Sænska fyrirtækið Unisport hefur hafið framleiðslu á kurli úr úrgangi frá vinnslu á sykurreyr. Nýja kurlinu er ætlað að koma í stað dekkjakurls á gervigrasvöllum. Kurlið brotnar niður í náttúrunni og ætti því ekki að leiða til örplastmengunar líkt og þekkt er með dekkjakurlið.
(Sjá frétt Aktuell hållbarhet 19. september).
Greinasafn fyrir merki: fótbolti
Nýr leiðarvísir um örplast frá gervigrasvöllum
Umhverfisstofnun Svíþjóðar (Naturvårdsverket) hefur tekið saman sérstakan leiðarvísi fyrir rekstraraðila gervigrasvalla um aðgerðir til að koma í veg fyrir að plastkurl úr gervigrasinu berist út í umhverfið. Plastagnir (2-3 mm í þvermál) eru notaðar í miklum mæli sem fyllingarefni í gervigras og í ljós hefur komið að gervigrasvellir eru ein helsta uppspretta örplastmengunar í náttúrunni. Í leiðarvísinum er bent á nokkrar aðgerðir sem mælt er með að verði gripið til, þ.á.m. að safna snjó sem mokað er af gervigrasvöllum á þar til gerð svæði svo að hægt verði að safna plastkurlinu saman þegar snjóa leysir og koma því aftur inn á völlinn eða í úrgangsmeðhöndlun, í stað þess að leyfa því að renna til sjávar með ofanvatni. Þá er lagt til að útbúin verði aðstaða þar sem notendur vallanna geta dustað af sér kurlið á leiðinni útaf og að allir rekstraraðilar gangi frá sérstakri áætlun um mengunarvarnir.
(Sjá frétt á heimasíðu Naturvårdsverket 5. mars).
Eiturefni í söluvarningi fyrir HM 2014
Varningur frá Nike, Adidas og Puma sem ætlaður er til sölu í tengslum við heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu sem hefst í Ríó í næsta mánuði, inniheldur ýmis skaðleg efni yfir leyfilegum mörkum að því er fram kemur í nýrri skýrslu Greenpeace, A Red Card for Sportswear Brands. Skýrslan byggir á greiningu á 33 vörutegundum sem settar hafa verið á markað í tilefni af keppninni, nánar tiltekið 21 tegund af fótboltaskóm, 7 bolum, fjórum mismunandi markmannshönskum og hinum opinbera fótbolta mótsins. Óháðar rannsóknarstofur í Þýskalandi og Bretlandi fundu meðal annars perflúorkolefni (PFC), nónýlfenóletoxýlat (NPE), þalöt og dímetýlformamíð (DMF) í vörunum, en þessi efni eru talin vera krabbameinsvaldandi, hormónaraskandi og hafa áhrif á frjósemi. Allir skór sem skoðaðir voru innihéldu bæði þalöt og DMF og 13 skótegundir af 21 innihéldu PFC yfir leyfilegum mörkum Evrópusambandsins í textílvöru. Fyrirtækin þrjú taka öll þátt í DETOX-verkefni Greenpeace sem hefur það að markmiði að hætta notkun á skaðlegum efnum fyrir árið 2020.
(Sjá frétt Fashion Forum í dag).