Umbúðafyrirtækið Tetra Pak í Svíþjóð varð á dögunum fyrst allra fyrirtækja til að fá vottun Norræna svansins fyrir drykkjarumbúðir. Ef allir Norðurlandabúar myndu velja þessar tilteknu drykkjarumbúðir (Tetra Rex® Plant-based) í stað umbúða sem nú eru notaðar í sama tilgangi, myndi losun koldíoxíðs minnka um 30.000 tonn á ári. Meðal krafna sem Svanurinn gerir til drykkjarumbúða er að þær samanstandi af a.m.k. 90% endurnýjanlegu efni (fernur) eða a.m.k. 80% endurunnu efni (gler,ál) eða a.m.k. 80% endurunnu/endurnýjanlegu efni (plast). Auk þess eru gerðar strangar kröfur um efnanotkun o.fl.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Svíþjóð 23. janúar).
Greinasafn fyrir flokkinn: Neytendur
Fyrstu Svansmerktu útileiktækin
Danska fyrirtækið CADO hóf nýlega framleiðslu á fyrstu Svansmerktu útileiktækjunum í heiminum, en þessi tæki henta vel í „útiræktina“, þ.e. á líkamsræktarsvæði utandyra. Til þess að fá vottun Svansins þurfa útileiktæki að uppfylla ýmsar kröfur sem ná til alls lífsferils tækjanna. Sem dæmi má nefna að efni sem notuð eru í yfirborðsmeðhöndlun þurfa að uppfylla tilteknar kröfur, mæta þarf viðmiðum um notkun endurunninna málma og þegar tækin hafa lokið hlutverki sínu þarf að vera auðvelt að aðskilja málma og önnur efni þannig að hægt verði að nota þau á nýjan leik. Auk þess eru gerðar kröfur um notagildi og öryggi tækjanna, um endingu þeirra og veðraþol.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Svíþjóð 16. október).
Minni innkaup gera fólk hamingjusamara en grænni innkaup
Umhverfismeðvituðu ungu fólki sem kaupir lítið af vörum líður að meðaltali betur en umhverfismeðvituðum jafnöldrum þeirra sem kaupa umhverfisvænar vörur. Þetta kom fram í langtímarannsókn Sabrínu Helm og félaga við Háskólann í Arizona, sem sagt er frá í tímaritinu Young Consumers. Í rannsókninni voru ýmsar spurningar lagðar fyrir fólk af Þúsaldarkynslóðinni (f. 1980-2000) sem allt hafði tamið sér umhverfisvæn gildi. Að mati rannsakendanna má skipta þessum hópi í tvo undirhópa, annars vegar þau sem hafa dregið úr neyslu, m.a. með því að forðast óþörf innkaup og með því að gera við hluti til að láta þá endast lengur og hins vegar þau sem „kaupa grænt“, þ.e. kaupa hluti sem hafa minni neikvæð áhrif á umhverfið en aðrir hlutir til sömu nota. Fyrrnefndi hópurinn var hamingjusamari og upplifði minni streitu. Sabrína Helm og félagar draga m.a. þá ályktun af þessu að efnishyggju fylgi aukið álag, jafnvel þótt efnishyggjan sé „græn“. Álagið getur stafað af meiri skuldum og flóknara lífi sem fylgir eignarhaldi og rekstri hluta.
(Sjá frétt Science Daily 8. október).
Örplast lekur úr tepokum úr gerviefnum
Hópur vísindamanna í Kanada hefur sýnt fram á að tepokar úr gerviefnum gefa frá sér gríðarmikið af örplasti þegar þeir eru settir í sjóðheitt vatn. Talning með rafeindasmásjá leiddi í ljós að frá einum slíkum poka bárust u.þ.b. 14,7 milljarðar örplastagna, þar af um 3,1 milljarður nanóplastagna (minni en 100 nanómetrar (nm) í þvermál. (Til samanburðar er þvermál mannshárs um 75.000 nm)). Þessar tölur er mörgþúsund sinnum hærri en áður hefur sést í matvælum. Í tengslum við þetta voru könnuð áhrif mismunandi styrks þessara sömu plastagna á vatnaflær af tegundinni Daphnia magna. Flærnar lifðu tilraunina af en sýndu tiltekin líffærafræðileg og hegðunarleg frávik. Að sögn vísindamannanna þarf meiri rannsóknir til að draga ályktanir um áhrif þessara plastagna á heilsu manna.
(Sjá frétt á heimasíðu American Chemical Society (ACS) 25. september).
Þvegið úr köldu vatni án þvottaefnis
Íbúar í stúdentablokkinni Tensta Torn í útjaðri Stokkhólms geta fljótlega þvegið fötin sín úr köldu vatni og án þess að nota þvottaefni. Þetta hefur reyndar alltaf verið hægt, en nýjungin í Tensta Torn felst í því að fötin verða a.m.k. jafnhrein og eftir venjulegan þvott. Sænska fyrirtækið Swatap hefur fengið einkarétt á þessari nýrri tækni, sem kallast DIRO og byggir á því að áður en þvottavatnið streymir í þvottavélina er það leitt í gegnum kolasíur, bakteríur og veirur eru fjarlægðar með öfugri osmósu og vatnið síðan afjónað þannig að það innihaldi fyrirfram ákveðið magn vetnis- og hýdróxíðjóna. Með þessari nýju tækni ætti að vera hægt að spara talsverða orku, þvottaefniskaup og viðhald á þvottavélum, auk þess sem minni þvottaefnisnotkun stuðlar að bættri heilsu. Þvottahúsið í Tensta Torn verður tekið í notkun 19. september nk. og mun þá jafnframt nýtast sem sýningarrými fyrir þá sem vilja kynna sér málið.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet 22. ágúst).
Tíu verstu plastbófarnir
Með hjálp 10.000 sjálfboðaliða í 42 löndum hafa samtökin Greenpeace og Break Free from Plastic safnað plastrusli og skrásett nöfn fyrirtækjanna sem framleiddu plastið – og nú hafa þessar upplýsingar verið birtar í formi lista yfir 10 stórtækustu plastruslsframleiðendurna. Coca Cola trónir á toppi listans, en rusl þaðan var nánast alls staðar í einu af þremur efstu sætunum. Pepsi lenti í öðru sæti listans og Nestlé í því þriðja. Greenpeace hefur í framhaldi af þessu sett í gang átakið #IsThisYours, þar sem fólk er hvatt til að setja myndir af rusli inn á samfélagsmiðla, merktar framleiðandanum og átakinu.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet í gær).
Engar plastflöskur í Lundúnahálfmaraþoninu
Engar plastflöskur verða leyfðar í Lundúnahálfmaraþoninu sem fram fer nk. sunnudag. Þess í stað fá hlauparar afhenta sérstaka vatnspoka á drykkjarstöðvum, en þessir pokar eru gerðir úr þörungum og brotna auðveldlega niður í náttúrunni. Hlaupararnir geta þá hvort heldur sem er bitið gat á pokann og drukkið vatnið eða borðað pokann með innihaldinu. Þetta fyrirkomulag tengist annarri viðleitni borgaryfirvalda í London til að draga úr notkun á einnota plastflöskum, en talið er að á hverri mínútu sé um ein milljón slíkra flaskna seldar í heiminum. Stór hluti af þeim endar í urðun eða úti í sjó.
(Sjá frétt The Guardian í gær).
Carlsberg sparar 1.200 tonn af plasti á ári með límdum dósum
Bjórframleiðandinn Carlsberg hóf í vikunni framleiðslu á nýjum sexum (e. sixpacks) þar sem bjórdósirnar eru límdar saman á hliðunum með sérhönnuðum límpunktum í stað þess að hanga saman í plastbelti. Með þessu móti vonast Carlsberg til að geta dregið úr plastnotkun um 1.200 tonn á ári, auk þess sem lífríkinu stafar ekki hætta af umbúðunum, framleiðslan verður minna háð jarðefnaeldsneyti og losun gróðurhúsalofttegunda minnkar. Þessi nýjung, sem nefnist „Snap Pack“ á ensku, er hluti af stóru sjálfbærniverkefni Carlsberg undir yfirskriftinni „Náum núlli saman“ (e. Together Towards Zero). Nýja sexan kemur fyrst á markað í Bretlandi (og í Noregi) en mun síðan breiðast út um önnur markaðssvæði Carlsberg.
(Sjá frétt Packaging Europe í gær).
Vaxandi sala á lífrænum matvörum í Bretlandi
Sala á lífrænt vottuðum matvörum í Bretlandi var 4% meiri á fyrri hluta þessa árs en á sama tíma í fyrra, þrátt fyrir að matvörumarkaðurinn hafi almennt átt mjög erfitt uppdráttar vegna mikilla þurrka og uppskerubrests. Þetta er 7. árið í röð sem sala á lífrænum matvörum vex og er heildarvelta þessarar sölu í breskum stórmörkuðum nú um 2,2 milljarðar sterlingspunda á ári (rúmlega 300 milljarðar ísl. kr.). Mest var söluaukningin í alls konar lífrænt vottuðu sælgæti og sérvöru, 27,8%, en þar á eftir kom lífrænt vottað vín og bjór með 8,7% aukningu.
(Sjá frétt The Guardian í dag).
Oft góð eftir „Best fyrir“
Flokkur græningja í Svíþjóð (Miljöpartiet) vill að hætt verði að nota merkingu „Best fyrir“ á matvörur, þar sem hún leiði til óþarfrar matarsóunar. Til þess að koma þessu í kring þyrfti að breyta reglum Evrópusambandsins um merkingar og um það ætti líklega að geta náðst samstaða, þar sem stjórnvöld í flestum ríkjum segjast vilja draga úr matarsóun. Að einhverju leyti er þetta þó spurning um þýðingar á Evrópuregluverkinu. Það sem Svíar hafa þýtt sem „Bäst före“ hafa Danir t.d. þýtt sem „Mindst holdbar til“, sem felur í sér nokkuð önnur skilaboð til neytenda. Mjólkurrisinn Arla í Svíþjóð er farinn að prenta orðin „Oft gott eftir“ á umbúðir við hliðina á „Best fyrir“, þannig að vissulega eru ýmsar leiðir færar. Talið er að í Svíþjóð endi um 30% af öllum matvörum í ruslinu, en það er svipað og í öðrum Evrópulöndum.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet í dag)