Hægt er að hægja á hlýnun loftslags af mannavöldum með einföldum og vel þekktum aðferðum til að auka gæði jarðvegs á landi sem nýtt er til landbúnaðar. Þetta kemur fram í nýrri amerískri rannsókn sem sagt er frá í netútgáfu Science Advances. Með sáningu þekjuplantna, aukinni ræktun belgjurta, beitarstýringu, minni plægingum o.fl. mætti þannig sporna gegn hlýnun sem samsvarar um 0,1°C fram til ársins 2100. Þessi tala virðist e.t.v. ekki há en skiptir þó verulegu máli í heildarsamhenginu. Allar þessar aðferðir eru til þess fallnar að hækka kolefnisinnihald jarðvegsins og um leið verður jarðvegurinn vatnsheldnari, síður viðkvæmur fyrir rofi og frjósamari, sem þýðir að uppskera eykst.
(Sjá frétt á heimasíðu Háskólans í Berkely 29. ágúst).