Örplast dreifist með moskítóflugum

Örplast sem moskítólirfur innbyrða í vatni er að einhverju marki enn til staðar eftir að lirfan hefur umbreyst í fullvaxna flugu. Dýr sem nærast á lirfum og flugum fá því örplastið í sig og þannig getur það borist upp fæðukeðjuna. Þetta kom fram í rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Biology Letters. Örplast finnst í miklu magni í sjó og vötnum en ekki hefur áður verið sýnt fram á að það geti dreifst loftleiðis með skordýrum.
(Sjá frétt Science-X í dag).

Skordýraeitur en ekki zika-veira orsök dverghöfuðs?

399421Hópar argentínskra og brasilískra lækna telja að ekki sé hægt að kenna zika-veirunni um fósturskaðafaraldurinn sem nú geisar í Brasilíu, þar sem fjöldi barna hefur fæðst með dverghöfuð (e. microcephaly). Ekki hafi verið sýnt fram á tengsl veirunnar við fósturskaðann, enda hafi veiran aðeins greinst í 17 dverghöfuðtilfellum af 404 sem skoðuð hafi verið. Þá hafi ekki komið upp eitt einasta dverghöfuðtilfelli hjá þeim 3.177 verðandi mæðrum sem greindar hafi verið með zika-veiru í Kólumbíu, og jafnvel á svæðum þar sem 75% íbúa eru smituð af zika-veirunni hafi engin fæðst með dverghöfuð. Læknarnir telja líklegra að fósturskaðann megi rekja til skordýraeitursins pýriproxýfens, sem notað hefur verið í stórum stíl á þeim svæðum þar sem flest dverghöfuðtilfellin hafa komið upp. Þar hefur efninu m.a. verið blandað í drykkjarvatn frá því á árinu 2014 í þeim tilgangi að drepa lirfur moskítóflugunnar.
(Lesið frétt The Ecologist 10. febrúar).

Loftslagsbreytingar gætu fært Bretum malaríu

MoskítóVirtir sérfræðingar á sviði heilbrigðismála hvetja bresk stjórnvöld til að bregðast nú þegar við vaxandi ógn sem stafar af malaríu og öðrum hitabeltissjúkdómum, svo sem beinbrunasótt og Vesturnílarveirunni, sem eiga það sameiginlegt að berast með moskítóflugum. Tilfellum slíkra sjúkdóma hefur fjölgað mjög í sunnanverðri Evrópu á allra síðustu árum og telja umræddir sérfræðingar að þeir kunni að berast tiltölulega hratt norður á bóginn samfara hækkandi hitastigi og aukinni úrkomu að sumarlagi, eins og spáð er að raunin verði á Bretlandseyjum á næstu árum. Á síðasta ári kom út skýrsla þar sem því var spáð að sjúkdómar af þessu tagi gætu haldið innreið sína á Bretlandi upp úr 2080, en nú  þykir líklegt að það gerist mun fyrr.
(Sjá frétt The Guardian 5. maí).