Kínverskir vísindamenn hafa þróað búnað sem getur breytt vindorku í rafmagn, jafnvel þótt vindhraðinn sé ekki nema 1,6 m/sek. Um er að ræða hylki með tveimur plastborðum innan í, sem flaksast til í vindinum. Slík hylki gætu jafnvel framleitt rafmagn úr loftstraumum sem myndast þegar göngufólk sveiflar höndunum. Vonir standa til að hægt verði að nota búnað af þessu tagi til að knýja öryggismyndavélar, skynjara og jafnvel veðurstöðvar á afskekktum stöðum.
(Sjá frétt The Guardian 23. september).
Greinasafn fyrir merki: Kína
Hægt að minnka plastmengun hafsins um 77% fyrir árið 2025
Með því að fjárfesta í úrbótum í úrgangsmálum fátækari landa væri hægt að minnka verulega það magn af plastúrgangi sem berst í hafið árlega. Árið 2025 gæti magnið verið komið niður í 2,4-6,4 milljónir tonna, sem samsvarar um 77% samdrætti frá því sem nú er. Þessar tölur koma fram í nýrri skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins Nextek sem kynnt var í vikunni. Þar er bent á að enn séu ekki til neinar árangursríkar aðferðir til að hreinsa plast úr hafinu og að því verði að leggja megináherslu á að fyrirbyggja að plastið berist þangað. Skref í þessa átt væri að nota eingöngu endurnýjanlegar umbúðir, enda hafi menn enga afsökun fyrir því að gera það ekki. Þá þurfi ríkari lönd að veita verulegu fé til úrbóta í úrgangsmeðhöndlun í fátækari löndum, en ástandið er einna verst í Kína, Indónesíu, Filippseyjum og Sri Lanka. Þegar skýrslan var kynnt kom fram að plastmengun í hafi væri orðin svo alvarleg að hún þyrfti að vera á dagskrá allra alþjóðlegra funda á borð við fundi G20-ríkjanna, Alþjóðaefnahagsráðsins (World Economic Forum) og Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna.
(Sjá frétt Waste Management World í dag).
Kínversk stórborg rafvæðir allan strætóflotann
Borgaryfirvöld í Shenzhen í Kína hafa lokið við að rafvæða allan strætisvagnaflota borgarinnar, samtals 16.359 vagna, en ákvörðun um rafvæðingu var tekin árið 2011. Strætisvagnarnir í Shenzhen eru þrefalt fleiri en í New York, en samtals þjónar flotinn um 12 milljón manna byggð. Til að gera þessi orkuskipti möguleg hafa verið settar upp rúmlega 300 hleðslustöðvar fyrir strætisvagna í borginni, þar sem hægt er að fullhlaða rafhlöður vagnanna á 2 klst. Auk þess hafa verið settir upp 8.000 nýir ljósastaurar sem jafnframt gegna hlutverki hleðslustöðva fyrir bæði fólksbíla og strætisvagna. Með orkuskiptunum sparast um 345.000 tonn af dísilolíu á ári og losun koltvísýrings minnkar um 1,35 milljónir tonna. Borgaryfirvöld vinna nú að því að rafvæða alla leigubíla í borginni, en þeir eru um 17.000 talsins. Nú þegar eru 12.518 þeirra rafknúnir og standa vonir til að þessu verkefni verði lokið í síðasta lagi árið 2020.
(Sjá frétt á umhverfisfréttasíðu Yale-háskólans 3. janúar).
Meira en helmingur nýrrar orku endurnýjanleg
Á árinu 2015 var uppsett afl nýrra orkuvera sem framleiða endurnýjanlega orku í fyrsta sinn meira en nýrra orkuvera sem byggja á brennslu jarðefnaeldsneytis. Nettóviðbótin í endurnýjanlega orkugeiranum var 153 GW, sem er 15% aukning frá árinu áður. Dr Fatih Birol, framkvæmdastjóri Alþjóða orkumálastofnunarinnar (IEA), segir að heimsbyggðin sé að verða vitni að orkuskiptum sem muni gerast mjög hratt. Horfur séu á að Evrópubúar séu að tapa frumkvæðinu á þessu sviði til Kínverja og að líkja megi Evrópu við maraþonhlaupara sem hafi fengið dágóða forgjöf í startinu, verið langfyrstur eftir hálft maraþon en sé nú farinn að þreytast, þannig að hinir hlaupararnir séu að síga fram úr hægt og örugglega.
(Sjá frétt The Guardian í dag).
Sólarsellur með grafenfilmu gætu framleitt raforku í rigningu
Filma úr efninu grafen, sem hægt er að vinna úr grafíti, gæti gert það mögulegt að framleiða raforku í sólarsellum í rigningu. Grafen er tvívítt form kolefnis sem hefur þann eiginleika að leiða vel rafmagn og innihalda mikið af rafeindum sem geta ferðast óbundnar um efnið. Regnvatn inniheldur sölt sem leysast upp í jákvætt og neikvætt hlaðnar jónir. Þegar regndroparnir snerta yfirborð grafenfilmunnar tekur grafenið til sín óbundnar rafeindir en vatnið verður þeim mun ríkara af jákvætt hlöðnum jónum, svo sem natríum, kalsíum og ammóníumjónum. Þannig myndast tvöfalt lag rafeinda og jákvætt hlaðinna jóna og skilyrði skapast til að mynda spennu og rafstraum. Frekari þróun tækninnar getur aukið afköst sólarsella þar sem hægt verður að framleiða rafmagn þótt sólar njóti ekki.
(Sjá frétt Science Daily í dag).
Loftmengun eykur líkur á offitu
Loftmengun í því magni sem þekkist í Peking truflar starfsemi hjarta- og æðakerfis, lungna og öndunarfæra og eykur auk þess líkur á offitu, ef marka má nýja rannsókn frá Duke University. Rannsóknin var gerð á músum á tilraunastofu þar sem hópur af músum bjó í Peking-lofti og samanburðarhópur í hreinu lofti. Eftir um 20 daga var orðinn mikill munur á líkamlegu ástandi músanna. Mýsnar sem höfðu verið í menguðu lofti voru almennt þyngri en hinar þrátt fyrir sömu matarskammta. Þær höfðu einnig 50% hærra lágþéttnikólesteról, 46% meira þríglýseríð, 97% hærra samanlagt kólesterólmagn og meira insúlínþol, sem er undanfari sykursýki 2. Þessar niðurstöður eru í takt við fyrri rannsóknir sem gefa til kynna að loftmengun auki insúlínþol og breyti efnaskiptum í fituvef. Samkvæmt þessu má ætla að barátta gegn loftmengun geti skipt miklu máli til að sporna gegn offitu hjá fólki, en offita er nú þegar mikil ógn við lýðheilsu.
(Sjá frétt Science Daily 19. febrúar).
2.500 mengandi fyrirtækjum lokað í Peking
Yfirvöld í Peking hafa tilkynnt að þau hyggist loka 2.500 litlum mengandi fyrirtækjum í borginni á þessu ári til að stuðla að bættum loftgæðum. Í desember var öðru sinni lýst yfir rauðu ástandi í borginni vegna loftmengunar, en þá er skólum lokað og bannað að vinna utanhúss. Á árinu 2015 mældist fínt svifryk (<2,5 µm) að meðaltali 80,6 míkrógrömm á rúmmetra í Peking, en það er um 1,3 sinnum meira en landslög kveða á um. Fyrirtækin sem lokað verður eru m.a. veitingastaðir, hótel og verkstæði. Yfirvöld í Kína hyggjast draga úr kolabrennslu og loka mengandi stóriðju, en ólíklegt þykir að landið nái markmiðum sínum um loftgæði fyrr en eftir 2030.
(Sjá frétt Reuters 9. janúar).
Loftmengun dregur úr fæðingarþyngd
Börn sem fæddust mánuði eftir Ólympíuleikana í Peking 2008 voru um 23 g þyngri en börn sem fæddust á sama tíma árs árin 2007 og 2009. Í aðdraganda leikanna og á meðan á þeim stóð gripu stjórnvöld til margvíslegra aðgerða til að draga úr loftmengun í borginni, svo sem með því að takmarka umferð, loka stóriðjuverum og stöðva byggingarverkefni. Þessar aðgerðir höfðu í för með sér 60% samdrátt í styrk brennisteinstvíoxíðs (SO2), 48% minni kolsýring (CO), 43% minna köfnunarefnistvíoxíð (NO2) og samdrátt í magni svifryks. Raundæmarannsókn Læknaseturs Háskólans í Rochester benti til að meiri fæðingarþyngd á þessu tímabili væri afleiðing af aðgerðum til að draga úr loftmengun. Loftmengun getur haft mikil áhrif á vöxt og þróun fósturs á síðasta stigi meðgöngu, enda fer mikið af líkamlegum vexti, þróun miðtaugakerfis, hjarta- og æðakerfis og vöðvakerfis fram á þessu stigi.
(Sjá frétt Science Daily í dag).
Dregur loks úr kolabrennslu í Kína
Á árinu 2014 varð í fyrsta sinn samdráttur í kolanotkun Kínverja, en þennan samdrátt má rekja til hraðrar uppbyggingar endurnýjanlegra orkuvera, aukinnar orkunýtni og minnkandi áherslu stjórnvalda á uppbyggingu stóriðju. Kolanotkunin minnkaði þannig um 2,1% milli áranna 2013 og 2014, en hafði áður aukist jafnt og þétt síðan í byrjun aldarinnar í takt við vaxandi þjóðarframleiðslu. Aðgerðir stjórnvalda í Kína til að draga úr kolanotkun stuðla að bættum loftgæðum en eru jafnframt undirstaða þess að Kína geti staðið við nýgerðan samning við Bandaríkin varðandi losun gróðurhúsalofttegunda. Helmingur af þeirri aukningu sem orðið hefur á CO2-losun í heiminum síðustu 10 ár á rætur að rekja til vaxandi kolabrennslu í Kína.
(Sjá frétt EDIE í dag).
Kínversk stjórnvöld hvetja til málaferla gegn mengunarvöldum
Kínversk stjórnvöld kynntu í síðustu viku löggjöf sem gefur frjálsum félagasamtökum, hópum náttúruverndarsinna og öðrum hópum hagsmunaaðila aukin réttindi til að lögsækja mengunarvalda. Hópar sem standa í málaferlum sem miða að því að draga úr mengun í Kína munu m.a. fá afslátt af málskostnaði, auk þess sem félagasamtök fá aukið svigrúm til að höfða mál gegn fyrirtækjum án tillits til þess hvar fyrirtækin eru skráð. Nýlegar rannsóknir benda til að í dag séu um 2/3 af jarðvegi í Kína mengaðir, svo og um 60% af öllu grunnvatni. Þá er Kína með hæstu losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Stjórnvöld lýstu á síðasta ári yfir stríði gegn mengun og er aðgerðin liður í þeirri baráttu.
(Sjá frétt the Guardian 7. janúar).