Með hjálp 10.000 sjálfboðaliða í 42 löndum hafa samtökin Greenpeace og Break Free from Plastic safnað plastrusli og skrásett nöfn fyrirtækjanna sem framleiddu plastið – og nú hafa þessar upplýsingar verið birtar í formi lista yfir 10 stórtækustu plastruslsframleiðendurna. Coca Cola trónir á toppi listans, en rusl þaðan var nánast alls staðar í einu af þremur efstu sætunum. Pepsi lenti í öðru sæti listans og Nestlé í því þriðja. Greenpeace hefur í framhaldi af þessu sett í gang átakið #IsThisYours, þar sem fólk er hvatt til að setja myndir af rusli inn á samfélagsmiðla, merktar framleiðandanum og átakinu.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet í gær).
Greinasafn fyrir flokkinn: Úrgangur
Örplast safnast upp í sandi á strandsvæðum
Örplast virðist safnast upp á sandströndum, ekki bara á yfirborðinu heldur líka á nokkru dýpi. Þetta kom fram í rannsóknum vísindamanna frá Háskólanum í Exeter á magni örplasts á tiltölulega afskekktum sandströndum á Kýpur. Þar fundust um 130.000 örplastagnir í hverjum rúmmetra sands á yfirborðinu og um 5.300 agnir í hverjum rúmmetra á 60 cm dýpi. Hærri talan er sú næsthæsta sem mælst hefur á strandsvæði. Örplastið getur breytt eðlisfræðilegum eiginleikum sandsins, þ.á.m. hitastigi, sem aftur getur truflað klak skjaldbökueggja sem mikið er af á þessu svæði. M.a. getur þetta hugsanlega skekkt kynhlutfall unganna, en þekkt er að hlutfallslega fleiri kvendýr koma úr eggjum þar sem sandurinn er heitari. Talið er að mest af örplastinu á ströndum Kýpur hafi komið frá fastalandinu við austanvert Miðjarðarhaf.
(Sjá frétt á heimasíðu Háskólans í Exeter 26. september).
Nýtt kurl minnkar mengun frá gervigrasi
Sænska fyrirtækið Unisport hefur hafið framleiðslu á kurli úr úrgangi frá vinnslu á sykurreyr. Nýja kurlinu er ætlað að koma í stað dekkjakurls á gervigrasvöllum. Kurlið brotnar niður í náttúrunni og ætti því ekki að leiða til örplastmengunar líkt og þekkt er með dekkjakurlið.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet 19. september).
Örplast dreifist með moskítóflugum
Örplast sem moskítólirfur innbyrða í vatni er að einhverju marki enn til staðar eftir að lirfan hefur umbreyst í fullvaxna flugu. Dýr sem nærast á lirfum og flugum fá því örplastið í sig og þannig getur það borist upp fæðukeðjuna. Þetta kom fram í rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Biology Letters. Örplast finnst í miklu magni í sjó og vötnum en ekki hefur áður verið sýnt fram á að það geti dreifst loftleiðis með skordýrum.
(Sjá frétt Science-X í dag).
Nýtt eldsneyti hjá Virgin Atlantic
Í næsta mánuði mun Boing 747 vél frá flugfélaginu Virgin Atlantic fljúga með farþega frá Orlando í Flórída til Gatwick-flugvallar við London á eldsneyti sem framleitt er úr kolefnisríku afgasi frá stálverksmiðjum. Framleiðsla eldsneytisins er árangur 7 ára þróunarstarfs LanzaTech í samvinnu við Virgin Airline. Þegar þessu eldsneyti er brennt sleppur um 70% minna af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið en við brennslu á hefðbundnu flugvélaeldsneyti, þar sem kolefnið sem um ræðir hefði að öðrum kosti sloppið beint út frá stálverksmiðjunum. Framleiðsla eldsneytisins er auk heldur hvorki í samkeppni við fæðuframleiðslu né aðra landnotkun. Að mati LanzaTech væri hægt að framleiða eldsneyti af þessu tagi við 65% af öllum stálverksmiðjum í heimi og afurðirnar myndu duga til að knýja einn fimmta af allri flugumferð á samkeppnishæfu verði.
(Sjá frétt Green Air Online 14. september).
Engar plastflöskur í Lundúnahálfmaraþoninu
Engar plastflöskur verða leyfðar í Lundúnahálfmaraþoninu sem fram fer nk. sunnudag. Þess í stað fá hlauparar afhenta sérstaka vatnspoka á drykkjarstöðvum, en þessir pokar eru gerðir úr þörungum og brotna auðveldlega niður í náttúrunni. Hlaupararnir geta þá hvort heldur sem er bitið gat á pokann og drukkið vatnið eða borðað pokann með innihaldinu. Þetta fyrirkomulag tengist annarri viðleitni borgaryfirvalda í London til að draga úr notkun á einnota plastflöskum, en talið er að á hverri mínútu sé um ein milljón slíkra flaskna seldar í heiminum. Stór hluti af þeim endar í urðun eða úti í sjó.
(Sjá frétt The Guardian í gær).
Carlsberg sparar 1.200 tonn af plasti á ári með límdum dósum
Bjórframleiðandinn Carlsberg hóf í vikunni framleiðslu á nýjum sexum (e. sixpacks) þar sem bjórdósirnar eru límdar saman á hliðunum með sérhönnuðum límpunktum í stað þess að hanga saman í plastbelti. Með þessu móti vonast Carlsberg til að geta dregið úr plastnotkun um 1.200 tonn á ári, auk þess sem lífríkinu stafar ekki hætta af umbúðunum, framleiðslan verður minna háð jarðefnaeldsneyti og losun gróðurhúsalofttegunda minnkar. Þessi nýjung, sem nefnist „Snap Pack“ á ensku, er hluti af stóru sjálfbærniverkefni Carlsberg undir yfirskriftinni „Náum núlli saman“ (e. Together Towards Zero). Nýja sexan kemur fyrst á markað í Bretlandi (og í Noregi) en mun síðan breiðast út um önnur markaðssvæði Carlsberg.
(Sjá frétt Packaging Europe í gær).
Oft góð eftir „Best fyrir“
Flokkur græningja í Svíþjóð (Miljöpartiet) vill að hætt verði að nota merkingu „Best fyrir“ á matvörur, þar sem hún leiði til óþarfrar matarsóunar. Til þess að koma þessu í kring þyrfti að breyta reglum Evrópusambandsins um merkingar og um það ætti líklega að geta náðst samstaða, þar sem stjórnvöld í flestum ríkjum segjast vilja draga úr matarsóun. Að einhverju leyti er þetta þó spurning um þýðingar á Evrópuregluverkinu. Það sem Svíar hafa þýtt sem „Bäst före“ hafa Danir t.d. þýtt sem „Mindst holdbar til“, sem felur í sér nokkuð önnur skilaboð til neytenda. Mjólkurrisinn Arla í Svíþjóð er farinn að prenta orðin „Oft gott eftir“ á umbúðir við hliðina á „Best fyrir“, þannig að vissulega eru ýmsar leiðir færar. Talið er að í Svíþjóð endi um 30% af öllum matvörum í ruslinu, en það er svipað og í öðrum Evrópulöndum.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet í dag)
Nýr leiðarvísir um örplast frá gervigrasvöllum
Umhverfisstofnun Svíþjóðar (Naturvårdsverket) hefur tekið saman sérstakan leiðarvísi fyrir rekstraraðila gervigrasvalla um aðgerðir til að koma í veg fyrir að plastkurl úr gervigrasinu berist út í umhverfið. Plastagnir (2-3 mm í þvermál) eru notaðar í miklum mæli sem fyllingarefni í gervigras og í ljós hefur komið að gervigrasvellir eru ein helsta uppspretta örplastmengunar í náttúrunni. Í leiðarvísinum er bent á nokkrar aðgerðir sem mælt er með að verði gripið til, þ.á.m. að safna snjó sem mokað er af gervigrasvöllum á þar til gerð svæði svo að hægt verði að safna plastkurlinu saman þegar snjóa leysir og koma því aftur inn á völlinn eða í úrgangsmeðhöndlun, í stað þess að leyfa því að renna til sjávar með ofanvatni. Þá er lagt til að útbúin verði aðstaða þar sem notendur vallanna geta dustað af sér kurlið á leiðinni útaf og að allir rekstraraðilar gangi frá sérstakri áætlun um mengunarvarnir.
(Sjá frétt á heimasíðu Naturvårdsverket 5. mars).
Enginn latteskattur
Ríkisstjórn Bretlands hefur hafnað tilmælum umhverfisúttektarnefndar breska þingsins frá því í janúar um að taka upp 25 pensa „latteskatt“ á einnota kaffimál. Í svari ríkisstjórnarinnar til nefndarinnar kemur hins vegar fram að stjórnin fagni því að einstök kaffihús bjóði fólki afslátt af kaffi ef það kemur með fjölnota mál. Mary Creagh, formaður umhverfisúttektarnefndarinnar, segir að þessi viðbrögð ríkisstjórnarinnar sýni að þar á bæ sé meira um orð en gjörðir. Einnota umbúðir skapa nú þegar mikinn vanda í Bretlandi og árlega henda Bretar um 2,5 milljörðum einnota kaffimála í ruslið.
(Sjá frétt Independent 9. mars).