Danska fyrirtækið CADO hóf nýlega framleiðslu á fyrstu Svansmerktu útileiktækjunum í heiminum, en þessi tæki henta vel í „útiræktina“, þ.e. á líkamsræktarsvæði utandyra. Til þess að fá vottun Svansins þurfa útileiktæki að uppfylla ýmsar kröfur sem ná til alls lífsferils tækjanna. Sem dæmi má nefna að efni sem notuð eru í yfirborðsmeðhöndlun þurfa að uppfylla tilteknar kröfur, mæta þarf viðmiðum um notkun endurunninna málma og þegar tækin hafa lokið hlutverki sínu þarf að vera auðvelt að aðskilja málma og önnur efni þannig að hægt verði að nota þau á nýjan leik. Auk þess eru gerðar kröfur um notagildi og öryggi tækjanna, um endingu þeirra og veðraþol.
(Sjá frétt á heimasíðu Svansins í Svíþjóð 16. október).