Trufla mengunarefni líkamsklukkuna?

Svo virðist sem mengunarefni í umhverfinu geti truflað líkamsklukkuna, en slík truflun er talin geta stuðlað að krabbameini, sykursýki, offitu, hjartasjúkdómum og þunglyndi. Vísbendingar um þetta komu fram í rannsókn Rensselaer háskólans (Rensselaer Polytechnic Institute) sem sagt er frá í tímaritinu Ecology and Evolution. Í rannsókninni var rýnt í hegðun vatnaflóa af tegundinni Daphnia pulex, en þessar flær eiga auðvelt með að aðlagast saltara vatni. Í ljós kom að eftir því sem saltstyrkur vatnsins hækkar umfram náttúrulegan styrk breytist dagsveifla hegðunarinnar, þar til öll merki um eðlilega dagsveiflu hverfa. Virkni líkamsklukkunnar ræðst af tjáningu svonefndra PERIOD-gena (PER-gena), en líkamsklukka manna og flestra annarra dýra byggir á svipuðu kerfi. Höfundar rannsóknarinnar telja því hugsanlegt að mengunarefni í umhverfinu hafi sambærileg áhrif á líkamsklukku manna.
(Sjá frétt á heimasíðu Rensselaer háskólans í dag).

Örlitlir skammtar eiturefna trufla vatnalífverur

Örlitlir skammtar af eiturefnum geta haft áhrif á næringarvenjur og sundhegðun vatnadýra. Þetta kom fram í rannsókn vísindamanna við háskólana í Barcelona og Portsmouth, en þeir könnuðu áhrif afar lítilla skammta af tilteknu sveppaeitri og tilteknu þunglyndislyfi sem berast að einhverju marki í vötn frá landbúnaði og fráveitukerfum. Marflær nærast m.a. á laufum sem sveppir hafa brotið niður, en örlítið magn sveppaeiturs dugar til að spilla því ferli. Þunglyndislyfjaleifar höfðu einnig neikvæð áhrif á fæðuinntöku. Marflær syntu hraðar en ella í vatni sem var annað hvort mengað af sveppaeitri eða þunglyndislyfi, en hægar ef bæði efnin voru til staðar samtímis. Rannsóknin bendir annars vegar til að efnamengun geti haft veruleg áhrif á hegðun vatnadýra löngu áður en banvænum styrk er náð og hins vegar að kokteiláhrif tveggja eða fleiri efna geti leitt til ófyrirséðra breytinga í vistkerfinu og þar með í fæðukeðju manna.
(Sjá frétt Science Daily 16. október).