Horfur á stórfelldum samdrætti í fiskveiðum

Líkur eru á að árið 2300 verði fiskafli í heiminum að meðaltali 20% minni en hann er nú og að í Norður-Atlantshafi verði samdrátturinn um 60%. Þetta kemur fram í grein sem vísindamenn við Háskólann í Kaliforníu rita í nýjasta tölublað Science. Með hækkandi hitastigi sjávar og bráðnun íss á heimskautasvæðunum mun ljóstillífun plöntusvifs við Suðurskautslandið vaxa verulega, sem þýðir að næringarefni (einkum köfnunarefni og fosfór) hætta að berast þaðan til annarra hafsvæða í sama mæli og nú. Þar af leiðandi mun plöntusvifi fara hnignandi á þeim svæðum og sú hnignun mun ganga upp alla fæðukeðjuna.
(Sjá frétt Science Daily 8. mars).

Hlýnun sjávar eykur líkur á farsóttum í sjávardýrum

lobsterHækkandi hitastig sjávar eykur líkur á smitsjúkdómum í sjávarlífverum og stuðlar jafnvel að hruni stofna, ef marka má tvær nýjar rannsóknir Cornell Háskólans í Bandaríkjunum. Í annarri rannsókninni voru áhrif hlýnunar sjávar á krossfiska við vesturströnd Bandaríkjanna skoðuð og kom þar fram að hægt var að rekja dauða um 90% krossfiskastofna á svæðinu frá Mexíkó að Alaska til hitabylgju á árunum 2013-2014. Í hinni rannsókninni kom fram að hitastig getur haft áhrif á farsóttir í stofnum skjaldbaka, kórala, humars, skelfisks og marhálms. Þannig er Ameríkuhumar mjög viðkvæmur fyrir breytingum á hitastigi, en humarinn er mikilvægur fyrir efnahag Maine-ríkis nyrst á austurströnd Bandaríkjanna. Erfitt er að koma í veg fyrir smit vegna hækkandi hitastigs, en höfundar rannsóknanna benda á mikilvægi þess að flytja ekki lífverur milli svæða, auk þess sem fylgjast þarf með sveiflum í hitastigi til að geta séð hitabylgjur fyrir.
(Sjá frétt Science Daily 16. febrúar).

Ræktun dökkra skóga stuðlar að hnattrænni hlýnun

74116Aukin ræktun barrskóga í Evrópu á kostnað laufskóga virðist flýta fyrir hnattrænni hlýnun að því er fram kemur í nýrri rannsókn sem sagt er frá í vísindatímaritinu Science, en hingað til hefur öll skógrækt verið talin til þess fallin að sporna gegn loftslagsbreytingum. Skóglendi í Evrópu hefur stækkað um 196.000 ferkílómetra (u.þ.b. tvöfalda stærð Íslands) frá því um 1750. Þessa stækkun má rekja til mikillar ræktunar dökkgrænna fljótsprottinna barrtrjáa, svo sem furu og grenis, en á þessu tímabili hafa barrskógar í álfunni stækkað um 633.000 ferkílómetra á sama tíma og ljósari laufskógar hafa minnkað um 436.000 ferkílómetra. Ljós lauftré á borð við eik og birki endurkasta meira sólarljósi út í geiminn en dekkri lauftré og munurinn sem í þessu liggur er sagður gera meira en vega upp á móti meiri kolefnisbindingu í fljótsprottnum barrtrjám. Höfundar rannsóknarinnar telja að stjórnvöldum dugi ekki að taka einungis tillit til kolefnisbindingar í stefnumótun sinni í skógrækt, heldur þurfi líka að taka lit skógarins með í reikninginn, svo og áhrif hans á jarðveg og raka.
(Sjá frétt PlanetArk 5. febrúar).

Hlýnun sjávar dregur úr afla í Norðursjó

fishing_northsea_160Draga mun úr þéttleika og stærð mikilvægra nytjastofna í Norðursjó í takt við hækkandi hitastig í sjónum, ef marka má rannsókn Háskólans í Exeter á þróun ýsu, kola og þykkvalúru í breskri lögsögu. Fram kemur í rannsókninni að hlýnunin í Norðursjó hafi verið um fjórfalt meiri en meðalhlýnun heimshafanna síðustu 40 ár. Ýsa, koli og lúra eru einna algengustu fisktegundirnar á matardiskum Breta, en þær eiga það sameiginlegt að kjósa búsvæði í köldum sjó á allmiklu dýpi. Þegar hitastig hækkar leita þessar tegundir á kaldari svæði, en vísindamenn telja að dýpt sjávar á nærliggjandi og norðlægari svæðum sé minni en svo að þessar tegundir ná að aðlaðast búsvæðum þar. Þær séu þannig í raun innikróaðar og þess vegna muni draga úr þéttleika og stærð stofnanna á næstu árum.
(Sjá frétt Science Daily 13. apríl).

Svæfingarlyf ýta undir hlýnun jarðar

anesthetic_160Svæfingagös á borð við desflúran, ísóflúran og sevóflúran eru farin að safnast fyrir í andrúmsloftinu og ýta undir hlýnun jarðar samkvæmt nýrri rannsókn American Geophysical Union. Efnin hafa mælst í andrúmslofti alla leið til Suðurheimskautsins og hefur styrkur þeirra aukist jafnt og þétt á síðustu áratugum. Þó að um mjög lítið magn sé að ræða ber að hafa í huga að þessi efni eru um 2.500 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegundir en koltvísýringur og því getur lítið magn haft áhrif. Í umræddri rannsókn var magn svæfingarlyfja í andrúmslofti reiknað út frá loftmælingum á heimskautasvæðum og raunmælingum sem gerðar hafa verið í Sviss frá árinu 2013. Hægt er að koma í veg fyrir að svæfingarlyf sleppi út í andrúmsloftið auk þess sem nýta má önnur lyf með minni hnatthlýnunarmátt.
(Sjá frétt Science Daily 7. apríl).

Er hnattræn hlýnun hættulegri en loftslagsbreytingar?

climatechange_globalwarmingBandaríkjamenn hafa áhyggjur af hnattrænni hlýnun en er nokkuð sama um loftslagsbreytingar ef marka má niðurstöður samstarfsverkefnis háskólanna Yale og George Mason. Verkefnið leiddi í ljós að hugtökin tvö, hnattræn hlýnun og loftslagsbreytingar sem gjarnan eru notuð sem samheiti í daglegri umræðu, vekja mjög ólík viðbrögð hjá fólki. Þannig eru Bandaríkjamenn 13% líklegri til að líta á hnattræna hlýnun sem vandamál en loftslagsbreytingar. Fólk virðist tengja hnattræna hlýnun við bráðnum jökla, hækkandi sjávarborð, ofsaveður, o.s.frv. Hins vegar hefur hugtakið loftslagsbreytingar ekki þessa sömu skírskotun í hugum fólks. Munurinn er enn meiri meðal minnihlutahópa, kvenna og ungs fólks, en sem dæmi má nefna að Bandaríkjamenn af Suður-amerískum uppruna eru 30% líklegri til að telja sér stafa ógn af hnattrænni hlýnun en loftslagsbreytingum. Samkvæmt þessu skiptir miklu máli hvaða hugtök eru notuð þegar rætt er við fólk um þessi mál.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

Kolefniskvótinn uppurinn 2034 með sama áframhaldi

CO2 EDIEStærstu hagkerfi heimsins þurfa að draga úr kolefniskræfni sinni (koltvísýringslosun á hverja framleiðslueiningu (e. carbon intensity)) um 6% á ári ef takast á að viðhalda hagvexti án þess að meðalhitastig í heiminum hækki um meira en 2°C á þessari öld, ef marka má nýja skýrslu frá Pricewaterhouse Coopers. Í skýrslunni kemur einnig fram að á síðustu fimm árum hafi kolefniskræfnin aðeins minnkað um 0,7% á ári, og að jafnvel þótt þessi tala væri tvöfölduð muni hitastig hækka um 4°C fyrir aldamót, þ.e. í líkingu við svörtustu spá IPCC (Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar). Ef svo heldur sem horfir verði kolefniskvóti jarðarbúa uppurinn árið 2034, sem þýðir að þá yrði að hætta losun alfarið til að komast hjá hlýnun umfram 2°C.
(Sjá frétt EDIE 4. nóvember).

Banvæn þrenning ógnar höfunum

Hvalir GL ReutersNiðurstöður alþjóðlegrar rannsóknar sem kynntar voru fyrr í dag benda til að samverkandi áhrif hlýnunar, súrnunar og minnkandi súrefnismettunar hafi mun meiri skaðleg áhrif á lífríkið í höfunum en menn hafa áður gert sér grein fyrir, og er jafnvel talað um „banvæna þrenningu“ í þessu sambandi. Hafið hlýnar smám saman vegna hlýnunar andrúmsloftsins, súrnar vegna upptöku koltvísýrings úr andrúmsloftinu og verður súrefnissnauðara vegna aukins þörungagróðurs í kjölfar útskolunar næringarefna frá landi. Ástandið í höfunum er orðið svipað því sem það var á Paleósen-Eósen mörkunum fyrir um 55 milljónum ára þegar fjöldi tegunda dó út. Breytingarnar sem nú eru að verða gerast hins vegar mun hraðar en þá.
(Sjá frétt Reuters í dag)