Horfur á stórfelldum samdrætti í fiskveiðum

Líkur eru á að árið 2300 verði fiskafli í heiminum að meðaltali 20% minni en hann er nú og að í Norður-Atlantshafi verði samdrátturinn um 60%. Þetta kemur fram í grein sem vísindamenn við Háskólann í Kaliforníu rita í nýjasta tölublað Science. Með hækkandi hitastigi sjávar og bráðnun íss á heimskautasvæðunum mun ljóstillífun plöntusvifs við Suðurskautslandið vaxa verulega, sem þýðir að næringarefni (einkum köfnunarefni og fosfór) hætta að berast þaðan til annarra hafsvæða í sama mæli og nú. Þar af leiðandi mun plöntusvifi fara hnignandi á þeim svæðum og sú hnignun mun ganga upp alla fæðukeðjuna.
(Sjá frétt Science Daily 8. mars).

Lífræn matvæli geta brauðfætt alla jarðarbúa

Hægt verður að mæta allri fæðuþörf mannkynsins árið 2050 með lífrænt vottuðum matvælum, að því er fram kemur í nýrri þýskri rannsókn. Lífræn ræktun er sjálfbærari en hefðbundinn landbúnaður samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar, en þar sem hún er alla jafna landfrekari þurfi jafnframt að draga úr kjötframleiðslu og matarsóun. Þá felist stór áskorun í að útvega nægjanlegt köfnunarefni til notkunar í ræktuninni, en aukin ræktun köfnunarefnisbindandi belgjurta væri stórt skref í þá átt. Að óbreyttu stefni landbúnaður heimsins í öngstræti vegna mikillar losunar gróðurhúsalofttegunda, ofauðgunar og minnkandi líffræðilegrar fjölbreytni.
(Sjá frétt á Videnskap.dk 14. nóvember).

Vökvað með skólpi á Samsø

Á dönsku eyjunni Samsø er verið að gera tilraun með að nýta fráveituvatn til vökvunar. Venjulega leiðin í þessu er að vinna köfnunarefni og fosfór úr vatninu áður en því er sleppt út í viðtaka og nýta þessi efni síðan í áburðarframleiðslu af einhverju tagi. Nýjungin sem hér um ræðir felst í að nota fráveituvatnið beinlínis sem áburð en fyrst eru þó hreinsuð úr því hættuleg efni. Með þessu sparast orka sem annars fer í fyrsta lagi í að ná næringarefnunum úr vatninu og í öðru lagi í að framleiða áburð úr þeim. Fyrst um sinn verður þetta vatn aðeins notað á tún og önnur svæði sem ekki eru nýtt beint í matvælaframleiðslu, en í framtíðinni standa vonir til að hægt verði að útvíkka notkunina. Hópur sem nefnir sig Minor Change Group stendur að verkefninu með stuðningi Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen).
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 23. ágúst).

Köfnunarefnismengun vaxandi vandamál

140513092537-largeKöfnunarefnissambönd eiga stóran þátt í mengun vatns og lofts og stuðla þannig að aukinni tíðni sjúkdóma á borð við astma og krabbamein. Þetta kom fram í rannsókn Potsdam stofnunarinnar sem sagt er frá í maíhefti Nature Communications. Um helmingur þess köfnunarefnis sem notað er í tilbúinn áburð skilar sér ekki í jarðveginn, en berst þess í stað út í umhverfið með vindi og vatni. Notkun köfnunarefnisáburðar er talin nauðsynleg í fæðuframleiðslu en köfnunarefnissambönd geta valdið auknu svifryki, leitt til ósonmengunar við yfirborð jarðar og komið ójafnvægi á vistkerfi vatna. Talið er að tjón vegna köfnunarefnismengunar í Evrópu nemi um 1-4% af þjóðarframleiðslu. Gera má ráð fyrir að mengun af völdum köfnunarefnis aukist um 20% fram til ársins 2050 ef ekkert er að gert, en með réttum viðbrögðum væri hægt að minnka hana um helming. Til þess þurfa bændur að byggja áburðarskammta á jarðvegsmælingum og nýta búfjáráburð í auknum mæli. Þá þurfa neytendur að draga úr kjötneyslu og sóun matvæla.
(Sjá frétt Science Daily 13. maí).