Nýtt eldsneyti hjá Virgin Atlantic

Í næsta mánuði mun Boing 747 vél frá flugfélaginu Virgin Atlantic fljúga með farþega frá Orlando í Flórída til Gatwick-flugvallar við London á eldsneyti sem framleitt er úr kolefnisríku afgasi frá stálverksmiðjum. Framleiðsla eldsneytisins er árangur 7 ára þróunarstarfs LanzaTech í samvinnu við Virgin Airline. Þegar þessu eldsneyti er brennt sleppur um 70% minna af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið en við brennslu á hefðbundnu flugvélaeldsneyti, þar sem kolefnið sem um ræðir hefði að öðrum kosti sloppið beint út frá stálverksmiðjunum. Framleiðsla eldsneytisins er auk heldur hvorki í samkeppni við fæðuframleiðslu né aðra landnotkun. Að mati LanzaTech væri hægt að framleiða eldsneyti af þessu tagi við 65% af öllum stálverksmiðjum í heimi og afurðirnar myndu duga til að knýja einn fimmta af allri flugumferð á samkeppnishæfu verði.
(Sjá frétt Green Air Online 14. september).

Endurnýjanlegt þotueldsneyti í þróun

Vísindamenn við Háskólann í Delaware eru komnir áleiðis í viðleitni sinni til að framleiða samkeppnishæft þotueldsneyti úr lífmassa, nánar tiltekið úr beðmi og tréni úr viðarkurli og maískólfum. Einn helsti vandinn við nýtingu þessa hráefnis er sá hversu kolefniskeðjurnar eru orðnar stuttar og hlaðnar súrefnisfrumeindum þegar búið er að breyta lífmassanum úr föstu efni í fljótandi. Til að búa til nothæft þotueldsneyti, sem m.a. þarf að halda eiginleikum sínum í miklu frosti, þurfa einkum tvenns konar efnaferli að eiga sér stað. Þar er annars vegar átt við afoxun sameindanna og hins vegar samtengingu þeirra. Nýjungin í aðferðum vísindamannanna í Delaware felst einkum í nýjum efnahvötum, svokölluðum „efnageitum“, sem m.a. eru framleiddar úr einföldu grafeni. „Geiturnar“ gera það mögulegt að keyra nauðsynleg efnahvörf við mun lægri þrýstingi og lægra hitastig en áður (um 60°C í stað 350°C), auk þess að skila mjög góðri nýtingu hráefnisins. Efnahvörfin taka auk heldur skemmri tíma en fyrri aðferðir og efnahvatarnir eru endurvinnanlegir.
(Sjá umfjöllun Science Daily 30. október).

Aukin notkun lífeldsneytis í flugsamgöngum

flugvel_160Lífeldsneyti er í vaxandi mæli notað í flugsamgöngum, en á síðustu árum hafa um 40 flugfélög flogið um 600.000 mílur (hátt í milljón km) á slíku eldsneyti. Í skýrslu samtakanna NRDC kemur fram að flugfélög leggi sífellt meiri áherslu á íblöndun lífeldsneytis í flugvélaeldsneyti og á sama tíma hafi fyrirtækin ráðist í fjöldann allan af frumkvöðlaverkefnum á þessu sviði. Árlega losar flugið um 650 milljón tonn af koltvísýringi, sem samsvarar losun um 136 milljón bíla. Flugfélög heimsins stefna að því að losun frá flugsamgöngum nái hámarki árið 2020 og að árið 2050 verði nettólosunin helmingi minni en hún var 2005. Telja má víst að aukin notkun sjálfbærra orkugjafa sé undirstaða þess að hægt verði að standa við þessi fyrirheit.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Flugvélaeldsneyti framleitt úr notaðri matarolíu

fugvel_clipartFlugvélaframleiðandinn Boeing og kínverskur samstarfsaðili hafa reist tilraunaverksmiðju í austurhluta Kína til að framleiða flugvélaeldsneyti úr notaðri matarolíu. Verksmiðjan getur tekið við um 240.000 lítrum af matarolíu árlega, sem dugar til að komast að niðurstöðu um hagkvæmni framleiðslunnar. Samtals er talið að framleiða mætti um 1,8 milljarða lítra af eldsneyti úr allri þeirri notuðu matarolíu sem fellur til í Kína árlega. Notuð matarolía inniheldur eiturefni og getur því verið skaðleg heilsu. Auk þess hafa skipulögð glæpasamtök í Kína stundað það að safna notaðri matarolíu og selja hana aftur sem nýja. Með því að nýta olíuna í framleiðslu flugvélaeldsneytis eru þannig hægt að minnka umhverfisáhrif flugferða um leið og spornað er gegn ólöglegri sölu á olíunni.
(Sjá frétt Planet Ark 23. október).

Pappírslausar flugvélar

26251Með því að nota spjaldtölvur í stað útprentaðra farþegalista, flughandbóka, gátlista og annara skjala munu flugvélar flugfélagsins EasyJet léttast og með því sparast um 56 milljónir króna í eldsneyti árlega. Hver flugfarmur verður um 25 kg léttari, auk þess sem auðveldara verður að uppfæra skjöl. EasyJet er þekkt fyrir lág fargjöld og á síðustu misserum hefur félagið dregið verulega úr rekstrarkostnaði með því að seinka ræsingu véla, beita samfelldri aðflugstækni, minnka notkun aukarafstöðva á jörðu niðri, hanna léttari farþegasæti og nota léttari vagna í farþegarými svo eitthvað sé nefnt. EasyJet fullyrðir að kolefnisspor farþega flugfélagsins sé nú um 22% minna en hjá hefðbundnum flugfélögum.
(Sjá frétt EDIE 9. maí).

Vikulegt grænt flug yfir Atlantshafið

KLMHollenska flugfélagið KLM tilkynnti á dögunum að hér eftir verði boðið upp á flug milli New York og Amsterdam einu sinni í viku, þar sem eingöngu verður brennt endurnýjanlegu flugvélaeldsneyti úr notaðri matarolíu. Auk KLM hafa flugfélögin BA, Delta og Virgin Airlines lagt mikið fé í þróun endurnýjanlegs eldsneytis. Sérstaklega er horft til möguleika sem taldir eru liggja í framleiðslu eldsneytis úr þörungum.
(Sjá frétt BusinessGreen í gær).

Eldsneyti úr úrgangi á vélar British Airways

BABreska flugfélagið British Airways hefur gengið frá 10 ára samningi við fyrirtækið Solena um kaup á eldsneyti sem unnið verður úr heimilisúrgangi í GreenSky vinnslustöðinni austantil í London. Þegar stöðin verður komin í fulla notkun á hún að geta tekið við 500.000 tonnum af úrgangi á ári og framleitt úr honum 50.000 tonn af visthæfu flugvélaeldsneyti, auk 50.000 tonna af lífdísel og 40 megawatta af orku. Vinnslustöðin verður sú fyrsta í Evrópu sem framleiðir flugvélaeldsneyti með þessum hætti.
(Sjá frétt EDIE í gær).