Nýtt kurl minnkar mengun frá gervigrasi

Sænska fyrirtækið Unisport hefur hafið framleiðslu á kurli úr úrgangi frá vinnslu á sykurreyr. Nýja kurlinu er ætlað að koma í stað dekkjakurls á gervigrasvöllum. Kurlið brotnar niður í náttúrunni og ætti því ekki að leiða til örplastmengunar líkt og þekkt er með dekkjakurlið.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet 19. september).

Nýr leiðarvísir um örplast frá gervigrasvöllum

Umhverfisstofnun Svíþjóðar (Naturvårdsverket) hefur tekið saman sérstakan leiðarvísi fyrir rekstraraðila gervigrasvalla um aðgerðir til að koma í veg fyrir að plastkurl úr gervigrasinu berist út í umhverfið. Plastagnir (2-3 mm í þvermál) eru notaðar í miklum mæli sem fyllingarefni í gervigras og í ljós hefur komið að gervigrasvellir eru ein helsta uppspretta örplastmengunar í náttúrunni. Í leiðarvísinum er bent á nokkrar aðgerðir sem mælt er með að verði gripið til, þ.á.m. að safna snjó sem mokað er af gervigrasvöllum á þar til gerð svæði svo að hægt verði að safna plastkurlinu saman þegar snjóa leysir og koma því aftur inn á völlinn eða í úrgangsmeðhöndlun, í stað þess að leyfa því að renna til sjávar með ofanvatni. Þá er lagt til að útbúin verði aðstaða þar sem notendur vallanna geta dustað af sér kurlið á leiðinni útaf og að allir rekstraraðilar gangi frá sérstakri áætlun um mengunarvarnir.
(Sjá frétt á heimasíðu Naturvårdsverket 5. mars).