Bændur geta minnkað þörf sína fyrir varnarefni í ræktun nytjaplantna með því að laða til sín fugla sem verja akra fyrir dýrum sem skerða uppskeruna. Þetta kemur fram í nýlegri rannsókn Háskólans í Michigan, sem sagt er frá í nýjasta hefti tímaritsins Agriculture, Ecosystems and Environment. Berjaræktendur hafa m.a. náð góðum árangri á þessu sviði með því að setja upp hreiðurkassa eða búa með öðrum hætti í haginn fyrir ránfugla sem síðan nærast í smærri fuglum, nagdýrum o.fl. dýrum sem annars eiga það til að éta drjúgan skammt af berjauppskerunni. Á þennan hátt fá bændurnir mikilvæga vistkerfisþjónustu með litlum tilkostnaði, spara fé í varnarefnakaupum, auka uppskeru, framleiða neytendavænni vöru og hjálpa jafnvel til við að viðhalda stofnum lífvera í útrýmingarhættu.
(Sjá frétt á heimasíðu Háskólans í Michigan 1. mars).