Lífræn matvæli geta brauðfætt alla jarðarbúa

Hægt verður að mæta allri fæðuþörf mannkynsins árið 2050 með lífrænt vottuðum matvælum, að því er fram kemur í nýrri þýskri rannsókn. Lífræn ræktun er sjálfbærari en hefðbundinn landbúnaður samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar, en þar sem hún er alla jafna landfrekari þurfi jafnframt að draga úr kjötframleiðslu og matarsóun. Þá felist stór áskorun í að útvega nægjanlegt köfnunarefni til notkunar í ræktuninni, en aukin ræktun köfnunarefnisbindandi belgjurta væri stórt skref í þá átt. Að óbreyttu stefni landbúnaður heimsins í öngstræti vegna mikillar losunar gróðurhúsalofttegunda, ofauðgunar og minnkandi líffræðilegrar fjölbreytni.
(Sjá frétt á Videnskap.dk 14. nóvember).

Hungursneyð fer vaxandi á ný

Um 815 milljónir manna, eða um 11% jarðarbúa, þjáðust af hungri á árinu 2016 að því er fram kemur í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Hungruðum fer nú fjölgandi, sem er viðsnúningur frá því sem verið hefur síðasta áratuginn þegar hungruðum fækkaði jafnt og þétt. Vaxandi hungursneyð á sér einkum tvær orsakir samkvæmt skýrslunni, þ.e.a.s. hernaðarátök og loftslagsbreytingar. Verst er ástandið í austanverðri Afríku þar sem 33,9% íbúa þjást af hungri. Í skýrslunni kemur fram að til þess að ná heimsmarkmiðinu um útrýmingu hungurs fyrir árið 2030 þurfi að ráðast að öllum þeim þáttum sem grafa undan fæðuöryggi í heiminum.
(Sjá frétt Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) 15. september).