Algengustu tegundir tengiltvinnbíla losa tvöfalt til þrefalt meira af gróðurhúsalofttegundum en framleiðendur halda fram. Þetta kemur fram í skýrslu sem samtökin Transport & Environment (T&E) létu nýlega vinna. Í ljósi niðurstaðnanna beina samtökin því til ríkisstjórna að nema úr gildi skattaafslætti og aðrar ívilnanir fyrir bíla af þessu tagi. Samkvæmt skýrslunni losa tengiltvinnbílarnir BMW X5, Volvo XC60 og Mitsubishi Outlander 28-89% meira koldíoxíð en auglýst er, fullhlaðnir við bestu aðstæður. Þegar rafhleðslan var búin losuðu þeir þrefalt til fjórfalt meira en sagt er – og þegar bílunum er ekið í hleðslustillingu er losunin allt að því 12-föld. Julia Poliscanova hjá T&E segir að rannsóknin hafi leitt í ljós að tengiltvinnbílar séu „falsrafbílar, framleiddir fyrir prófanir á rannsóknarstofum og skattafslætti, en ekki fyrir akstur við raunverulegar aðstæður“.
(Sjá frétt á heimasíðu T&E 23. nóvember).
Greinasafn fyrir merki: Volvo
Volvo og Siemens byggja upp rafknúnar almenningssamgöngur
Stórfyrirtækin Volvo og Siemens hafa tekið upp samstarf á heimsvísu til að stuðla að rafvæðingu almenningssamgangna í borgum. Samkomulag fyrirtækjanna snýst um heildstæðar lausnir, þar sem Volvo sér um framleiðslu og sölu rafstrætisvagna og tvinnvagna en Siemens þróar og setur upp hraðhleðslustöðvar þar sem hægt verður að hlaða vagnana á aðeins 6 mínútum. Fyrirtækin sjá mikil sóknarfæri í samstarfinu, enda sé hagkvæmt fyrir yfirvöld að innviðir séu staðlaðir og að sömu aðilar komi að þróun strætisvagna og uppsetningu innviða. Borgaryfirvöld í Hamborg í Þýskalandi hafa nú þegar keypt þrjá tvinnvagna og fjórar hleðslustöðvar frá Volvo og Siemens og á næstunni verða sett upp rafvagnakerfi í Stokkhólmi og Gautaborg. Samtals hefur Volvo selt um 5.000 tvinn- og rafstrætisvagna síðan 2009.
(Sjá frétt á heimasíðu Siemens 29. janúar).