Um 90% allra raforkuvera sem sett verða upp í heiminum á þessu ári nýta endurnýjanlega orku, að því er fram kemur í skýrslu sem Alþjóðaorkumálastofnunin (IEA) gaf út í dag. Mikil aukning hefur orðið á þessu sviði á árinu, á sama tíma og samdráttur hefur verið í nýtingu jarðeldsneytis. Með sama áframhaldi verður þriðjungur af allri raforku heimsins af endurnýjanlegum uppruna árið 2025 – og þar með ná endurnýjanlegir orkugjafar toppsætinu af kolum sem hafa verið stærsti einstaki raforkugjafinn í 50 ár. Hlutabréf í endurnýjanlegri orku hafa hækkað hratt samfara þessari öru þróun og sem dæmi má nefna að verð hlutabréfa í sólarorkufyrirtækjum hefur meira en tvöfaldast frá því í desember 2019. Það kemur e.t.v. ekki á óvart þegar haft er í huga að uppsett afl í sólarorku hefur 18-faldast frá árinu 2010. Uppsett afl í vindorku hefur fjórfaldast á sama tíma. Búist er við enn örari vexti í þessum greinum á næsta ári. Þróunin er þó háð stefnu stjórnvalda, en endurreisnarstyrkir vegna Covid-19 virðast renna í mun meira mæli til fyrirtækja í jarðeldsneytisgeiranum en til uppbyggingar endurnýjanlegrar orku.
(Sjá frétt The Guardian í dag).
Greinasafn fyrir merki: IEA
Meira en helmingur nýrrar orku endurnýjanleg
Á árinu 2015 var uppsett afl nýrra orkuvera sem framleiða endurnýjanlega orku í fyrsta sinn meira en nýrra orkuvera sem byggja á brennslu jarðefnaeldsneytis. Nettóviðbótin í endurnýjanlega orkugeiranum var 153 GW, sem er 15% aukning frá árinu áður. Dr Fatih Birol, framkvæmdastjóri Alþjóða orkumálastofnunarinnar (IEA), segir að heimsbyggðin sé að verða vitni að orkuskiptum sem muni gerast mjög hratt. Horfur séu á að Evrópubúar séu að tapa frumkvæðinu á þessu sviði til Kínverja og að líkja megi Evrópu við maraþonhlaupara sem hafi fengið dágóða forgjöf í startinu, verið langfyrstur eftir hálft maraþon en sé nú farinn að þreytast, þannig að hinir hlaupararnir séu að síga fram úr hægt og örugglega.
(Sjá frétt The Guardian í dag).
Hagvöxtur jókst 2014 án aukinnar losunar
Árið 2014 var sögulegt að því leyti að hagvöxtur jókst án þess að mælanleg aukning yrði á losun gróðurhúsalofttegunda, að því er fram kemur í tilkynningu frá Alþjóðaorkumálastofnuninni (IEA). Síðustu 40 ár hefur aukinn hagvöxtur alltaf skilað sér í aukinni losun gróðurhúsalofttegunda, en losunin stóð í stað á milli áranna 2013 og 2014 þrátt fyrir 3% hagvöxt. Losun hefur stundum minnkað milli ára, en samdrátturinn hefur þá alltaf tengst fjármálakreppum. IEA telur þessa þróun mála 2014 benda til að áhersla á endurnýjanlega orku sé farin að skila sér í aftengingu hagvaxtar og losunar. Stofnunin bendir þó á að losun gróðurhúsalofttegunda sé enn mjög há og mikilvægt sé að ríkisstjórnir leggi aukna áherslu á umbreytingu orkuframleiðslunnar.
(Sjá frétt The Verge 13. mars).
Bjart framundan í nýtingu sólarorku
Sólarorka gæti vegið þyngst allra orkugjafa í raforkuframleiðslu heimsins árið 2050 samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóða orkumálastofnunarinnar (IEA), en horfur eru á að hlutur sólarorkunnar verði þá kominn í u.þ.b. 37%. Mikil þróun hefur verið í nýtingu sólarorku síðustu ár, en hlutdeild hennar í raforkuframleiðslunni er þó enn innan við 1%. Verð á tæknibúnaði til nýtingar sólarorku fer nú hríðlækkandi og þannig hafa opnast alveg nýir möguleikar á þessu sviði að mati IEA.
(Sjá frétt PlanetArk í gær).
Hröð uppsveifla í endurnýjanlegri orku
Um 22% af allri framleiddri orku í heiminum kemur nú frá endurnýjanlegum orkugjöfum að því er fram kemur í nýjustu samantekt Alþjóðaorkumálastofnunarinnar (IEA). Meiri vöxtur er í greininni en nokkru sinni fyrr og námu fjárfestingar í henni um 150 milljörðum breskra punda árið 2013 (um 29 þús. milljörðum ísl. kr.). Á síðustu árum hafa stjórnvöld margra ríkja endurskoðað og dregið úr hagrænum hvötum sem hafa verið ein helsta undirstaða uppbyggingar í greininni. IEA telur þó að hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í orkuframleiðslu heimsins ætti að geta náð 26% árið 2020, enda fer stofn- og rekstrarkostnaður lækkandi. Um leið bendir stofnunin á að 27% markmiðið sem alþjóðasamfélagið hefur sett sér fyrir 2030 sé ekki nógu metnaðarfullt. Hlutfallið verði komið í 30% árið 2030 ef svo heldur sem horfir.
(Sjá frétt the Guardian í dag).