Örplast dreifist með moskítóflugum

Örplast sem moskítólirfur innbyrða í vatni er að einhverju marki enn til staðar eftir að lirfan hefur umbreyst í fullvaxna flugu. Dýr sem nærast á lirfum og flugum fá því örplastið í sig og þannig getur það borist upp fæðukeðjuna. Þetta kom fram í rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Biology Letters. Örplast finnst í miklu magni í sjó og vötnum en ekki hefur áður verið sýnt fram á að það geti dreifst loftleiðis með skordýrum.
(Sjá frétt Science-X í dag).

Kjötát fer vaxandi

KjötMannskepnan er tiltölulega neðarlega í fæðukeðjunni, en vaxandi kjötneysla í löndum á borð við Kína og Indland gerir það að verkum að hlutur kjöts í fæðunni vex jafnt og þétt á heimsvísu. Í grein sem birtist á dögunum í tímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences eru fæðuþrepastig (e. human trophic level (HTL)) reiknuð í fyrsta sinn fyrir mannkynið í heild og fyrir einstakar þjóðir. Meðalmaðurinn er með HTL=2,21 á kvarða sem nær frá 1 (plöntur) upp í 5,5 (algjörar kjötætur svo sem tígrisdýr og hákarlar). Ríkustu þjóðir heims raða sér í efstu sætin í þessum samanburði, en þar fer hlutfall kjöts í fæðu þó heldur lækkandi. Búrúndí er eitt þeirra land sem er neðst á listanum með HTL=2,04 (96,7% jurtafæði) en Ísland er í efsta flokki með HTL=2,57 (50% jurtafæði). Aukin kjötneysla er afar neikvæð í umhverfislegu tilliti, þar sem mun meira af vatni, landi og orku þarf til að framleiða kjöt en sama magn af jurtafæði.
(Sjá frétt á Mongabay.com í dag).