Tengiltvinnbílar fá falleinkun í nýrri rannsókn

Algengustu tegundir tengiltvinnbíla losa tvöfalt til þrefalt meira af gróðurhúsalofttegundum en framleiðendur halda fram. Þetta kemur fram í skýrslu sem samtökin Transport & Environment (T&E) létu nýlega vinna. Í ljósi niðurstaðnanna beina samtökin því til ríkisstjórna að nema úr gildi skattaafslætti og aðrar ívilnanir fyrir bíla af þessu tagi. Samkvæmt skýrslunni losa tengiltvinnbílarnir BMW X5, Volvo XC60 og Mitsubishi Outlander 28-89% meira koldíoxíð en auglýst er, fullhlaðnir við bestu aðstæður. Þegar rafhleðslan var búin losuðu þeir þrefalt til fjórfalt meira en sagt er – og þegar bílunum er ekið í hleðslustillingu er losunin allt að því 12-föld. Julia Poliscanova hjá T&E segir að rannsóknin hafi leitt í ljós að tengiltvinnbílar séu „falsrafbílar, framleiddir fyrir prófanir á rannsóknarstofum og skattafslætti, en ekki fyrir akstur við raunverulegar aðstæður“.
(Sjá frétt á heimasíðu T&E 23. nóvember).

Vinnubílaáskorunin hafin!

Í síðustu viku var svonefndri „vinnubílaáskorun“ hleypt af stokkunum í Vänersborg í Svíþjóð. Fyrirtæki, sveitarfélög og samtök sem taka áskoruninni skuldbinda sig til að hafa eingöngu rafbíla, tengiltvinnbíla eða metanbíla til ráðstöfunar fyrir starfsmenn sína og huga jafnframt að því að nýta aðrar samgönguleiðir, svo sem reiðhjól, almenningssamgöngur eða deilibíla. Áskorunin er hluti af átakinu Fossilfritt Sverige, sem hófst í aðdraganda Parísarráðstefnunnar 2015. Fyrirtæki og stofnanir kaupa um helming allra nýrra bíla sem seldir eru í Svíþjóð og því skiptir miklu máli hvers konar bílar verða fyrir valinu. Ástæða þess að áskorunin var kynnt í Vänersborg er sú að sveitarfélögin á því svæði, beggja vegna sænsku/norsku landamæranna, hafa sett sér það takmark að hætta að nota jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2030. Yfirskrift þess verkefnis er Hela Gröna Vägen eða „Alla græna leið“.
(Sjá frétt Gröna bilister 5. október).

Áframhaldandi samdráttur í koltvísýringslosun nýrra bíla

image_xlargeEvrópskir fólksbílar verða sífellt sparneytnari að því er fram kemur í tölum frá Umhverfisstofnun Evrópu (EEA). Fólksbílar sem skráðir voru á árinu 2015 í löndum ESB losuðu að meðaltali 119,6 grömm af koltvísýringi á hvern ekinn kílómetra, sem er 3% minna en árið áður og vel undir markmiði ESB fyrir árið 2015 þar sem gert var ráð fyrir meðallosun upp á 130 g/km. ESB er nú tveimur árum á undan áætlun í þessum efnum, en næsta markmið er að meðallosun fari undir 95 g/km árið 2021. Við þetta má þó bæta að sala nýrra bíla jókst um 9% milli ára. Aðeins um 1,3% nýrra bíla voru tvinn- eða rafbílar en í einstökum löndum var hlutfallið mun hærra, t.d. 12% í Hollandi. Þrátt fyrir litla markaðshlutdeild fjölgaði nýjum rafbílum um 50% milli áranna 2014 og 2015.
(Sjá frétt Umhverfisstofnun Evrópu 14. apríl).

Tengiltvinnbíll með sólfangara

Ford solar 200Á bílasýningunni CES2014, sem hefst í Las Vegas í dag, mun bílaframleiðandinn Ford sýna fyrsta tengiltvinnbílinn sem nýtir sólfangara á þaki til að hlaða rafhlöðurnar. Vonir standa til að sólarorkan dugi fyrir allt að 75% af daglegum bílferðum meðalökumanns.
(Sjá frétt Teknisk Ukeblad 4. janúar).

Fimm milljón Toyota tvinnbílar seldir

Prius 2007Í marsmánuði seldi bílaframleiðandinn Toyota fimmmilljónasta tvinnbílinn frá því að slíkir bílar komu fyrst á markað árið 1997. Um 70% þessara bíla voru af gerðinni Toyota Prius, sem er enn sem komið er vinsælasti tvinnbíll sögunnar. Á síðasta ári seldi Toyota samtals 1,2 milljónir tvinnbíla á heimsvísu og hefur salan aldrei verið meiri. Þá voru tvinnbílar 17% allra bifreiða sem seldar voru í Japan.
(Sjá frétt PlanetArk 18. apríl).

Indverjar efla rafbílaiðnaðinn

Ríkisstjórn Indlands hefur samþykkt áætlun um að verja 230 milljörðum rúpía (um 500 milljörðum ísl. kr.) á næstu 8 árum til að styðja við þarlenda framleiðslu á rafbílum og tvinnbílum. Reiknað er með að 55-60% af fénu komi frá ríkinu, en afgangurinn frá fyrirtækjum. Markmiðið er að 6 milljón ökutæki af þessu tagi verði komin á göturnar árið 2020, þar af 4-5 milljónir á tveimur hjólum.
(Sjá nánar í frétt PlanetArk 31. ágúst sl).