Carlsberg sparar 1.200 tonn af plasti á ári með límdum dósum

Bjórframleiðandinn Carlsberg hóf í vikunni framleiðslu á nýjum sexum (e. sixpacks) þar sem bjórdósirnar eru límdar saman á hliðunum með sérhönnuðum límpunktum í stað þess að hanga saman í plastbelti. Með þessu móti vonast Carlsberg til að geta dregið úr plastnotkun um 1.200 tonn á ári, auk þess sem lífríkinu stafar ekki hætta af umbúðunum, framleiðslan verður minna háð jarðefnaeldsneyti og losun gróðurhúsalofttegunda minnkar. Þessi nýjung, sem nefnist „Snap Pack“ á ensku, er hluti af stóru sjálfbærniverkefni Carlsberg undir yfirskriftinni „Náum núlli saman“ (e. Together Towards Zero). Nýja sexan kemur fyrst á markað í Bretlandi (og í Noregi) en mun síðan breiðast út um önnur markaðssvæði Carlsberg.
(Sjá frétt Packaging Europe í gær).

Kolaskaut í rafhlöður framleidd úr bjórskólpi

beerVísindamenn við háskólann í Boulder, Colorado í Bandaríkjunum hafa fundið leið til að framleiða efni í kolaskaut fyrir rafhlöður úr fráveituvatni frá bjórverksmiðjum. Efnið er framleitt af sveppnum Neurospora crassa sem þrífst vel í sykurríku bjórskólpinu. Aðferðin er í sjálfu sér ekki ný en skólpið hentar betur en annar lífmassi þar sem það er tiltölulega einsleitt og alltaf til í nægu magni þar sem um 7 lítra af vatni þarf til að framleiða 1 lítra af bjór. Með framleiðslunni eru slegnar tvær flugur í einu höggi, því að sveppirnir hjálpa í leiðinni til við að hreinsa vatnið áður en því er sleppt út í viðtakann. Með því að beita aðferðinni í stórum stíl ætti að vera hægt að lækka kostnað við hreinsun verulega og lækka um leið kostnað við orkugeymslu.
(Sjá frétt Science Daily í dag).

Engin úrgangur urðaður frá brugghúsum MillerCoors

MillerCoorsBjórframleiðandinn MillerCoors, sem framleiðir m.a. Miller bjórinn, tilkynnti á dögunum að sá árangur hefði náðst að ekkert af þeim úrgangi sem fellur til í brugghúsum fyrirtækisins í Bandaríkjunum sé urðaður. Fyrirtækið ákvað árið 2009 að hefja aðgerðir til að minnka úrgang og hefur nú náð úrgangsmagninu niður um 89%. Á sama tíma hafa þau unnið að því að finna endurvinnslufarveg fyrir þann úrgang sem verður til í brugghúsunum og nú fara næstum 100% alls úrgangs í efnisendurvinnslu en lítill hluti er sendur í orkuvinnslu. Fyrirtækið mun nú leggja áherslu á að gera aðra hluta framleiðslukeðjunnar urðunarlausa til að draga úr umhverfisáhrifum fyrirtækisins í heild.
(Sjá frétt CNBC 17. febrúar).

Sjálfbærni í brennidepli á NorthSide tónlistarhátíðinni

northsideUm 80% af öllum mat og rúmlega 50% af öllum kranabjór sem seldur var í sölubásum á NorthSide tónlistarhátíðinni í Árósum sl. sumar var lífrænt vottað auk þess sem meira en helmingur þess úrgangs sem féll til á hátíðinni var flokkaður til efnisendurvinnslu. Mikil áhersla hefur verið lögð á að auka sjálfbærni viðburðarins með sérstakri áherslu á orkunýtingu, endurnýtingu, úrgangsflokkun og lífrænar matvörur. Aðstandendur hátíðarinnar segja að kröfurnar verði enn strangari á næsta ári, enda sé stefnt að því að allur matur og drykkur verði lífrænt vottaður og að hátíðin verði úrgangslaus (þ.e.a.s. að enginn blandaður úrgangur falli til).
(Sjá frétt Økologisk landsforening 11. janúar)

Carlsberg skálar með lífbrjótanlegum bjórflöskum

Bjórframleiðandinn Carlsberg ætlar að þróa og framleiða fyrstu 100% lífbrjótanlegu bjórflöskuna, en samstarfið er hluti af framtaksverkefni Carlsberg um hringrásarhagkerfi. Græntrefjaflaskan verður framleidd úr viðartrefjum af sjálfbærum uppruna og hefur fyrirtækið gert 3ja ára samstarfssamning um þetta verkefni við umbúðafyrirtækið ecoXpac, Nýsköpunarsjóð Danmerkur og Tækniháskóla Danmerkur. Rekja má um 42% af kolefnisspori Carlsberg til umbúða og ætti þetta framtak því að geta dregið verulega úr losun fyrirtækisins. Vonir standa til að verkefnið marki tímamót í umbúðamenningu og verði þannig mikilvægt skref í átt að hringrásarhagkerfi án úrgangs.
(Sjá frétt EDIE 3. febrúar).