Minni innkaup gera fólk hamingjusamara en grænni innkaup

Umhverfismeðvituðu ungu fólki sem kaupir lítið af vörum líður að meðaltali betur en umhverfismeðvituðum jafnöldrum þeirra sem kaupa umhverfisvænar vörur. Þetta kom fram í langtímarannsókn Sabrínu Helm og félaga við Háskólann í Arizona, sem sagt er frá í tímaritinu Young Consumers. Í rannsókninni voru ýmsar spurningar lagðar fyrir fólk af Þúsaldarkynslóðinni (f. 1980-2000) sem allt hafði tamið sér umhverfisvæn gildi. Að mati rannsakendanna má skipta þessum hópi í tvo undirhópa, annars vegar þau sem hafa dregið úr neyslu, m.a. með því að forðast óþörf innkaup og með því að gera við hluti til að láta þá endast lengur og hins vegar þau sem „kaupa grænt“, þ.e. kaupa hluti sem hafa minni neikvæð áhrif á umhverfið en aðrir hlutir til sömu nota. Fyrrnefndi hópurinn var hamingjusamari og upplifði minni streitu. Sabrína Helm og félagar draga m.a. þá ályktun af þessu að efnishyggju fylgi aukið álag, jafnvel þótt efnishyggjan sé „græn“. Álagið getur stafað af meiri skuldum og flóknara lífi sem fylgir eignarhaldi og rekstri hluta.
(Sjá frétt Science Daily 8. október).

Þeir sem flokka eru hamingjusamari

affald_160Einstaklingar sem hugsa um náttúruna, draga úr úrgangsmyndun og flokka ruslið sitt lifa hamingjusamara lífi en annað fólk. Þetta kemur fram  í skýrslu sem Rannsóknarstofnun hamingjunnar gaf út á dögunum, en þar eru teknar saman niðurstöður rannsókna frá Kaupmannahafnarháskóla, Hagfræðiháskólanum í London og háskólanum í Harvard. Í skýrslunni er bent á fjórar mögulegar ástæður fyrir þessum tengslum flokkunar og hamingju. Í fyrsta lagi geti sjálfbær lífstíll stuðlað að hamingju, í öðru lagi sé hamingjusamt fólk líklegra til að flokka rusl, í þriðja lagi efli úrgangsforvarnir og flokkun tengingu fólks við náttúruna og nágrannana og í fjórða lagi sé fólk sem hugsar um umhverfið almennt ánægðara og leggi því áherslu á sjálfbærni. Skýrslan, sem ber titilinn Sjálfbær hamingja – Af hverju úrgangsforvarnir geta aukið lífsgæði, hefur fangað athygli umhverfisráðherra Danmerkur sem fagnar því að aukin hamingja geti verið jákvæð aukaverkun aukinnar nýtni og sjálfbærra áherslna.
Sjá frétt Politiken 30. janúar).