Fuglar geta dregið úr varnarefnanotkun

Bændur geta minnkað þörf sína fyrir varnarefni í ræktun nytjaplantna með því að laða til sín fugla sem verja akra fyrir dýrum sem skerða uppskeruna. Þetta kemur fram í nýlegri rannsókn Háskólans í Michigan, sem sagt er frá í nýjasta hefti tímaritsins Agriculture, Ecosystems and Environment. Berjaræktendur hafa m.a. náð góðum árangri á þessu sviði með því að setja upp hreiðurkassa eða búa með öðrum hætti í haginn fyrir ránfugla sem síðan nærast í smærri fuglum, nagdýrum o.fl. dýrum sem annars eiga það til að éta drjúgan skammt af berjauppskerunni. Á þennan hátt fá bændurnir mikilvæga vistkerfisþjónustu með litlum tilkostnaði, spara fé í varnarefnakaupum, auka uppskeru, framleiða neytendavænni vöru og hjálpa jafnvel til við að viðhalda stofnum lífvera í útrýmingarhættu.
(Sjá frétt á heimasíðu Háskólans í Michigan 1. mars).

Engum blöðrum sleppt á þjóðhátíð Gíbraltar

blodrurYfirvöld á Gíbraltar hafa ákveðið að hætta að sleppa blöðrum á þjóðhátíðardegi höfðans, en hefð hefur verið fyrir slíku síðastliðin 24 ár. Gíbraltar hefur árum saman státað af einni stærstu blöðruhátíð í heimi, þar sem árlega er sleppt þúsundum hvítra og rauðra blaðra á þjóðhátíðardeginum. Áhrif blaðranna á lífríki sjávar hafa valdið mörgum íbúum áhyggjum og hafa grasrótarhreyfingar beitt sér fyrir því að þessi siður verði aflagður. Með því að hætta blöðrusleppingum vilja yfirvöld draga úr plastmengun í hafinu og neikvæðum áhrifum hennar á lífríki sjávar, um leið og aðgerðin felur í sér áminningu til ríkja heims um mikilvægi verndunar.
(Sjá frétt the Guardian 7. apríl).