Kolefnisskattur á rautt kjöt?

Samtök breskra sérfræðinga í heilbrigðismálum leggja til að loftslagsskattur verði lagður á matvörur sem hafa mikil neikvæð áhrif á umhverfið, svo sem rautt kjöt og mjólkurvörur. Tekin verði ákvörðun um þetta sem fyrst en gefinn aðlögunartími til 2025, þannig að framleiðendur og seljendur hafi svigrúm til breytinga. Í samtökunum sem um ræðir (UKHACC) eru m.a. 10 háskólar í heilbrigðisvísindum, Breska læknafélagið (British Medical Association) og læknatímaritið Lancet. Samtökin benda á að minni neysla á umræddum vörum sé góð fyrir heilsuna og að loftslagsvandinn verði ekki leystur án þess að fólk breyti fæðuvenjum sínum. Ekki sé verið að leggja til að allir verði grænkerar, heldur að stjórntækjum verði beitt til að draga úr neyslu loftslagsskaðlegra matvæla. Sambærilegir skattar hafi sannað gildi sitt til að draga úr neyslu sykraðra gosdrykkja o.fl. Auk þess leggur UKHACC m.a. til að matvæli verði merkt með upplýsingum um umhverfisáhrif og að gerðar verði lágmarks umhverfiskröfur við innkaup á matvælum fyrir mötuneyti í skólum, sjúkrahúsum, hjúkrunarheimilum og fangelsum.
(Sjá frétt The Guardian í gær).

Verðandi mæður velji lífrænt

Gravid ØkoFleiri efni en áður var talið geta truflað þroskun heila í börnum í móðurkviði. Þetta kemur fram í grein Dr. Philippe Grandjean og samstarfsmanna hans sem birtast mun í læknatímaritinu Lancet í næsta mánuði. Börn sem fá þessi efni í sig á fósturskeiði eða með móðurmjólk eru líklegri en önnur til að greinast með einhverfu, lesblindu, ADHD og aðrar þroskaraskanir, en efnin sem um ræðir geta m.a. leynst í matvælum, snyrtivörum, leikföngum og klæðnaði. Dr. Philippe kallar eftir alþjóðlegum aðgerðum til að tryggja að börn verði ekki fyrir varanlegu heilsutjóni af völdum efna af þessu tagi og ráðleggur jafnframt verðandi mæðrum að velja lífræn matvæli til að forðast varnarefnaleifar í matvælum.
(Sjá frétt Danska ríkisútvarpsins 15. febrúar).

Sífellt fleiri deyja vegna loftmengunar

The-India-Gate-monument-i-008Um 3,2 milljónir manna dóu vegna loftmengunar á árinu 2010 að því er fram kemur í grein í læknatímaritinu Lancet, en árið 2000 var þessi tala aðeins 800 þúsund. Loftmengun er nú í fyrsta sinn orðin ein af 10 algengustu dánarorsökunum í heiminum. Þessi mikla fjölgun stafar öðru fremur af gríðarlegri aukningu bílaumferðar í fjölmennum borgum í Asíu. Heilsufarsáhrif af mengun samtímans eiga þó væntanlega eftir að koma fram af enn meiri þunga, svo sem vegna krabbameina sem gera ekki vart við sig fyrr en að allnokkrum árum liðnum.
(Sjá frétt The Guardian í gær).