Carlsberg sparar 1.200 tonn af plasti á ári með límdum dósum

Bjórframleiðandinn Carlsberg hóf í vikunni framleiðslu á nýjum sexum (e. sixpacks) þar sem bjórdósirnar eru límdar saman á hliðunum með sérhönnuðum límpunktum í stað þess að hanga saman í plastbelti. Með þessu móti vonast Carlsberg til að geta dregið úr plastnotkun um 1.200 tonn á ári, auk þess sem lífríkinu stafar ekki hætta af umbúðunum, framleiðslan verður minna háð jarðefnaeldsneyti og losun gróðurhúsalofttegunda minnkar. Þessi nýjung, sem nefnist „Snap Pack“ á ensku, er hluti af stóru sjálfbærniverkefni Carlsberg undir yfirskriftinni „Náum núlli saman“ (e. Together Towards Zero). Nýja sexan kemur fyrst á markað í Bretlandi (og í Noregi) en mun síðan breiðast út um önnur markaðssvæði Carlsberg.
(Sjá frétt Packaging Europe í gær).

Carlsberg skálar með lífbrjótanlegum bjórflöskum

Bjórframleiðandinn Carlsberg ætlar að þróa og framleiða fyrstu 100% lífbrjótanlegu bjórflöskuna, en samstarfið er hluti af framtaksverkefni Carlsberg um hringrásarhagkerfi. Græntrefjaflaskan verður framleidd úr viðartrefjum af sjálfbærum uppruna og hefur fyrirtækið gert 3ja ára samstarfssamning um þetta verkefni við umbúðafyrirtækið ecoXpac, Nýsköpunarsjóð Danmerkur og Tækniháskóla Danmerkur. Rekja má um 42% af kolefnisspori Carlsberg til umbúða og ætti þetta framtak því að geta dregið verulega úr losun fyrirtækisins. Vonir standa til að verkefnið marki tímamót í umbúðamenningu og verði þannig mikilvægt skref í átt að hringrásarhagkerfi án úrgangs.
(Sjá frétt EDIE 3. febrúar).