Enginn latteskattur

Ríkisstjórn Bretlands hefur hafnað tilmælum umhverfisúttektarnefndar breska þingsins frá því í janúar um að taka upp 25 pensa „latteskatt“ á einnota kaffimál. Í svari ríkisstjórnarinnar til nefndarinnar kemur hins vegar fram að stjórnin fagni því að einstök kaffihús bjóði fólki afslátt af kaffi ef það kemur með fjölnota mál. Mary Creagh, formaður umhverfisúttektarnefndarinnar, segir að þessi viðbrögð ríkisstjórnarinnar sýni að þar á bæ sé meira um orð en gjörðir. Einnota umbúðir skapa nú þegar mikinn vanda í Bretlandi og árlega henda Bretar um 2,5 milljörðum einnota kaffimála í ruslið.
(Sjá frétt Independent 9. mars).

Má búast við latteskatti?

Kaffihúsakeðjan Starbucks í London ætlar að gera tilraun með að rukka viðskiptavini um 5 pens aukalega (um 7 ísl. kr.) fyrir hvern kaffiskammt sem seldur er í einnota málum. Með þessu vill Starbucks draga úr sóun, en árlega henda Bretar um 2,5 milljörðum einnota kaffibolla í ruslið. Ef þessum bollum væri öllum raðað enda við enda myndu þeir ná fimm og hálfan hring í kringum jörðina. Fimmpensagjaldið verður fyrst um sinn bara lagt á til reynslu í 20-25 kaffihúsum í þrjá mánuði, frá og með febrúar. Ágóðinn verður notaður til rannsókna á því hvernig gjaldið hefur áhrif á viðhorf og hegðun viðskiptavina. Ákvörðun Starbucks var kynnt sama dag og umhverfisúttektarnefnd breska þingsins beindi þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að taka upp 25 pensa „latteskatt“ með það að markmiði að árið 2023 verði allir einnota kaffibollar farnir að skila sér í endurvinnslu.
(Sjá frétt The Sun 5. janúar).

Vaxandi rusl á breskum fjörum

Cigarette-butts-ends-left-009Rusl á breskum fjörum jókst um 12% milli áranna 2011 og 2012, mælt í fjölda hluta á hvern kílómetra strandlengjunnar. Mest varð aukningin á rusli frá reykingamönnum. Þannig fjölgaði kveikjurum og sígarettupökkum um 90% á milli ára og fjöldi sígarettufiltera tvöfaldaðist. Á einni helgi í september í fyrra fylltu sjálfboðaliðar 1.800 sorpsekki með rusli á 90 km strandlengju, og reyndust um 65% af ruslinu vera plast af einhverju tagi. Þetta veldur sérstökum áhyggjum, þar sem plastið brotnar seint eða ekki niður í náttúrunni. Svo virðist sem áratugalöng viðleitni til að bæta umgengni fólks hafi ekki skilað miklum árangri.
(Sjá frétt The Guardian í gær).