Þvegið úr köldu vatni án þvottaefnis

Íbúar í stúdentablokkinni Tensta Torn í útjaðri Stokkhólms geta fljótlega þvegið fötin sín úr köldu vatni og án þess að nota þvottaefni. Þetta hefur reyndar alltaf verið hægt, en nýjungin í Tensta Torn felst í því að fötin verða a.m.k. jafnhrein og eftir venjulegan þvott. Sænska fyrirtækið Swatap hefur fengið einkarétt á þessari nýrri tækni, sem kallast DIRO og byggir á því að áður en þvottavatnið streymir í þvottavélina er það leitt í gegnum kolasíur, bakteríur og veirur eru fjarlægðar með öfugri osmósu og vatnið síðan afjónað þannig að það innihaldi fyrirfram ákveðið magn vetnis- og hýdróxíðjóna. Með þessari nýju tækni ætti að vera hægt að spara talsverða orku, þvottaefniskaup og viðhald á þvottavélum, auk þess sem minni þvottaefnisnotkun stuðlar að bættri heilsu. Þvottahúsið í Tensta Torn verður tekið í notkun 19. september nk. og mun þá jafnframt nýtast sem sýningarrými fyrir þá sem vilja kynna sér málið.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet 22. ágúst).

2.500 milljörðum eytt í ónotað rafmagn

electronics_160Bandaríkjamenn eyða árlega um 19 milljörðum dala (um 2.500 milljörðum ísl .kr.) í rafmagn fyrir raftæki sem ekki eru í notkun, að því er fram kemur í nýrri úttekt Natural Resources Defense Council. Að meðaltali eru þetta um 165 dalir á hvert heimili (21 þús. ísl.kr.). Til að framleiða þetta rafmagn þarf um 50 stór raforkuver. Raforkan er notuð á meðan fólk heldur að slökkt sé á tækinu eða þegar tækið er stillt á „Standby“ eða „sleep-mode“. Einnig hefur færst í aukana að fólk hafi alltaf kveikt á tækjum á borð við fartölvur, sem nota þá rafmagn þó að þau séu ekki í notkun. Þrátt fyrir að orkunýtni raftækja hafi batnað mjög á síðustu árum hefur tækniþróun leitt til þess að mörg raftæki nota sífellt rafmagn. Þannig hafa margar þvottavélar, þurrkarar, ískápar og fleiri tæki rafskjá og rafrænan stjórnunarbúnað. Önnur tæki, svo sem sjónvörp, eru í stöðugu netsambandi sem eykur einnig orkunotkun. Neytendur geta dregið úr orkusóun með því að nota tímarofa, fjöltengi með rofa, snjalltengi („smart power strip“) eða með því að breyta stillingum tækja.
(Sjá frétt ENN 7. maí).

Líftími raftækja styttist

raftaeki_160Í rannsókn Umhverfisstofnunar Þýskalands á „skipulegri úreldingu“ (e. built-in obsolescence) kom í ljós að sífellt fleiri raftæki eru seld til að koma í stað gallaðrar vöru. Árið 2004 var aðeins um 3,5% seldra raftækja í Evrópu ætlað að koma í stað gallaðra vöru en árið 2012 var hlutfallið komið í 8,3%. Á sama tíma hefur hlutfall stórra heimilistækja sem bila á fyrstu fimm árunum hækkað úr 7% árið 2004 í 13% árið 2013. Þessar tölur benda til að gæði og endingartími raftækja séu á niðurleið og að hugsanlega leggi raftækjaframleiðendur áherslu á stuttan líftíma til þess að auka sölu. Styttingu á líftíma má einnig rekja til neysluvenju þar sem neytendur leggja sífellt meiri áherslu á að eiga nýjasta módelið. Þannig voru um 60% allra sjónvarpstækja sem skipt var út árið 2012 í góðu lagi. Stjórnvöld innan ESB hafa áhyggjur af óábyrgri auðlindanotkun og áhrifum hennar á umhverfið og eru að skoða möguleika á að skylda framleiðendur til að tryggja endingu og að hægt sé að gera við raftækin.
(Sjá frétt the Guardian 3. mars).