Algengustu tegundir tengiltvinnbíla losa tvöfalt til þrefalt meira af gróðurhúsalofttegundum en framleiðendur halda fram. Þetta kemur fram í skýrslu sem samtökin Transport & Environment (T&E) létu nýlega vinna. Í ljósi niðurstaðnanna beina samtökin því til ríkisstjórna að nema úr gildi skattaafslætti og aðrar ívilnanir fyrir bíla af þessu tagi. Samkvæmt skýrslunni losa tengiltvinnbílarnir BMW X5, Volvo XC60 og Mitsubishi Outlander 28-89% meira koldíoxíð en auglýst er, fullhlaðnir við bestu aðstæður. Þegar rafhleðslan var búin losuðu þeir þrefalt til fjórfalt meira en sagt er – og þegar bílunum er ekið í hleðslustillingu er losunin allt að því 12-föld. Julia Poliscanova hjá T&E segir að rannsóknin hafi leitt í ljós að tengiltvinnbílar séu „falsrafbílar, framleiddir fyrir prófanir á rannsóknarstofum og skattafslætti, en ekki fyrir akstur við raunverulegar aðstæður“.
(Sjá frétt á heimasíðu T&E 23. nóvember).
Greinasafn fyrir merki: koldíoxíð
Stórátak í kolefnisbindingu í Noregi
Í fyrradag kynnti ríkisstjórn Noregs tillögu sína til Stórþingsins um stórátak í föngun, flutningi og bindingu koldíoxíðs. Verkefnið er margþætt, en það felst m.a. í söfnun koldíoxíðs frá sementsverksmiðju í Brevik og frá sorporkuveri í Osló, svo og í stuðningi við svonefnt Norðurljósaverkefni, sem unnið er í samstarfi fyrirtækjanna Equinor, Shell og Total. Norðurljósaverkefnið snýst um flutning fljótandi koldíoxíðs frá söfnunarstöðum til móttökustöðvar í Øygarden, en þaðan verður vökvanum dælt niður í hólf undir hafsbotni. Þetta nýja átak, sem fengið hefur nafnið Langskip, er sagt vera stærsta loftslagsverkefni norsks atvinnulífs frá upphafi. Því er ekki aðeins ætlað að auðvelda Norðmönnum að uppfylla skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsáttmálanum, heldur mun það einnig skapa allmörg ný störf. Heildarkostnaður við verkefnið er áætlaður um 25 milljarðar norskra króna (um 370 milljarðar ISK), þar af 17 milljarðar í stofnkostnað og 8 milljarðar í rekstur fyrstu 10 árin. Gert er ráð fyrir að norska ríkið beri um 67% af kostnaðinum.
(Sjá fréttatilkynningu norsku ríkisstjórnarinnar í fyrradag).
Gróðurhúsalofttegund breytt í fljótandi eldsneyti
Vísindamönnum við Rice háskólann hefur tekist að nota raforku til að breyta koldíoxíði í maurasýru í hvarftanki án þess að nota saltlausn og þar með án þess að þurfa að fara í gegnum orkufrekt og kostnaðarsamt hreinsunarferli. Sýruna er síðan hægt að nota sem hráefni eða breyta henni aftur í rafmagn í efnahverflum, rétt eins og nú er gert með vetni. Maurasýran hefur það fram yfir vetnið að geta geymt 1.000 sinnum meiri orku í sama rúmmáli. Vissulega losnar koldíoxíð þegar sýran er klofin á nýjan leik en það koldíoxíð er hægt að nýta aftur og aftur. Sé endurnýjanleg raforka notuð í ferlinu getur ávinningurinn verið verulegur í samanburði við þær aðferðir sem beitt hefur verið hingað til. Orkunýtingarhlutfallið í hvarftankinum er um 42% sem þýðir að 42% af raforkunni sem notuð er í ferlinu skilar sér í nýtanlegri orku í maurasýrunni. Nýjungin í þessu byggir á tvennu; annars vegar að nota bismút (Bi) sem hvata og hins vegar að þróa raflausn í föstu formi í stað saltlausnar.
(Sjá frétt Science Daily 3. september).