Íbúar í stúdentablokkinni Tensta Torn í útjaðri Stokkhólms geta fljótlega þvegið fötin sín úr köldu vatni og án þess að nota þvottaefni. Þetta hefur reyndar alltaf verið hægt, en nýjungin í Tensta Torn felst í því að fötin verða a.m.k. jafnhrein og eftir venjulegan þvott. Sænska fyrirtækið Swatap hefur fengið einkarétt á þessari nýrri tækni, sem kallast DIRO og byggir á því að áður en þvottavatnið streymir í þvottavélina er það leitt í gegnum kolasíur, bakteríur og veirur eru fjarlægðar með öfugri osmósu og vatnið síðan afjónað þannig að það innihaldi fyrirfram ákveðið magn vetnis- og hýdróxíðjóna. Með þessari nýju tækni ætti að vera hægt að spara talsverða orku, þvottaefniskaup og viðhald á þvottavélum, auk þess sem minni þvottaefnisnotkun stuðlar að bættri heilsu. Þvottahúsið í Tensta Torn verður tekið í notkun 19. september nk. og mun þá jafnframt nýtast sem sýningarrými fyrir þá sem vilja kynna sér málið.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet 22. ágúst).
Greinasafn fyrir merki: þvottaefni
Þurfa fiskar hárnæringu?
Fjórgreind ammóníumsambönd (QACs) fundust í öllum sýnum sem tekin voru í afrennsli skólphreinsistöðva á Norðurlöndunum og í öllum sýnum sem tekin voru úr sjávarseti og fiskum, að því er fram kemur í nýrri norrænni skýrslu sem gefin hefur verið út og kynnt undir nafninu „Þurfa fiskar hárnæringu?“. Fjórgreind ammóníumsambönd, svo sem behentrímóníum, eru mikið notuð í neytendavörur á borð við mýkingarefni, þvottaefni, rotvarnarefni, hárnæringu og aðrar snyrtivörur og berast síðan út í náttúruna með fráveituvatni. Hingað til hefur lítil áhersla verið lögð á mælingar á styrk þessara efna, en þessar niðurstöður þykja gefa tilefni til að fylgjast betur með framvegis. Þó að lítið sé vitað um eiturefnafræðilega eiginleika efnanna var styrkur þeirra það hár í mörgum af sýnunum að líklegt verður að teljast að þau séu farin að hafa áhrif á lífríki sjávar á Norðurlöndunum.
(Sjá samantekt Nordic Screening frá 26. nóvember).