Gerð svifryks skiptir ekki síður máli en magnið

Vitað er að svifryk hefur skaðleg áhrif á heilsu. Samkvæmt nýrri rannsókn vísindamanna við Paul Scherrer Institute (PSI) í Sviss ráðast þessi áhrif þó að öllum líkindum ekki fyrst og fremst af magni svifryksins, heldur af samsetningu þess, nánar tiltekið af „oxunargetu“ (e. oxidative potential) svifryksagnanna. Með „oxunargetu“ er átt við getu agnanna til að eyða andoxunarefnum í frumum líkamans, sem síðan getur leitt til frumu- og vefjaskemmda. Stór hluti svifryks er svokallað steinefnasvifryk úr jarðvegi, ásamt ólífrænum ögnum sem innihalda m.a. ammóníumnítrat og súlfat. Þetta ryk hefur ekki mikla „oxunargetu“. Öðru máli gegnir um „manngert ryk“ á borð við sótagnir og málmagnir úr bremsuborðum og dekkjasliti. Þetta þýðir að íbúar þéttbýlis búa ekki aðeins við meira svifryk en íbúar dreifbýlis, heldur er þéttbýlissvifrykið einnig skaðlegra heilsunni. Samkvæmt þessu er ekki nóg að setja reglur um magn svifryks, heldur þarf einnig að taka tillit til samsetningar þess.
(Sjá frétt ScienceDaily í gær)

Vísbendingar um tengsl loftmengunar við Alzheimer, Parkinson og MND

Vísindamenn við Háskólann í Lancaster hafa sýnt fram á tengsl loftmengunar við hrörnunarsjúkdómana Alzheimer, Parkinson og MND. Málmríkar nanóagnir frá umferð og merki um forstig sjúkdómanna fundust í heilum ungmenna frá Mexíkóborg sem búið höfðu við mikla loftmengun, en hvorki agnirnar né sjúkdómsmerkin fundust í heilum ungmenna frá minna menguðum svæðum. Rannsóknin náði til samtals 186 ungmenna á aldrinum 11 mánaða til 27 ára, sem öll höfðu látist af orsökum sem ekki tengdust efni rannsóknarinnar. Merki um forstig sjúkdómanna fundust á öllu aldursbilinu.
(Sjá frétt Science Daily 6. október).

Verðlaunabúnaður fangar örplast úr hjólbörðum

Hópur meistaranema við Imperial College og Royal College of Art í London hefur þróað búnað sem fangar örplastagnir úr hjólbörðum um leið og þær myndast. Fyrir þetta fá nemarnir bresku James Dyson verðlaunin og öðlast um leið rétt til að keppa um alþjóðlegu James Dyson verðlaunin sem afhent verða í 16. sinn í nóvember. Flestir vita að hjólbarðar slitna við notkun en færri virðast velta því fyrir sér hvað verður um efnið sem yfirgefur hjólbarðana við slitið. Áætlað er að árlega falli til um 500.000 tonn af örplastögnum úr hjólbörðum í Evrópu – og á heimsvísu er talið að slíkar agnir séu um helmingur af öllu svifryki frá umferð, auk þess að vera næststærsta uppspretta örplastmengunar í hafinu. Búnaðurinn sem um ræðir nýtir stöðurafmagn og loftstreymi frá hjólbörðum á hreyfingu til að soga til sín agnirnar um leið og þær losna. Uppfinningafólkið segir að þeim hafi þannig tekist að fanga 60% af öllum ögnum sem hjólbarðarnir gefa frá sér. Agnirnar má síðan endurvinna til að framleiða nýja hjólbarða og ýmsar aðrar vörur.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

Svifryksagnir fósturmegin á fylgju

Talsvert magn af ögnum úr menguðu lofti, svo sem frá umferð, er að finna fósturmegin á fylgjum að því er fram kemur í nýrri rannsókn Hasselt háskóla í Belgíu. Fjöldi agnanna er jafnframt meiri eftir því sem hinar verðandi mæður hafa andað að sér meiru af menguðu lofti. Þetta þýðir að fóstur í móðurkviði komast í beina snertingu við agnir af þessu tagi. Áður hefur verið sýnt fram á tengsl loftmengunar við fósturlát, fyrirburafæðingar og lækkaða fæðingarþyngd, en þessar nýju niðurstöður gefa sterkari vísbendingar en áður um að agnirnar sjálfar hafi þessi áhrif frekar en að þau séu afleiðing bólgusvörunar í líkama móðurinnar. Höfundar rannsóknarinnar benda á að það sé á ábyrgð stjórnvalda að draga úr loftmengun, en að verðandi mæður ættu jafnframt að halda sig sem fjærst stórum umferðaræðum og öðrum uppsprettum loftmengunar.
(Sjá frétt Guardian 17. september).