Algengustu tegundir tengiltvinnbíla losa tvöfalt til þrefalt meira af gróðurhúsalofttegundum en framleiðendur halda fram. Þetta kemur fram í skýrslu sem samtökin Transport & Environment (T&E) létu nýlega vinna. Í ljósi niðurstaðnanna beina samtökin því til ríkisstjórna að nema úr gildi skattaafslætti og aðrar ívilnanir fyrir bíla af þessu tagi. Samkvæmt skýrslunni losa tengiltvinnbílarnir BMW X5, Volvo XC60 og Mitsubishi Outlander 28-89% meira koldíoxíð en auglýst er, fullhlaðnir við bestu aðstæður. Þegar rafhleðslan var búin losuðu þeir þrefalt til fjórfalt meira en sagt er – og þegar bílunum er ekið í hleðslustillingu er losunin allt að því 12-föld. Julia Poliscanova hjá T&E segir að rannsóknin hafi leitt í ljós að tengiltvinnbílar séu „falsrafbílar, framleiddir fyrir prófanir á rannsóknarstofum og skattafslætti, en ekki fyrir akstur við raunverulegar aðstæður“.
(Sjá frétt á heimasíðu T&E 23. nóvember).
Greinasafn fyrir merki: grænþvottur
Grænþvottur í tískugeiranum
Fyrirtæki í tískugeiranum sem segjast leggja áherslu á sjálfbærni, geta mörg hver ekki lagt fram nein gögn máli sínu til stuðnings. Í nýjustu „FeelGoodFashion-skýrslu“ vefsíðunnar Rank A Brand kemur fram að af þeim 368 tískuvörumerkjum sem rannsökuð voru staðhæfðu um 50% að verkefni væru í gangi til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda en aðeins 4% gátu sýnt fram á samdrátt í losun. Sömu sögu var að segja um lífræn og endurunnin efni, en mörg fyrirtæki kváðust nota slík efni í vörur sínar án þess að geta sannað hlutfall þeirra í vörunum. Sífellt fleiri aðilar í tískugeiranum upplýsa um umhverfisáherslur sínar og gildir það nú um 63% af öllum vörumerkjum í greininni. Að mati Rank A Brand er þar um grænþvott að ræða í 30% tilvika, þ.e.a.s. upplýsingar sem eiga sér ekki stoð í raunverulegri starfsemi viðkomandi fyrirtækja.
(Sjá frétt EDIE í dag).