Enginn latteskattur

Ríkisstjórn Bretlands hefur hafnað tilmælum umhverfisúttektarnefndar breska þingsins frá því í janúar um að taka upp 25 pensa „latteskatt“ á einnota kaffimál. Í svari ríkisstjórnarinnar til nefndarinnar kemur hins vegar fram að stjórnin fagni því að einstök kaffihús bjóði fólki afslátt af kaffi ef það kemur með fjölnota mál. Mary Creagh, formaður umhverfisúttektarnefndarinnar, segir að þessi viðbrögð ríkisstjórnarinnar sýni að þar á bæ sé meira um orð en gjörðir. Einnota umbúðir skapa nú þegar mikinn vanda í Bretlandi og árlega henda Bretar um 2,5 milljörðum einnota kaffimála í ruslið.
(Sjá frétt Independent 9. mars).

Má búast við latteskatti?

Kaffihúsakeðjan Starbucks í London ætlar að gera tilraun með að rukka viðskiptavini um 5 pens aukalega (um 7 ísl. kr.) fyrir hvern kaffiskammt sem seldur er í einnota málum. Með þessu vill Starbucks draga úr sóun, en árlega henda Bretar um 2,5 milljörðum einnota kaffibolla í ruslið. Ef þessum bollum væri öllum raðað enda við enda myndu þeir ná fimm og hálfan hring í kringum jörðina. Fimmpensagjaldið verður fyrst um sinn bara lagt á til reynslu í 20-25 kaffihúsum í þrjá mánuði, frá og með febrúar. Ágóðinn verður notaður til rannsókna á því hvernig gjaldið hefur áhrif á viðhorf og hegðun viðskiptavina. Ákvörðun Starbucks var kynnt sama dag og umhverfisúttektarnefnd breska þingsins beindi þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að taka upp 25 pensa „latteskatt“ með það að markmiði að árið 2023 verði allir einnota kaffibollar farnir að skila sér í endurvinnslu.
(Sjá frétt The Sun 5. janúar).

Eru kaffidrifnir strætisvagnar framtíðin?

Olía sem unnin er úr kaffikorgi er nú notuð á nokkra strætisvagna í London. Á hverjum degi eru drukknir um 55 milljón bollar af kaffi í Bretlandi og samtals falla þar til um 200.000 tonn af kaffikorgi á ári. Fyrirtækið Bio-bean safnar korgi og vinnur úr honum olíu sem síðan er blandað í venjulega dísilolíu í hlutföllunum 20/80 (B20-lífdísill). Engar breytingar þarf að gera á olíuverki strætisvagnanna til að þeir geti nýtt þetta eldsneyti. Lífdísill úr notaðri matarolíu og tólg hefur um nokkurt skeið verið notaður með þessum hætti í almenningsfarartækjum í London, en þetta mun vera í fyrsta sinn sem kaffikorgur kemur að notum sem orkugjafi á þeim vettvangi.
(Sjá frétt BBC 19. nóvember).

Mikið ósýnilegt vatn í hversdagsvörum

coffee_tea_160Um fimmfalt meira vatn þarf til að framleiða einn bolla af kaffi en einn bolla af tei samkvæmt nýrri skýrslu samtakanna Friends of the Earth þar sem sjá má útreikninga á vatns- og landnotkun ýmissa vörutegunda til daglegra nota. Þar kemur fram að um 136 lítra af vatni þurfi til að framleiða einn kaffibolla. Mest af þessu vatni fer í ræktunina og í að fjarlægja hlaupkennt lag utan af baununum. Þá kemur fram að að meðaltali þurfi 13 tonn af vatni og 18 fermetra af landi til að framleiða einn snjallsíma. Samtökin skora á fyrirtæki að stunda ábyrga framleiðslu með því að fylgjast með og draga úr auðlindanotkun og upplýsa neytendur um vistspor framleiðslunnar. Um leið dragi fyrirtækin úr framleiðslukostnaði og auki arðsemi sína.
(Sjá frétt EDIE 12. maí).

Sala á Fairtrade-vörum í Svíþjóð jókst um 37% milli ára

fairtrade_160Sala á Faitrade-vottuðum vörum jókst um 37% í Svíþjóð milli áranna 2013 og 2014 samkvæmt markaðskönnun Fairtrade-samtakanna. Sé litið á fjóra stærstu vöruflokkana sést að sala á bönunum jókst um 95% milli ára, sala á víni um 42%, sala á blómum um 40% og sala á kaffi um 24%. Sala á Faitrade-vottuðum vörum í Svíþjóð nemur nú um 2,7 milljörðum sænskra króna á ári (um 42 milljörðum ísl. kr.). Aukin sala á Fairtrade-vörum helst í hendur við aukna eftirspurn eftir lífrænt vottuðum vörum, en um 65% af Fairtrade-vörunum sem seldar voru í Svíþjóð 2014 voru einnig með lífræna vottun. Tölurnar gefa til kynna að neytendur leggi æ meira áherslu á sjálfbæran uppruna vöru og að bændum í þróunarlöndunum séu tryggðar ásættanlegar vinnuaðstæður.
(Sjá frétt sænsku Faitrade samtakanna 23. apríl).

Ostrusveppir ræktaðir í kaffikorgi

Ostrusveppir Exeter 160Samtök með aðsetur í Devon í Englandi hófu nýlega að nýta kaffikorg til ræktunar á ostrusveppum í ónotuðu skrifstofuhúsnæði í Exeter. Áætlað er að Bretar drekki um 80 milljón bolla af kaffi daglega, en innan við 1% af kaffibaununum kemst í raun alla leið í bollann. Afgangurinn fer að mestu leyti í urðun. Kaffikorgur er næringarríkur og sveppirnir góður próteingjafi. Aðstandendur verkefnisins benda á að ræktun af þessu tagi henti einkar vel í borgum þar sem mest fellur til af úrgangi og mest eftirspurn er eftir fæðu. Það er von þeirra að verkefnið stuðli jafnframt að eflingu landbúnaðar í öðrum borgum.
(Sjá umfjöllun Waste Management World 19. september).

Stóraukin sala á vottuðu kaffi vestanhafs

Rainforest AllianceSala á vottuðum kaffibaunum í Bandaríkjunum og í Kanada jókst verulega á síðasta ári. Þannig jókst innflutningur á réttlætismerktum baunum (e. Fairtrade) til þessara landa um 18% frá árinu áður og nam samtals um 74.000 tonnum. Alls runnu 32 milljónir dollara (tæplega 3,8 milljarðar ísl. kr.) af söluandvirðinu til samfélagsverkefna í heimahögum framleiðenda. Þá náði kaffi með vottun samtakanna Rainforest Alliance 4,5% markaðshlutdeild á heimsvísu á síðasta ári. Árið 2011 var þetta hlutfall 3,3%, og aðeins 1,5% árið 2009. Á árinu 2012 voru seld samtals 375.000 tonn af kaffi með slíka vottun.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).