Tengiltvinnbílar fá falleinkun í nýrri rannsókn

Algengustu tegundir tengiltvinnbíla losa tvöfalt til þrefalt meira af gróðurhúsalofttegundum en framleiðendur halda fram. Þetta kemur fram í skýrslu sem samtökin Transport & Environment (T&E) létu nýlega vinna. Í ljósi niðurstaðnanna beina samtökin því til ríkisstjórna að nema úr gildi skattaafslætti og aðrar ívilnanir fyrir bíla af þessu tagi. Samkvæmt skýrslunni losa tengiltvinnbílarnir BMW X5, Volvo XC60 og Mitsubishi Outlander 28-89% meira koldíoxíð en auglýst er, fullhlaðnir við bestu aðstæður. Þegar rafhleðslan var búin losuðu þeir þrefalt til fjórfalt meira en sagt er – og þegar bílunum er ekið í hleðslustillingu er losunin allt að því 12-föld. Julia Poliscanova hjá T&E segir að rannsóknin hafi leitt í ljós að tengiltvinnbílar séu „falsrafbílar, framleiddir fyrir prófanir á rannsóknarstofum og skattafslætti, en ekki fyrir akstur við raunverulegar aðstæður“.
(Sjá frétt á heimasíðu T&E 23. nóvember).

Kolefnisskattur á rautt kjöt?

Samtök breskra sérfræðinga í heilbrigðismálum leggja til að loftslagsskattur verði lagður á matvörur sem hafa mikil neikvæð áhrif á umhverfið, svo sem rautt kjöt og mjólkurvörur. Tekin verði ákvörðun um þetta sem fyrst en gefinn aðlögunartími til 2025, þannig að framleiðendur og seljendur hafi svigrúm til breytinga. Í samtökunum sem um ræðir (UKHACC) eru m.a. 10 háskólar í heilbrigðisvísindum, Breska læknafélagið (British Medical Association) og læknatímaritið Lancet. Samtökin benda á að minni neysla á umræddum vörum sé góð fyrir heilsuna og að loftslagsvandinn verði ekki leystur án þess að fólk breyti fæðuvenjum sínum. Ekki sé verið að leggja til að allir verði grænkerar, heldur að stjórntækjum verði beitt til að draga úr neyslu loftslagsskaðlegra matvæla. Sambærilegir skattar hafi sannað gildi sitt til að draga úr neyslu sykraðra gosdrykkja o.fl. Auk þess leggur UKHACC m.a. til að matvæli verði merkt með upplýsingum um umhverfisáhrif og að gerðar verði lágmarks umhverfiskröfur við innkaup á matvælum fyrir mötuneyti í skólum, sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum og fangelsum.
(Sjá frétt The Guardian í gær).

Enginn latteskattur

Ríkisstjórn Bretlands hefur hafnað tilmælum umhverfisúttektarnefndar breska þingsins frá því í janúar um að taka upp 25 pensa „latteskatt“ á einnota kaffimál. Í svari ríkisstjórnarinnar til nefndarinnar kemur hins vegar fram að stjórnin fagni því að einstök kaffihús bjóði fólki afslátt af kaffi ef það kemur með fjölnota mál. Mary Creagh, formaður umhverfisúttektarnefndarinnar, segir að þessi viðbrögð ríkisstjórnarinnar sýni að þar á bæ sé meira um orð en gjörðir. Einnota umbúðir skapa nú þegar mikinn vanda í Bretlandi og árlega henda Bretar um 2,5 milljörðum einnota kaffimála í ruslið.
(Sjá frétt Independent 9. mars).

Má búast við latteskatti?

Kaffihúsakeðjan Starbucks í London ætlar að gera tilraun með að rukka viðskiptavini um 5 pens aukalega (um 7 ísl. kr.) fyrir hvern kaffiskammt sem seldur er í einnota málum. Með þessu vill Starbucks draga úr sóun, en árlega henda Bretar um 2,5 milljörðum einnota kaffibolla í ruslið. Ef þessum bollum væri öllum raðað enda við enda myndu þeir ná fimm og hálfan hring í kringum jörðina. Fimmpensagjaldið verður fyrst um sinn bara lagt á til reynslu í 20-25 kaffihúsum í þrjá mánuði, frá og með febrúar. Ágóðinn verður notaður til rannsókna á því hvernig gjaldið hefur áhrif á viðhorf og hegðun viðskiptavina. Ákvörðun Starbucks var kynnt sama dag og umhverfisúttektarnefnd breska þingsins beindi þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að taka upp 25 pensa „latteskatt“ með það að markmiði að árið 2023 verði allir einnota kaffibollar farnir að skila sér í endurvinnslu.
(Sjá frétt The Sun 5. janúar).

70% minni plastpokasala í Wales eftir að gjaldtaka hófst

2216Í Wales hefur sala einnota burðarpoka úr plasti minnkað um 70% eftir að 5 pensa gjald (um 10 ísl. kr.) var lagt á pokana árið 2011. U.þ.b. þrír af hverjum fjórum neytendum eru ánægðir með gjaldtökuna og nær 90% verslunareigenda segja að hún haft jákvæð eða engin áhrif á viðskiptin. Þrátt fyrir þennan mikla samdrátt hefur gjaldið gefið af sér um 20 milljónir sterlingspunda (um 4 milljarða ísl. kr.) sem runnið hafa til góðargerðarmála. Carl Sargeant, náttúruauðlindaráðherra Wales, segir að gjaldtakan hafi leitt til afgerandi breytinga á neyslumynstri fólks og haft mikilvæg jákvæð áhrif á umhverfið.
(Sjá frétt The Guardian 4. september).

Græn skattbreyting skapar störf og eflir nýsköpun

Green Fiscal Reform (EEA)Hægt er að auka hagvöxt, fjölga störfum og efla nýsköpun með því að hækka skatta og afnema niðurgreiðslur á umhverfisskaðlegum vörum og þjónustu, en lækka að sama skapi skatta á tekjur og fjárfestingar. Þetta er niðurstaða úttektar sem Umhverfisstofnun Evrópu (EEA) hefur gert í fjórum Evrópulöndum sem hafa farið hvað verst út úr efnahagsþrengingum síðustu ára. Grænir skattar hafa minni neikvæð áhrif á þjóðarframleiðslu en t.d. tekjuskattur og virðisaukaskattur, auk þess sem þeir geta stuðlað að umhverfisvænni hegðun neytenda. Miklar líkur eru á að með þessu skapist ný störf af ýmsu tagi og að nýsköpun eflist til lengri tíma litið.
(Sjá frétt á heimasíðu EEA 14. maí).

Noregur er rafbílaland nr. 1

Noregur er rafbílaland nr. 1 samkvæmt nýrri skýrslu frá sænsku samtökunum Gröna bilister. Það sem af er árinu hafa rúmlega 2.500 rafbílar verið seldir í Noregi, þar af 463 í ágúst (3,5% af öllum nýskráningum). Helstu ástæður þessarar miklu velgengni eru sagðar vera markvissar aðgerðir norskra stjórnvalda. Þar eru rafbílar undanþegnir virðisaukaskatti og skráningargjöldum, greiða lægri bifreiðagjöld, mega nota forgangsakreinar, greiða lægri eða enga vegtolla og fá ókeypis í bílastæði og bílaferjur. Hið opinbera styður einnig við uppbyggingu hleðslustöðva og annarra innviða, auk þess sem þeir sem aka rafbílum fá greidd hærri kílómetragjöld og 50% afslátt af skatti á bílahlunnindi.
(Sjá nánar í frétt á heimasíðu Gröna bilister í gær).