitað að efnunum í regnfötum, útigöllum, bílstólum og kerrupokum. Efnin fundust sem fyrr segir í 50% tilfella, en að mati Miljøstyrelsen stafar börnum ekki hætta af við venjulega notkun umrædds varnings. Engu að síður sé ástæða til að velja frekar textílvörur sem vottaðar eru með Svaninum eða Umhverfismerki ESB, enda ekki hægt að útiloka heilsufarslega áhættu ef börn komast líka í snertingu við efnin í öðrum varningi á sama tíma.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen í dag).
Kokteiláhrif margfalda hættu á krabbameini
Líkur á krabbameini geta aukist verulega vegna kokteiláhrifa skaðlegra efna samkvæmt nýrri ransókn á vegum Háskólans í Roskilde þar sem rýnt var í samverkandi áhrif akrýlamíðs og tveggja varnarefna. Rannsóknin leiddi í ljós að þrátt fyrir að magn hvers efnis um sig væri undir skilgreindum hættumörkum hafði kokteilinn mjög skaðleg áhrif á DNA í frumum. Akrýlamíð virtist þannig geta magnað upp krabbameinsvaldandi eiginleika varnarefnanna þrátt fyrir lágan styrk þeirra. Kokteiláhrifin geta m.a. falist í því að eitt tiltekið efni geri frumuhimnur gegndræpari og greiði þannig öðrum skaðlegum efnum leið inn í frumuna. Höfundar rannsóknarinnar leggja áherslu á að taka þurfi tillit til kokteiláhrifa þegar leyfileg hágmarksgildi einstakra efna eru ákveðin, því að gildin verði annars of há. Varrúðarreglunni skuli þannig beitt við ákvörðun hágmarksgilda.
(Sjá frétt Videnskap DK í dag).