Tengiltvinnbílar fá falleinkun í nýrri rannsókn

Algengustu tegundir tengiltvinnbíla losa tvöfalt til þrefalt meira af gróðurhúsalofttegundum en framleiðendur halda fram. Þetta kemur fram í skýrslu sem samtökin Transport & Environment (T&E) létu nýlega vinna. Í ljósi niðurstaðnanna beina samtökin því til ríkisstjórna að nema úr gildi skattaafslætti og aðrar ívilnanir fyrir bíla af þessu tagi. Samkvæmt skýrslunni losa tengiltvinnbílarnir BMW X5, Volvo XC60 og Mitsubishi Outlander 28-89% meira koldíoxíð en auglýst er, fullhlaðnir við bestu aðstæður. Þegar rafhleðslan var búin losuðu þeir þrefalt til fjórfalt meira en sagt er – og þegar bílunum er ekið í hleðslustillingu er losunin allt að því 12-föld. Julia Poliscanova hjá T&E segir að rannsóknin hafi leitt í ljós að tengiltvinnbílar séu „falsrafbílar, framleiddir fyrir prófanir á rannsóknarstofum og skattafslætti, en ekki fyrir akstur við raunverulegar aðstæður“.
(Sjá frétt á heimasíðu T&E 23. nóvember).

G20-ríkin moka fé í olíuiðnaðinn

offshore_sea_drilling_statoilG20-ríkin verja árlega um 452 milljörðum Bandaríkjadala (um 59.000 milljörðum ísl. kr.) í stuðning við kola-, olíu- og gasiðnaðinn, að því er fram kemur í nýrri skýrslu bresku hugveitunnar Overseas Development Institute. Í skýrslunni eru umrædd ríki gagnrýnd fyrir að fylgja ekki eigin stefnu í loftslagsmálum, en þau hafa öll heitið að vinna gegn loftslagsbreytingum. Stuðningur ríkjanna við jarðefnaeldsneytisgeirann er fjórfalt hærri en allir samanlagðir ríkisstyrkir þjóða heims til framleiðslu á endurnýjanlegri orku, svo sem í sólar- og vindorkuverum. Með afnámi styrkja til jarðefnaeldsneytisgeirans myndi skapast eðlilegt samkeppnisumhverfi á orkumarkaði, að því er fram kemur í skýrslunni.
(Sjá frétt EurActive 12. nóvember).

Styrkir til olíu- og gasvinnslu vinna gegn endurnýjanlegum orkugjöfum

fossil-fuel-bailoutRíkustu þjóðir heims (G20) eyða um 88 milljörðum bandaríkjadala (um 11.000 milljörðum ísl. kr.) í styrki til olíu- og gasvinnslu þrátt fyrir að ekki megi vinna nema hluta þess eldsneytis sem til staðar er í þekktum lindum ef takast á að sporna við loftslagsbreytingum. Þetta kemur fram í skýrslunni The fossil fuel bailout sem Overseas Development Institute (ODI) og Oil Change International (OCI) gáfu út á dögunum. Þar er einnig bent á að á tímum aukins kostnaðar við olíu- og gasvinnslu og lækkandi afurðaverðs haldi opinberir styrkir vinnslunni gangandi. Á sama tíma fari stofnkostnaður vegna endurnýjanlegra orkugjafa ört lækkandi og áhugi fjárfesta vaxandi. Fjárfesting einkageirans í endurnýjanlegri orku sé nú um 2,5 dollarar fyrir hvern dollar sem hið opinbera leggur í greinina, en aðeins um 1,3 dollarar á hvern dollar af opinberum styrkjum til framleiðslu á jarðefnaeldsneyti. Skýrsluhöfundar telja að afnám þeirra styrkja myndi vera stórt skref í þá átt að jafna samkeppnisstöðu greinanna.
(Sjá frétt EDIE í dag).