Minni innkaup gera fólk hamingjusamara en grænni innkaup

Umhverfismeðvituðu ungu fólki sem kaupir lítið af vörum líður að meðaltali betur en umhverfismeðvituðum jafnöldrum þeirra sem kaupa umhverfisvænar vörur. Þetta kom fram í langtímarannsókn Sabrínu Helm og félaga við Háskólann í Arizona, sem sagt er frá í tímaritinu Young Consumers. Í rannsókninni voru ýmsar spurningar lagðar fyrir fólk af Þúsaldarkynslóðinni (f. 1980-2000) sem allt hafði tamið sér umhverfisvæn gildi. Að mati rannsakendanna má skipta þessum hópi í tvo undirhópa, annars vegar þau sem hafa dregið úr neyslu, m.a. með því að forðast óþörf innkaup og með því að gera við hluti til að láta þá endast lengur og hins vegar þau sem „kaupa grænt“, þ.e. kaupa hluti sem hafa minni neikvæð áhrif á umhverfið en aðrir hlutir til sömu nota. Fyrrnefndi hópurinn var hamingjusamari og upplifði minni streitu. Sabrína Helm og félagar draga m.a. þá ályktun af þessu að efnishyggju fylgi aukið álag, jafnvel þótt efnishyggjan sé „græn“. Álagið getur stafað af meiri skuldum og flóknara lífi sem fylgir eignarhaldi og rekstri hluta.
(Sjá frétt Science Daily 8. október).

Danir kaupa sífellt fleiri tegundir af lífrænum vörum

Danir hafa lengi keypt meira af lífrænt vottuðum vörum en aðrar þjóðir, sérstaklega vörum á borð við mjólk, egg, gulrætur og aðra ferskvöru. Nú virðist eftirspurnin hins vegar vera farin að ná til fleiri vöruflokka en áður, því að á nýliðnu ári varð gríðarleg aukning í sölu á unnum matvælum með lífræna vottun, svo sem ávaxtasafa, víni, ís, sælgæti og tilbúnum réttum. Söluaukningin í þessum vörutegundum nam allt frá 30% upp í nokkur hundruð prósent. Vísindamenn við háskólann í Árósum segja þessa þróun vera dæmi um svonefnd rúllustigaáhrif, sem lýsa sér í því að þegar neytendur eru einu sinni komnir á bragðið liggur leiðin aðeins upp á við. Hvatinn á bak við þessa öru þróun er m.a. talinn vera vilji neytenda til að forðast „E-efni“ sem ekki eru leyfð í lífrænni framleiðslu.
(Sjá frétt á heimasíðu Økologisk landsforening 16. janúar).

Kolding fær grænu innkaupaverðlaunin 2015

indkoeb-foto_1170x400 (160x65)Sveitarfélagið Kolding fékk dönsku grænu innkaupaverðlaunin 2015, en verðlaunin voru afhent sl. fimmtudag á ráðstefnunni Ryd stenene af vejen (ísl. „Hreinsið grjótið af götunni“) þar sem aðilar sem sjá um útboð og innkaup báru saman bækur sýnar. Verðlaunin fékk Kolding fyrir innkaup á vistvænum vetnisbílum og samstarf um uppsetningu áfyllingarstöðvar fyrir vetni. Þrír aðrir aðilar voru tilnefndir til verðlaunanna, þ.e.a.s. Hróarskelduhátíðin fyrir átak sitt til að gera hátíðina umhverfisvænni, skrifstofuvöruverslanirnar Lyreco fyrir að aðstoða viðskiptavini sína við sjálfbær innkaup og Kaupmannahafnarborg og flutningafyrirtækið Bryde & Sønner fyrir sjálfbærniáherslur í flutningaþjónustu.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 6. nóvember).

Áskorun um vottuð opinber innkaup

modupp_puff_362Helstu umhverfisvottunarstofur í Svíþjóð hafa skorað á ríki og sveitarfélög að sjá til þess að helmingur opinberra innkaupa verði annað hvort umhverfis- eða siðgæðisvottaður af þriðja aðila fyrir árið 2020. Nú þegar hafa sveitarfélögin Örebro, Eskilstuna og Malmö tekið áskoruninni enda líta þau á vistvæna innkaupastefnu hins opinbera sem mikilvægan þátt í að sýna íbúum gott fordæmi. Áskorunin var gefin út af sjö helstu umhverfis- og siðgæðismerkingum Svíþjóðar, þ.e. Norræna svaninum, Umhverfismerki ESB, Bra Miljöval, Fairtrade, Krav, MSC og TCO Certified. Áskorunin er leið samtakanna til að benda á að nú sé tími til kominn fyrir opinbera geirann að nútímavæða innkaup sín og stuðla að því að Svíþjóð nái innlendum og alþjóðlegum markmiðum í umhverfisvernd og útrýmingu fátæktar. Opinberir aðilar í Svíþjóð kaupa vörur og þjónustu árlega fyrir um 600 milljarða sænskra króna (um 10.000 milljarða ísl. kr.), þannig að aukin áhersla á vottaðar vörur getur haft mikil áhrif á markaðinn.
(Sjá frétt Svansins í Svíþjóð 4. júní).

Réttlætismerking viðurkennd í opinberum innkaupum

FLO ESBStjórnvöld í löndum Evrópusambandsins geta hér eftir tekið fullt tillit til réttlætismerkinga („fairtrade vottunar“) í innkaupum sínum eftir að Evrópuþingið samþykkti nýja tilskipun um opinber innkaup í síðustu viku. Með þessu er staðfest sú niðurstaða Evrópudómstólsins í svonefndu Norður-Hollandsmáli að leyfilegt sé að láta „fairtrade uppruna“ gilda til stiga í opinberum útboðum.
(Sjá frétt á heimasíðu Fairtrade International 17. janúar).

Sænsk sveitarfélög kaupa meira lífrænt

????????Í Svíþjóð jukust innkaup opinberra aðila á lífrænum matvælum um 18% á síðasta ári og námu samtals um 1,6 milljarði sænskra króna (um 32 milljörðum ísl. kr). Þessi aukning er sögð vera afleiðing af markvissri innkaupastefnu sveitarfélaga og landsþinga. Alls seldust lífræn matvæli fyrir 9,5 milljarða króna (190 millj. ísl. kr), sem var 3% aukning frá árinu á undan.
(Sjá frétt Miljöaktuellt 1. febrúar).