Framsækin stefna í úrgangsmálum skapar 750.000 ný störf

Úrgangsþríhyrningurinn 3 160Um 750.000 ný störf myndu skapast fram til ársins 2025 ef Evrópusambandið tæki upp framsækna stefnu í úrgangsmálum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Evrópsku umhverfisskrifstofunnar (EEB). EEB telur að með stefnu sem stuðlar að úrgangsforvörnum og endurvinnslu skapist fjölmörg græn störf, losun koltvísýrings minnki um 415 milljón tonn og landnotkun vegna matvælaframleiðslu minnki um 57 þúsund ferkílómetra fram til ársins 2030. Ekki sé nóg að banna urðun úrgangs, heldur þurfi að leggja áherslu á lausnir sem eru ofar í úrgangsþríhyrningnum. Þessu megi m.a. ná fram með hagrænum hvötum til endurnotkunar og endurvinnslu, auknum gjöldum á einnota vörur, breyttum sorphirðugjöldum og aukinni áherslu á framlengda framleiðendaábyrgð.
(Sjá frétt EEB 7. apríl).

Úrvinnslugjöld endurspegli mismunandi umhverfiskostnað

Í nýrri úttekt sem European Environmental Bureau (EEB) vann fyrir Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) kemur fram að með því að láta framleiðendur rafeindatækja greiða mishá úrvinnslugjöld eftir umhverfislegu ágæti tækjanna sem þeir framleiða, megi fá þá til að leggja meiri áherslu á vistvæna hönnun. Hingað til þykir framleiðendaábyrgð á rafeindatækjum ekki hafa skilað sér í aukinni framleiðslu á umhverfisvænni tækjum, eins og þó var stefnt að þegar framleiðendaábyrgðin var innleidd með samþykkt svonefndrar WEEE-tilskipunar Evrópusambandsins. Skilagjald á lítil rafeindatæki er meðal annarra tillagna sem settar eru fram í úttektinni.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 22. nóvember).