Verðlaunabúnaður fangar örplast úr hjólbörðum

Hópur meistaranema við Imperial College og Royal College of Art í London hefur þróað búnað sem fangar örplastagnir úr hjólbörðum um leið og þær myndast. Fyrir þetta fá nemarnir bresku James Dyson verðlaunin og öðlast um leið rétt til að keppa um alþjóðlegu James Dyson verðlaunin sem afhent verða í 16. sinn í nóvember. Flestir vita að hjólbarðar slitna við notkun en færri virðast velta því fyrir sér hvað verður um efnið sem yfirgefur hjólbarðana við slitið. Áætlað er að árlega falli til um 500.000 tonn af örplastögnum úr hjólbörðum í Evrópu – og á heimsvísu er talið að slíkar agnir séu um helmingur af öllu svifryki frá umferð, auk þess að vera næststærsta uppspretta örplastmengunar í hafinu. Búnaðurinn sem um ræðir nýtir stöðurafmagn og loftstreymi frá hjólbörðum á hreyfingu til að soga til sín agnirnar um leið og þær losna. Uppfinningafólkið segir að þeim hafi þannig tekist að fanga 60% af öllum ögnum sem hjólbarðarnir gefa frá sér. Agnirnar má síðan endurvinna til að framleiða nýja hjólbarða og ýmsar aðrar vörur.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

Nýtt kurl minnkar mengun frá gervigrasi

Sænska fyrirtækið Unisport hefur hafið framleiðslu á kurli úr úrgangi frá vinnslu á sykurreyr. Nýja kurlinu er ætlað að koma í stað dekkjakurls á gervigrasvöllum. Kurlið brotnar niður í náttúrunni og ætti því ekki að leiða til örplastmengunar líkt og þekkt er með dekkjakurlið.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet 19. september).

Hjólbarðar stærsti hluti míkróplasts í Noregi

microplast_norge_160Um 8.000 tonn af míkróplasti berast árlega frá landi til sjávar í Noregi samkvæmt nýrri samantekt sem ráðgjafafyrirtækið Mepex tók saman fyrir Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet). Greining á uppruna leiddi í ljós að rúmur fjórðungur, eða um 2.250 tonn, átti rætur að rekja til slits á hjólbörðum. Um 650 tonn af míkróplasti komu frá viðhaldi og málun skipa og frístundabáta og um 400 tonn voru mengun frá plastframleiðslu. Ófullnægjandi úrgangsstjórnun skilar um 100 tonnum af míkróplasti í norska lögsögu árlega, en neytendavörur gefa aðeins frá sér um 4 tonn. Mikil umræða hefur verið um míkróplast í neytendavörum enda er notkun plastsins óþörf, auk þess sem neytendur geta haft bein áhrif á magnið með því að sniðganga slíkar vörur. Í rannsókninni var lögð áhersla á þrjár mismunandi farleiðir míkróplasts af landi í sjó, þ.e.a.s. með lofti, með skólpi og með yfirborðsvatni.
(Sjá frétt Miljødirektoratet í dag).