Metvöxtur í endurnýjanlegri orku

Um 90% allra raforkuvera sem sett verða upp í heiminum á þessu ári nýta endurnýjanlega orku, að því er fram kemur í skýrslu sem Alþjóðaorkumálastofnunin (IEA) gaf út í dag. Mikil aukning hefur orðið á þessu sviði á árinu, á sama tíma og samdráttur hefur verið í nýtingu jarðeldsneytis. Með sama áframhaldi verður þriðjungur af allri raforku heimsins af endurnýjanlegum uppruna árið 2025 – og þar með ná endurnýjanlegir orkugjafar toppsætinu af kolum sem hafa verið stærsti einstaki raforkugjafinn í 50 ár. Hlutabréf í endurnýjanlegri orku hafa hækkað hratt samfara þessari öru þróun og sem dæmi má nefna að verð hlutabréfa í sólarorkufyrirtækjum hefur meira en tvöfaldast frá því í desember 2019. Það kemur e.t.v. ekki á óvart þegar haft er í huga að uppsett afl í sólarorku hefur 18-faldast frá árinu 2010. Uppsett afl í vindorku hefur fjórfaldast á sama tíma. Búist er við enn örari vexti í þessum greinum á næsta ári. Þróunin er þó háð stefnu stjórnvalda, en endurreisnarstyrkir vegna Covid-19 virðast renna í mun meira mæli til fyrirtækja í jarðeldsneytisgeiranum en til uppbyggingar endurnýjanlegrar orku.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

Örsmá vindorkuver á teikniborðinu

Kínverskir vísindamenn hafa þróað búnað sem getur breytt vindorku í rafmagn, jafnvel þótt vindhraðinn sé ekki nema 1,6 m/sek. Um er að ræða hylki með tveimur plastborðum innan í, sem flaksast til í vindinum. Slík hylki gætu jafnvel framleitt rafmagn úr loftstraumum sem myndast þegar göngufólk sveiflar höndunum. Vonir standa til að hægt verði að nota búnað af þessu tagi til að knýja öryggismyndavélar, skynjara og jafnvel veðurstöðvar á afskekktum stöðum.
(Sjá frétt The Guardian 23. september).

Verslunarmiðstöð sjálfri sér nóg með orku

Verslunarmiðstöðin Väla í útjaðri Helsingborgar verður orðin sjálfri sér nóg með orku árið 2023 ef áform stjórnenda ganga eftir. Verslunarmiðstöðin, sem að grunni til var byggð á 8. áratug síðustu aldar, er sögð vera sú stærsta í Svíþjóð. Frá árinu 2012 hefur tekist að minnka orkunotkun í byggingunni um 40% og nú er ætlunin að ná því sem á vantar með enn frekari orkusparnaðaraðgerðum og aukningu á eigin orkuframleiðslu. Väla framleiðir nú þegar stóran hluta af raforkunni sem þarf til rekstrarins í 15.000 fermetra sólarskjöldum á þakinu. Ætlunin er að stækka framleiðslusvæðið enn frekar og taka jafnvel litlar vindmyllur í notkun þar að auki.
(Sjá frétt Aktuell Hållbarhet 4. febrúar).

Croissantbakstur lykillinn að orkugeymslum framtíðar?

Vísindamenn við Queen Mary háskólann í London hafa hugsanlega fundið nýja og afar árangursríka leið til að geyma orku í orkukerfum. Hugmyndin byggir á sömu aðferðum og notaðar eru við croissantbakstur, þar sem deigið er þjappað og flatt út í þunn lög. Vísindamennirnir beittu svipaðri aðferð til að búa til örþunna fjölliðuhúðaða torleiðaraþétta (e. dielectric capacitors), en slíkir þéttar hafa hingað til, auk venjulegra rafhlaðna og rafefnaþétta (e. electrochemical capacitors), verið eitt af þremur helstu tólunum til að geyma raforku. Nýjungin sem hér um ræðir byggir á að þjappa filmunni í þunn lög, en þannig reyndist mögulegt að geyma 30 sinnum meiri raforku en í bestu torleiðaraþéttum sem fengist hafa hingað til. Þéttar af þessu tagi henta einkar vel til að taka við raforku í óreglulegum skömmtum, svo sem frá sólar- og vindorkuverum, og skila henni mjög hratt út í kerfið á nýjan leik þegar orkuþörfin er meiri.
(Sjá frétt Science Daily 18. október).

Hvaðan sem vindurinn blæs!

Tveir MSc-stúdentar við Háskólann í Lancaster hafa þróað nýja gerð af vindmyllu sem getur nýtt vind úr hvaða átt sem er, lóðréttri sem láréttri. Þetta getur opnað möguleika á að nýta vindstrengi í borgum, t.d. við háhýsi, til raforkuframleiðslu. Um leið verður það fýsilegra en áður að framleiða raforku í smáum stíl, annað hvort til eigin nota eða til sölu inn á raforkunetið, t.d. með því að koma vindmyllum fyrir utan á byggingum þar sem uppstreymi eða niðurstreymi er mikið. Nýja vindmyllan, sem kallast „The O-Wind Turbine“ fékk nýlega bresku James Dyson nýsköpunarverðlaunin og í nóvember mun koma í ljós hvernig hugmyndinni reiðir af þegar alþjóðlegu James Dyson verðlaunin verða afhent. Gert er ráð fyrir að a.m.k. 5 ár muni líða þar til O-myllan verður komin á markað.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

Orkugeymslugeirinn gæti sexfaldast fyrir 2030

Áætlað er að árið 2030 verði umsvif í orkugeymslu á heimsvísu sexföld á við það sem þau voru árið 2016. Þetta kemur fram í nýrri greiningu Bloomberg New Energy Finance, þar sem leiddar eru líkur að því að árið 2030 verði samanlögð orkugeymslugeta komin í 305 gígawattstundir. Þetta sé þó aðeins byrjunin. Um þessar mundir sé miklu fjármagni varið í tækniþróun á þessu sviði, kostnaður fari ört lækkandi og stóraukin nýting vindorku og sólarorku ýti undir þróunina. Orkugeymsla muni fyrirsjáanlega gegna veigamiklu hlutverki í orkukerfum framtíðarinnar.
(Sjá frétt CleanTechnica 21. nóvember).

Nýting vindorku sífellt hagkvæmari

mediumKostnaður við nýtingu vindorku mun lækka verulega á næstu árum og áratugum að því er fram kemur í nýrri grein fremstu sérfræðinga á þessu sviði í tímaritinu Nature Energy. Samkvæmt þessu má búast við að kostnaðurinn lækki um 24-30% fram til ársins 2030 og 35-41% fram til 2050 – og jafnvel enn meira ef bjartsýnustu spár ganga eftir. Þessi aukna hagkvæmni mun byggjast á stærri vindmyllum sem nýta vindinn betur en nú er gert, lægri fjármagnskostnaði og lægri rekstrarkostnaði.
(Sjá frétt ENN í gær).

Statoil stofnar tugmilljarða sjóð fyrir græna orku

VindmøllerNorski olíurisinn Statoil setti í dag á stofn sérstakan fjárfestingasjóð sem ætlað er að fjárfesta í verkefnum á sviði endurnýjanlegrar orku fyrir 1,7 milljarða norskra króna (rúmlega 25 milljarða ísl. kr.) á næstu 4-7 árum. Gert er ráð fyrir að þetta fé verði einkum lagt í uppbyggingu vindorku á landi og á hafi, sólarorku, orkugeymslu, orkuflutning, orkusparnað og snjallnetslausnir fyrir raforku.
(Sjá frétt á heimasíðu Statoil í dag).

Neðansjávarhávaði skaðlegri en talið var

160205100511_1_540x360Hávaði neðansjávar af mannavöldum virðist geta breytt hegðun hryggleysingja sem lifa á sjávarbotni að því er fram kemur í nýrri grein í tímaritinu Scientific Reports. Áhrif hávaða neðansjávar á fiska og spendýr hafa verið rannsökuð nokkuð, en þetta munu vera fyrstu vísbendingarnar um áhrif á hryggleysingja. Rannsóknin sem um ræðir var unnin af vísindamönnum við Háskólann í Southampton og í henni kom fram að hávaði hefði það í för með sér að dýrin rótuðu upp minna seti, sem aftur getur dregið úr dreifingu næringarefna og stuðlað að því að botninn verði þéttari og súrefnissnauðari en ella og þar með verri bústaður fyrir ýmsar lífverur sem eru undirstaða vistkerfisins í hafinu. Hljóð sem haft geta þessi áhrif geta m.a. borist frá skipaumferð og vindorkugörðum á hafi.
(Sjá frétt ScienceDaily 5. febrúar).

Fljótandi vindmyllur við Skotland

29244Ríkisstjórn Skotlands hefur veitt leyfi fyrir stærsta fljótandi vindorkugarði heims sem olíurisinn Statoil ætlar að setja upp út af austurodda Skotlands við Peterhead. Þarna verður komið fyrir fimm fljótandi 6 MW vindmyllum og er vonast til að þær geti samtals framleitt 135 GWst af raforku á ári, sem nægir u.þ.b. 20 þúsund heimilum. Ætlunin er að hefjast handa við verkefnið á næsta ári. Með þessu vill Statoil sýna fram á að tæknin sé samkeppnishæf, en fljótandi vindorkugarðar eru frábrugðnir hefðbundnum vindorkugörðum í hafi að því leyti að vindmyllurnar standa ekki á botni, heldur fljóta þær í yfirborðinu, eru tengdar saman með rafmagnsköplum og haldið stöðugum með akkerum. Tæknin nýtist þar af leiðandi á mun dýpri hafsvæðum en ella. Rannsóknir benda til að stofnkostnaður stórra verkefna af þessu tagi geti farið niður í 85 sterlingspund/MWst, en meðalkostnaður við botnfasta vindorkugarða er um 112 pund/MWst.
(Sjá frétt EDIE í gær).