Nýtt eldsneyti hjá Virgin Atlantic

Í næsta mánuði mun Boing 747 vél frá flugfélaginu Virgin Atlantic fljúga með farþega frá Orlando í Flórída til Gatwick-flugvallar við London á eldsneyti sem framleitt er úr kolefnisríku afgasi frá stálverksmiðjum. Framleiðsla eldsneytisins er árangur 7 ára þróunarstarfs LanzaTech í samvinnu við Virgin Airline. Þegar þessu eldsneyti er brennt sleppur um 70% minna af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið en við brennslu á hefðbundnu flugvélaeldsneyti, þar sem kolefnið sem um ræðir hefði að öðrum kosti sloppið beint út frá stálverksmiðjunum. Framleiðsla eldsneytisins er auk heldur hvorki í samkeppni við fæðuframleiðslu né aðra landnotkun. Að mati LanzaTech væri hægt að framleiða eldsneyti af þessu tagi við 65% af öllum stálverksmiðjum í heimi og afurðirnar myndu duga til að knýja einn fimmta af allri flugumferð á samkeppnishæfu verði.
(Sjá frétt Green Air Online 14. september).

Samningur um losun frá flugumferð væntanlegur á næsta ári

flugumferdLíklegt þykir að samningur um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda frá flugumferð náist á næsta ári, en losun frá flugi fellur ekki undir loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna (SÞ). Samningagerð um samdrátt í losun frá flugumferð er í höndum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) og því er ekki minnst á flugumferð í nýjum loftslagssamningi SÞ. ICAO vinnur að þróun markaðslegra stjórntæka sem gera flugfélögum kleift að draga úr losun með kaupum á losunarheimildum og kolefnisjöfnun samhliða því sem unnið er að alþjóðlegum viðmiðunarmörkun fyrir hágmarkslosun frá flugvélum. Erfitt hefur reynst að ákveða hvernig flugfélög eigi að mæla og reikna losun og hvernig taka eigi á mismunandi efnahagsþróun í aðildarríkjum og hjá flugfélögum. Stofnunin vonast til að hægt verði að kynna flugfélögum markaðstengt fyrirkomulag í september á næsta ári þegar frekari útfærslur liggja fyrir.
(Sjá frétt PlanetArk 11. desember).

Fyrsti sólarorkuknúni flugvöllurinn

Kerala (160x104)Alþjóðaflugvöllurinn Cochin í Keralaríki á Indlandi er fyrsti flugvöllurinn í heimi sem gengur eingöngu fyrir sólarorku. Þann 18. ágúst sl. voru teknar í notkun 46.000 sólarsellur á um 18 hektara svæði í grennd við flugvöllinn. Sólarorkuverið framleiðir um 50-60 MWst af raforku á sólarhring, en dagleg orkuþörf flugvallarins er um 48 MWst/sólarhring sem samsvarar orkunotkun u.þ.b. 10 þúsund heimila. Umframorkan er send inn á dreifikerfið og nýtist þannig öðrum raforkunotendum.
(Sjá frétt ENN í gær).

Afísingarefni spilla jarðvegi og grunnvatni við flugvelli

flugvollur_160Efni á borð við própýlenglýkól og kalíumformat sem notuð eru við afísingu flugvéla og flugbrauta spilla jarðvegi og grunnvatni í nánd við flugvelli. Áhrifanna gætir helst á vorin þegar snjóa leysir en þá berst mikið af efnunum út í jarðveginn. Efnin brotna niður í jarðvegi með hjálp örvera, en örverurnar nota mikið súrefni og því er jarðvegur og vatn í kringum flugvelli mjög súrefnissnautt. Starfsemi í slíkum jarðvegi er lítil og því gerir hann lítið gagn við síun vatns og aðra vistkerfaþjónustu sem jarðvegur veitir alla jafna. Í skýrslu jarðvísindadeildar Friedrich Schiller University Jena um þessi áhrif eru taldar upp leiðir til að draga úr skaðsemi afísingarefnis, svo sem með því að stjórna flæði þess í jarðveg í leysingum, dæla súrefni í jarðveginn og koma efnunum í snertingu við örverur áður en þau sleppa út í náttúruna. Skýrslan er byggð á rannsókn sem gerð var á alþjóða flugvellinum í Osló, sem staðsettur er nærri vatnsbóli borgarbúa.
(Sjá frétt Science Daily í dag).

Aukin notkun lífeldsneytis í flugsamgöngum

flugvel_160Lífeldsneyti er í vaxandi mæli notað í flugsamgöngum, en á síðustu árum hafa um 40 flugfélög flogið um 600.000 mílur (hátt í milljón km) á slíku eldsneyti. Í skýrslu samtakanna NRDC kemur fram að flugfélög leggi sífellt meiri áherslu á íblöndun lífeldsneytis í flugvélaeldsneyti og á sama tíma hafi fyrirtækin ráðist í fjöldann allan af frumkvöðlaverkefnum á þessu sviði. Árlega losar flugið um 650 milljón tonn af koltvísýringi, sem samsvarar losun um 136 milljón bíla. Flugfélög heimsins stefna að því að losun frá flugsamgöngum nái hámarki árið 2020 og að árið 2050 verði nettólosunin helmingi minni en hún var 2005. Telja má víst að aukin notkun sjálfbærra orkugjafa sé undirstaða þess að hægt verði að standa við þessi fyrirheit.
(Sjá frétt EDIE í dag).