Úreldingarstyrkir fyrir gamla dísilbíla

Dönsk stjórnvöld hafa lagt 26 milljónir danskra króna (rúmlega 480 millj. ísl. kr.) í svonefndan „Dísilsjóð“ til að stuðla að úreldingu dísilbíla sem skráðir voru fyrir 1. janúar 2006. Féð verður notað til að hækka skilagjald á umræddum bílum tímabundið úr 2.200 DKK (40.700 ISK) í 5.000 DKK (92.500 ISK). Þetta hækkaða skilagjald dugar til úreldingar á rúmlega 9.000 bílum og verður í boði á tímabilinu 24. febrúar til 31. mars nk. Greitt verður út á meðan peningarnir endast samkvæmt meginreglunni „fyrstur kemur, fyrstur fær“.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 6. febrúar).

Skilagjaldskerfi fyrir plastpoka

suw160Sænski frumkvöðullinn Suwar Mert hefur stofnað sprotafyrirtækið Pantapåsen sem starfrækja mun skilagjaldskerfi fyrir plastpoka. Kerfið á að virka þannig að verslanir leggi skilagjald á poka sem viðskiptavinir kaupa og að gjaldið fáist endurgreitt þegar pokanum er skilað, annað hvort í reiðufé, sem greiðsla inn á nýja vöru eða inn á smáforrit (app) í snjallsíma. Í framhaldinu verði einnig hægt að innleysa poka í sjálfvirkum stöðvum í matvöruverslunum o.þ.h. Suwar vonast til að sem flestar verslanir gerist aðilar að kerfinu, en viðbrögðin eiga eftir að koma í ljós. Tekjur fyrirtækisins eiga að koma frá sölu auglýsinga á annars ómerkta poka og frá sölu á plastinu sem safnast til endurvinnslu. Síðar á smáforritið einnig að skapa tekjur.
(Sjá frétt á Breakit.se 6. desember).